Ástalíf Grýlu varð fyrst opinbert fyrir meira en hálfri öld.

Fram á sjöunda áratug síðustu aldar var að sönnu mikið fjallað um Grýlu og Leppalúða í íslenskum þjóðsögum og kvæðum og vísum um jólin, en ekki er vitað um að nokkru sinni hafi verið minnst orði á sambúð þessara hjóna. 

Úr þessu var þó bætt þegar jólasveinninn Gáttaþefur frumflutti nýtt lag um Grýlu, "Ó, Grýla!" á úti jólaskemmtun fyrir fjölda fólks á Hallærisplaninu, sem síðar fékk heitið Ingólfstorg.

Eftir að lagið rataði síðan inn á breiðskífuna "Krakkar mínir, komið þið sæl!" varð ástalíf þeirra hjóna loks þjóðkunnugt. 

Eftir að búið er að lýsa Grýlu og háttalagi hennar og högum í nokkrum erindum, sem öll enduðu svona: 

 

"Ó, Grýla! Ó, Grýla!

Ó, Grýla,

í gamla hellinum!" 

 

hljóðar lokaerindið svona: 

 

Og hjá þeim Grýlu´og Leppalúða´ei

linnir kífinu, 

þótt hann Grýlu elski alveg

út af lífinu. 

Hann eltir hana eins og flón

þótt ekki sé hún fríð. 

Í sæluvímu sama lagið 

syngur alla tíð:  

 

:,: Ó, Grýla! Ó, Grýla! 

Ó, Grýla, ég elska bara þig!:,:

 

Þarna er í fáum, en hnitmiðuðum orðum, bæði lýst því, að sambúð þeirra Grýlu og Leppalúða sé afar stormasöm en jafnframt sagt að það sé ofurást Leppalúða á henni, sem haldi sambandinu við. 

Í framhaldinu er gefið í skyn að þessi ást Leppalúða á henni og fölskvalaus hrifning og tryggð sé óskiljanleg. 

Í laginu "Gamli Leppalúði" sem var gert síðar og kom út nokkrum árum á eftir "Krakkar mínir, komið þið sæl", er sagt örlítið nánar frá Leppalúða, og kemur þar fram líkleg ástæða þess hve heitt hann elskaði Grýlu í stefi, sem er endurtekið aftur og aftur:

 

"Gamli Leppalúði,

ljótur með svartan haus!"

 

Það  var sem sagt nokkuð jafnt á komið með þeim og greinilegt, að hann mátti þakka fyrir það að Grýla leit við honum.

Í lokaerindinu kemur átakanlega fram hve Grýla var honum dýrmæt, meðan hennar naut við: 

 

En nú er hann Leppalúði fölur og fár

og flakkar um öræfin gugginn og grár, 

slappur og tinandi, horað hró, 

því hann er svo einn síðan Grýla hans dó. 

 

Á bak við þessar fáu setningar um þau skötuhjúin býr greinilega mikil og dramatísk saga um langa og stranga ævi þessara litríku hjóna, sem gæti orðið efni í mikla örlagasögu. 

Nú hefur Gáttaþefur öðru sinni veitt upplýsingar um foreldra sína á baksíðu Morgunblaðsins. 

Ekki ber sögum hans núna alveg saman við söguna frá því fyrir rúmri hálfri öld, en vegna þess hve langt er um liðið, er skiljanlegt að eitthvað skolist til hjá honum á svona mörgum árum. 

En það er þó viss samsvörun í því að ástarsögur eigi huga Grýlu allan og að Leppalúði sé kominn á flakk. Ástin og flakkið voru sterk stef í sögunni í söngvunum um þau hér um árið. 

 

 


mbl.is Grýla dottin í ástarsögurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ómar. þetta hefur samkvæmt dægrastyttinga sögunum verið um það bil venjuleg og stormasöm sambúð hjá þeim Grýlu og leppalúða.

Undarlegt að ekki sé minnst einu orði á Grýlu og Leppalúða, nema þegar ljósahátíðarafmælis fríið í sambandi Jesús stendur yfir í svartasta skammdeginu?

Fínt að lýsa upp skammdegið með afmælis-fríinu hans Jesúsar. Það fylgir greinilega böggul skammrifi, því Grýla, leppalúði og jólasveinarnir nota sér afmælispartýið hans Jesúsar.

Guð almáttugur hefur sem betur fer gaman af góðlátlegu gríni og húmor.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 24.12.2017 kl. 01:15

2 Smámynd: FORNLEIFUR

 Svo er Grýla líka ítölsk, sem skýrir margt í háttum hennar. Sjá hér: https://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1545031/

FORNLEIFUR, 24.12.2017 kl. 06:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband