Þegar Þórarinn á Melnum var og hét. "Bæjarins bestu mjólkursopar"?

Ótal smá hænsnabú og fjárbú gáfu Reykjavík séstæðan sjarma um miðja síðustu öld. Götunöfn eins og Bústaðavegur vitna um það hve borgarlandið var sundurlaust og þakið ótal smábýlum og bústöðum. 

Reykjavík var þá bær og stjórnað af bæjarstjórn og bæjarstjóra, en bæjarbúar voru að enn að meirihluta til fæddir eða uppaldir úti á landi og átthagafélögin voru svo sterk að einn helsti samkomu- og skemmtistaður bæjarins, sem var við Skólavörðustíg, hét Breiðfirðingabúð. 

Ég kom oft til ömmu minnar og afa á Ásvallagötu 51 þegar ég var að alast upp og fékk oft að kúra þar. Þau komu um tvítugsaldur austan úr Skaftafellssýslu til Reykjavíkur og voru alla tíð jafnvel meira dreifbýlisfólk en borgarbúar. 

Ég veiktist alvarlega í einni kvöldheimsókn til þeirra og mátti mig hvergi hræra í rúminu í nokkrar vikur. Amma annaðist mig af einstakri nærgætni og elsku, og mér fannst alltaf gott að vera þar. 

 

Beint á móti Ásvallagötu númer 51 þráaðist smábóndi nokkur, sem jafnframt var verkamaður, við að halda sauðfé og hænsni á reitnum milli Ásvallagötu, Bræðraborgarstígs, Sólvallagötu og Hofsvallagötu. 

Hann gat auðvitað ekki lifað af svona fáum skepnum, og snapaði sér vinnu við uppskipun í Reykjavíkurhöfn. Hugsanlega var hann með eina kú á tímabili. 

Við uppskipunina voru menn lausráðnir að stærstum hluta frá degi til dags, og það var eftirminnileg upplifun fyrir 14 ára strák að fara í á skólafrídögum niður að höfn eldsnemma dags og blanda sér í hóp hafnarverkamanna, sem biðu eftir því að fá vinnu þann daginn, eða verða látnir fara heim. 

Maður varð hálf skömmustulegur vegna þess hve Elsa Sigfúss gerði lýsingu Davíðs Stefánssonar á fjölskyldunni í "verkamannsins kofa" eftirminnilega í söng sínum á dapurlegu lagi um kjör smælingjanna.   

Bóndinn og verkamaður við Ásvallagötu hét Þórarinn, kotið hét Melur, og bæjarbúar þekktu margir Þórarinn á Melnum eins og hann var kallaður. 

Þegar loftmyndir af Reykjavík frá þessum tíma eru skoðaðar, er mikill fjöldi smábýla og áberandi og einnig alls kyns smáir "blettir", sá langstærsti þeirra, Kringlumýrin eins og hún lagði sig og var samfellt kartöflugarðaland. 

Þar höfðu amma og afi og ótal annað fólk, sem hafði flutt til borgarinnar utan af landi, sína einkagarða og ræktuðu aðallega kartöflur í þeim, en einnig ýmar aðrar garðyrkjujurtir. 

Það var eins og höfuðstaður landsins vissi ekki hvort hann ætti að vera þorp eða bær, hvað þá verðandi borg. 

Mikið hefði nú verið gaman, ef að bær Þórarins á Melnum hefði verið varðveittur þannig að þar væri nú allt með sömu kjörum og var 1950 og kunnáttumaður á borð við Ólaf Dýrmundsson stundaði þar búrekstur í svipuðum stíl og pylsusala er nú stundið á Bæjarins bestu, einhverjum þekktasta ferðamannstað Íslands. 

Á Melnum væru þá enn nokkrar ær, sauðburður á vorin, og ferðafólk gæti keypt sér spenvolga mjólk beint úr kúnni, "bæjarins bestu mjólkursopa".   


mbl.is Síðasti örbóndinn í höfuðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband