Á síðustu 56 árum hef ég reglulega farið akandi, jafnvel oft á ári, um Vestfjarðaveg nr. 60 frá Bjarkalundi til Vesturbyggðar.
Ekki verður tölu komið á þann fjölda bloggpistla sem ég hef skrifað um ömurlegar samgöngur eina landsfjórðungsins sem á engan nýtilegan flugvöll til næturflugs eða alþjóðaflugsamgagna, og enn eru vegir við Arnarfjörð í svipuðu horfi og fyrir hálfri öld, jafnvel verra horfi.
Löngu tímabær gangagerð milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar er þó loks hafin.
Varla verður heldur komið tölu á þær sjónvarpsfréttir smáar og stórar sem ég hef gert um þessi brýnu samgöngumál síðustu hálfa öld.
Síðast fór ég Vestfjarðaleið nr. 60 að sumarlagi á Honda PCX 125 cc vespuhjóli þegar ég fór allan Vestfjarðahringinn í ágúst í fyrra, en slík hjól henta ekki vel fyrir malarvegi, og fékk ég því góða mynd af þessum hringvegi, miklu betri en ef ég hefði farið þetta til dæmis á mjúkum og stórum jeppa.
Myndirnar eru af hjólinu uppi á Hrafnseyrarheiðí og síðan á leiðinni í austur frá Flókalundi, eyjar á Vatnsfirði í baksýn.
Í þessari ferð skar Dynjandisheiði og raunar mestöll leiðin frá Þingeyri til Flókalundar sig alveg úr, var nánast ófær yfirferðar á hjólinu mínu.
Ég tafðist lítið á leiðinni um Gufudalssveit, sem ég hafði þó kviðið fyrir í ljósi mikillar umræðu um hana.
Hafði þó ekið hana í fyrravor á bíl. Fór megnið af henni á vespuhjólinu á svipuðum hraða og bílarnir, sem voru á ferð, en sums staðar hafði aðeins verið hægt að fara fetið á Dynjandisheiði.
Varla verður tölu komið á þau skipti, sem ég hef flogið um norðanverðan Breiðafjörð. Flaug sérstakt kvikmyndatökuflug yfir veglínu Þ-H sem liggur um Teigsskóg fyrir rúmum áratug og fór akandi sérstaka ferð vestur til að verja degi í að ganga þessa veglínu.
Myndin hér við hliðina er af því svæði í Djúpafirði, þar sem yrði gangamunni, hinum megin fjarðarins, fyrir hugsanleg göng undir Hjallaháls.
Vegna takmarkaðra upplýsinga frá Vegagerðinni um leið D2 hvað varðar jarðgöng undir Hjallaháls, taldi ég þörf á að fara sérstaka ferð í gær til að rifja sérstaklega upp fyrri kynni mín af veginum, svo að ég gæti sent inn umsögn og athugasemdir til hreppsnefndar Reykhólahrepps.
Nú hefur fjárveitingavaldið frestað fjárveitingu í þennan veg um minnsta kosti eitt ár.
Það er synd, og í raun fyrirsláttur að kenna pattstöðunni um Teigsskóg um það, því að til dæmis væri vel hægt að hrinda í framkvæmd mikilvægum hluta bóta á veginum ríflega tíu kílómetra styttingu á þessari leið strax með því að þvera Þorskafjörð, en báðar leiðirnar, D2 og Þ-H gera ráð fyrir slíkri þverun og akkúrat núna er aðeins verið að velja á milli þeirra tveggja.
Á neðstu myndinni er horft til vesturs yfir Þorskafjörð á þeim stað, þar sem fyrirhuguð þverun fjarðarins með nýjum vegi myndi koma.
Hvað snertir þetta mál í heild er að ræða stærstu ákvörðun varðandi náttúru og lífríki Breiðafjarðar á okkar tímum, sem varðar komandi kynslóðir. Þetta svæði hefur svipað gildi fyrir Ísland og Evrópu og sænski skerjagarðurinn hefur fyrir Svía og Evrópu.
Því ætti að nýta vel þann frest sem fjárveitingavaldið hefur stofnað til með því að afla betri upplýsinga og skoða fleiri hliðar þessa máls en gert hefur verið.
Þess má geta, að myndir sem ævinlega eru sýndar í fjölmiðlum af Teigsskógi eru alls ekki teknar á því svæði þar sem skógurinn, ströndin og lífríkið eru mögnuðust.
Þangað liggur enginn akvegur, og þegar mynd hefur verið sýnd af ráðherra að skoða skóginn, hefur hann ekki heldur verið á þessu svæði.
Halda fram mismunandi leiðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Auðvitað skal vanda til verka við nútíma vegagerð. Svo er hitt sem Ómar nefnir, að hægt sé að byrja á þveruninni yfir Þorskafjörð. Mér finnst það ekki sjálfgefið nema farið verði með veginn meðfram Teigskógi. Ómar, sýnist mér, gefa sér veggöng sem möguleika sem þó allir sem koma að ákvörðunum um framkvæmdina sjálfa, slá út af borðinu vegna kostnaðar. Veggöng eru að mínu mati, og margra annarra trúið mér, alversta hugmyndin. Nýr alvöru vegur á þessum slóðum er ekki aðeins fyrir akstur skólabarna í sveitinni og vöruflutninga milli suðurlandsins og Vesturbyggðar. Sá vegur yrði líka fyrir alla þá sem ferðast sér til ánægju í sínum frítíma, íslenska ferðalanga sem og margra annarra þjóða.
Að ætla sér að stinga þeim ferðalöngum inn í jarðgöng, hvort sem þeir eru gangandi, hjólandi eða akandi er afleit hugmynd. Mér sýnist margir dásama náttúrufegurðina þarna. Því þá að stinga fólki í svarthol í stað þess að leyfa því að njóta náttúrufegurðarinnar. Ef einhver er þess umkominn að redda svartholspeningum í verkefnið, væri nær að þvera Þorskafjörðinn yst við mynni hans. Þar gæfist stórkostleg aðkoma að náttúrufegurð sem yrðu svartholspeninga virði. Einnig tel ég við það geti íbúar í nærliggjandi sveitum þróað ný atvinnu- og afkomutækifæri fyrir núverandi og komandi kynslóðir í tengslum við aukna aðkomu að náttúrudýrð. Náttúran er okkar allra, líka mannsins.
Arnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 6.1.2018 kl. 11:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.