Marg búið að tala fyrir daufum eyrum.

Bruno Bisig, forstjóri Kontiki reisen, sem kemur með ferðamenn til landsins. Í viðtali við Morgunblaðið segir hann það, sem búið er að margfjalla um á þessari bloggsíðu í áratug og í  sjónvarpsþáttum í 20 ár, en Íslendingar taka ekki mark á þessu fyrr en það hefur ræst, sem varnaðarorð Bisig innihalda og þá verður það of seint. 

Hann sér mikinn mun á ferðamannaslóðunum núna og fyrir 20 árum, varðandi það að búið sé að eyðileggja upplifunina sem mest er sóst eftir, kyrrð og friði i ósnortinni náttúru. 

Umferð ferðamanna sé víða langt umfram það sem skynsamlegt sé fyrir orðstír landsins sem land einstæðrar náttúru og sjálfbærni. 

Hann undrast að hvergi sé ítala á gönguleiðum eins og tíðkast í þjóðgörðum víða um heim. 

En eins og kunnugt er, komu viðbrögð Íslendinga við hugmyndum um náttúrupassa fram í orðunum "niðurlæging" og "auðmýking." 

Hann auglýsir eftir verndunarnýtingu fossanna okkar, en á Norðausturhálendinu er búið að eyðileggja marga tugi fossa, þar af þrjá stórfossa með Kárahnjúkavirkjun og í Efri-Þjórsá eru þrír stórfossar verulega lemstraðir lungann af sumrinu vegna Kvíslaveitu. 

Tveir þeirra eru jafnokar Gullfoss og vel það, ef áin fengi að renna á fullu afli. 

Samt væri vel hægt að koma á fót aðstöðu til að ganga að þessum fossum síðsumars og létta með því álaginu af Gullfossi, en á því er enginn áhugi, bæði vegna andvaraleysis en kannski ekki síður hinu að fela þessa fossa svo að enginn taki eftir því ef þeir verða drepnir með svonefndri Kjalölduveitu, sem ætti auðvitað að heita Þjórsárfossavirkjun, því að Kjalalda er ekki foss, heldur malaralda. 

Virkjanamenn dreymir mikla drauma um þessa virkjun.  


mbl.is „Þá vil ég heldur borga!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband