Loksins útreikningar á því hvað "eitthvað annað" gefur af sér.

Iðnbyltingin svonefnda hófst á 18. öld. Grunnhugsun hennar var að nota nýja orkutækni til framleiðslu á vörum, sem hægt var að vigta og telja í tonnum og skapa með því neyslusamfélag þar sem neyslan var mæld í þyngdar- og fjöldaeiningum.  

Verksmiðjur voru krafan, og stóriðja, þungaiðnaður, táknaði máttinn og dýrðina. 

Stóriðjan kom ekki til Íslands fyrr en hálfri öld á eftir flestum öðrum vestrænum löndum og afleiðinganna hefur líka séð stað hálfri öld lengur. 

Ný könnun á Austurlandi sýnir að ofuráherslan á risaverksmiðju með karllægum störfum hefur bitnað á konum í fjórðungnum og þær vilja að gerðar séu ráðstafanir til að hamla gegn því. 

Því að síðustu áratugi hefur komið í ljós að það er fjöldi kvenna á barneignaaldri, sem ræður úrslitum um íbúafjölda en ekki fjöldi karla, sem vinna í verksmiðjum. 

Vafasamt er að nokkru verði breytt fyrir austan. Fólk vildi þetta þegar stóra ákvörðunin var tekin og andmælendur voru úthrópaðir, kallaðir óvinir Austurlands og hugmyndir þeirra afgreiddar sem bábiljan "eitthvað annað" og "fjallagrasatínsla." 

Í útvarpsumræðum frá Alþingi í gærkvöldi var tvívegis minnst á rannsóknir á árangri fjárfestinga í því sem var úthrópað sem "eitthvað annað."

Þar kom fram að fjárfestingar vegna þjóðgarðsins yst á Snæfellsnesi skiluðu sér þannig, að fyrir hverja eina krónu komu 50 til baka. 

Vitað er að Vatnajökulsþjóðgarður hefur þegar skapað bein föst störf í tugatali, þar sem meirihlutinn er konur á barneignaaldri. 

En meirihluti ráðamanna í Árneshreppi vill frekar láta reisa virkjun, sem skapar ekkert beint starf í hreppnum og telur að hugmyndir á borð við Drangajökulsþjóðgarð séu of seint fram komnar, en þetta viðhorf byggist á því skammtímasjónarmiði að nýta umsvif við virkjanaframkvæmdir, sem standa í örfá ár og hafa svipuð áhrif og virkjun Blöndu hinum megin við Húnaflóann, mestu fólksfækkun í sögu héraðsins eftir að virkjanaframkvæmdum lauk.  

Ferðaþjónustan er dæmi um "eitthvað annað" og hefur þvert ofan í úrtöluraddir skapað mestu lífskjarasókn og tekjur síðustu sjö ár en dæmi eru um áður. 

Fyrirsögnin á tengdri frétt á mbl.is er "Hver króna skilar sér áttfalt til baka." Er þar átt við hugverkadrifið samfélag þar sem hlutföllin vegna fjárfestinga í háskólanámi voru 1:8. 


mbl.is Hver króna skilar sér áttfalt til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Ágústsson

 Það er rétt að ferðaþjónustan er "eitthvað annað". Austfirðingar eru hins vegar himinlifandi með álverið sitt, sama hvað líður kostum og göllum þess í augum annarra. Persónulega er ég ekki hrifinn af niðurgreiddum risaframkvæmdum þar sem ávöxtunarkrafan er nánast fengin fram með talnafölsun, en hvað sem því líður þá eru Austfirðingar í skýjunum. 

Geir Ágústsson, 15.12.2017 kl. 09:37

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fróðlegt að frétta af þessu. Hvað eru þessar konur að nöldra?

Ómar Ragnarsson, 15.12.2017 kl. 10:30

3 identicon


Tekjur Ríkisins af virðisaukaskatti sem ferðaþjónustan innheimtir hjá erlendum ferðamönnum eru álíka upphæð og tekjur Landsvirkjunar af raforkusölu til stóriðju.
Munurinn er sá að vsk tekjur Ríkisins af ferðamönnum eru nærri því að vera hreinar tekjur þar sem opinber útgjöld til málaflokksins eru sáralítil.
Tekjur Landsvirkjunar hafa undanfarna hálfa öld nær alfarið runnið í afborganir og vaxtagjöld af erlendum lánum og fyrirtækið skuldar hunduði milljarða. Starfsemi Landsvirkjunar hefur kostað mestu náttúruspjöll Íslandssögunnar (lausagangan undanskilin) og stóriðjan er helsti mengunarvaldur á landinu. Stóriðjan og aðföng (td. rafmagn) til stóriðju skila ekki krónu í virðisaukaskatt sem er stærsti einstaki tekjustofn Ríkissjóðs.

Opinberar niðurgreiðslur til kísilbræðslu PCC við Húsavík eru hærri en framlög Ríkisins til ferðamannastaða það sem af er öldinni.
Það þarf að hamra á því að það er búið að borga fyrir alla innviðauppbyggingu sem ferðaþjónustan þarf á að halda. Vandinn er vanefndir stjórnvalda sem sinna frekar ábatalitlum og sóðalegum gæluverkefnum.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 15.12.2017 kl. 16:35

4 identicon

Langflest störf tengd ferðaþjónustu krefjast engrar menntunar. Starfsfólk í þessari atvinnugrein eru õmenntaðir krakkar og útlendingar að stærstum hluta og illa launaðir þar að auki.

Að eitthvert landsvæði hafi verið gert að þjõðgarði hefur ekkert með fjölgun ferðamanna þangað að gera.  Fjölgun ferðamanna í Bláa lónið er jafnvel meiri og ekki er Bláa lónið þjõðgarður.

Meðallaun í stõryðju eru álíka og hjá háskõlamenntuðum, eða u.þ.b þreföld það sem gerist í ferðaþjónustu.

Bjarni (IP-tala skráð) 16.12.2017 kl. 10:58

5 identicon

Góðan dag, vitið þið hvar maður getur fundið þetta lokaverkefni um þjóðgarðinn á Snæfellsnesi?

Bjarki Þ.

Bjarki Þórarinsson (IP-tala skráð) 17.12.2017 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband