27.12.2017 | 22:09
Geta handföng brotið bein, skemmt föt og rifið föt?
Á þessari síðu hefur áður verið fjallað um fræðigrein, sem nefnist ergonomi, og fjallar um hönnun sem tekur mið af því hvernig líkamanum er beitt við notkun ýmissa hluta.
Dæmin eru mýmörg, hönnun bíla, húsgagna og hvers kyns tækja. Sem dæmi má nefna, að það að sitja í aftursæti á magnaðasta jeppanum, Land Rover Discovery, sem kostar minnst 12 millur, er beinlínis óþægilegt vegna þess að ekki er tekið tillit til líkamshlutfalla fólks.
Á sama tíma er aftursætið í fimm sinnum ódýrari aldrifsbíl, Suzuki Ignis, svo vel hannað, að sérlega vel fer um venjulegt fullorðið fólk á löngum leiðum.
Afturdyrnar á sjálfum Mercedes Benz A er þannig hönnuð, að til þess að hægt sé að láta bílinn "lúkka vel" eins og sagt er, er gluggalínan dregin niður í boga, þannig að flestir þeir sem ætla að setjast inn í aftursætið, reka sig upp undir, dyrnar eru svo lágar.
Á heilsugæslustöð, sem ég þekki, "lúkka" stólarnir sérlega vel, en eru afleitir að öðru leyti.
Á Samgöngustofu (og miklu víðar) er eitt af þessum vinsælu sófasettum, þar sem setan er þannig að engin leið er að sitja þannig að bakið fái stuðning, af því að það virðist gert ráð fyrir að allir séu með svo langa lærleggi, að þeir séu minnst 2,20 metrar á hæð.
Um þessar mundir er sérstök gerð af handföngum eða skápahöldum svo vinsælar, vegna þess hvað hún "lúkkar hip og kúl", að líklega finnast þegar hundruð þúsunda hér á landi.
Í íbúðinni, sem ég bý í, eru 34 svona tískuhandföng en aðeins 4 með gamla "glataða" laginu.
Hlutföllin ca 14:2.
(Í blokkinni, þar sem ég bý í, eru því ca 3000).
Á meðfylgjandi mynd sjást skápahöldur af þessari gerð til vinstri, en ein af gömlu og púkalegu gerðinni á rennihurðinni til hægri.
Munurinn er samt mikill.
Handföngin til vinstri eru í raun aðeins 9mm þykkur lóðréttur teinn, festur við hurðina með tveimur stuttu eins teinum. Svo eru þau líka til lárétt, til dæmis á skúffum, alveg eins.
Augljóst er að aldrei mun fólk festa flík eða flækjast í gamla handfanginu til hægri.
En hin handföngin eiga eftir að rífa mörg föt og festa fólk eða hrinda því til, sem á leið fram hjá þeim.
Í gærkvöldi var konan mín að hafa fataskipti, fara úr kjól og í annan kjól, standandi upp við skáphurð með tískuhandfanginu.
Hún lyfti höndunum upp fyrir höfuð við það og lét þær síðan falla niður eins og gerist og gengur en sá ekki nákvæmlega til eitt augnablik.
Hægri höndin féll niður á teininn á handfanginu, sem braut handarbeinið léttilega.
Við fórum á bráðadeild kl 11 og komum aftur heim kl. 5, hún í gifsi upp að olnboga.
Næstu vikum ráðstafað.
Ég hef margoft vegna eigin reynslu, að hafa tvisvar lemstrast hægra megin, ráðlagt fólki sem brýtur handleggi og hendur að velja frekar vinstri en hægri ef þess sé nokkur kostur.
Allt miðast nefnilega við hægri, skriftin, kvikmyndatökuvélar, svissar í bílum og gírstangir, hringstigar, og 90 prósent mannkyns er það sem kallað er "rétthent."
Og meira að segja í trúarjátningunni segir: "Situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs.." og sagt er að bestu aðstoðarmenn "séu hans hægri hönd."
Lyf sem veldur krabbameini | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.