"Virkjanir og þjóðgarðar fara vel saman" - kanntu annan?

Þegar forsætisráðherra Noregs lýsti því yfir 2002 að tími stórra vatnsaflsvirkjana væri liðinn í Noregi var það vegna þess að til voru á teikniborðinu áform um virkjanir á hálendisvíðernum Noregs, sem ekki höfðu komist í framkvæmd. Hvalárvirkjunkort

Hætt var við þær vegna þess að virkjanir og þjóðgarðar færu alls ekki saman. 

Nú rísa upp hér á landi þeir, sem halda því ekki aðeins fram að virkjanir og þjóðgarðar fari vel saman, heldur að virkjanir verði að koma á undan þjóðgörðunum. 

Þegar þessi umræða var tekin hér heima fyrir 15 árum, var því haldið fram að virkjanir og þjóðgarðar færu svo vel saman, að hægt væri að setja það á upplýsingaspjald við innakstur frá Möðrudal inn á víðernin, að Kárahnjúkavirkjun gæti verið forsenda fyrir þjóðgarði þar á hálendinu!  

Áður hafði góður gegn vinur minn, háskólaprófessor, haldið því fram að á tveimur stöðum erlendis mætti sjá hvernig þetta hefði verið praktiserað, Hetch-Hetchy miðlunarlónið við Yosemite þjóðgarðinn í Kaliforníu og Grand lake syðst í Klettafjallaþjóðgarðinum um 120 kílómetra fyrir norðvestan Denver. 

Þegar ég hóf að kanna 30 þjóðgarða og friðuð svæði og 18 virkjanasvæði í sjö löndum í Evrópu og Ameríku, fór ég á þessa tvo staði og komst að því að Hetch-Hetchy miðlunarlónið hefði verið búið til fyrir meira en 100 árum til þess að miðla ferskvatni til norðanverðrar Kaliforníu. 

Samnefndum dal hafði verið sökkt, en jafnvel þótt þörf yrði á meira vatni, yrði öðrum dal fyrir sunnan Hetch-Hetchy ekki sökkt, enda væri það skilyrði fyrir þjóðgarði,sem með árunum varð heimsfrægur, að engin virkjun væri þar. 

Samt var þetta fyrir meira en öld, þegar fastmótaðar hugmyndir um virkjanir og þjóðgarða voru á frumstigi. 

Þegar ég var þarna á ferð var ekki kjaft að sjá við Hetch-Hetchy, - allir voru í Yosemite dalnum. 

Hinn staðurinn sem háskólaprófessorinn nefndi, Grand lake var líka eldgömul framkvæmd og fólst í því að vatninu Grand lake og umhverfi þess var haldið ósnortnu og hæð yfirborðs vatnsins stöðugu, en vatn tekið af því neðanjarðar og leitt í göngum í sérstakt miðlunarlón utan þjóðgarðsins. 

Á málþingi í Árnesi í fyrrasumar fullyrti stjórnandi umhverfismats fyrir Vesturverk, að það væri tíðkað víða um lönd að virkja í þjóðgörðum. 

Ég bað hann að nefna dæmi um þetta en ekkert svar kom. 

Nú kemur oddviti Árneshrepps og heldur þessu sama fram og nefnir ekkert dæmi, heldur bætir í og fullyrðir, að það verði að virkja fyrst, áður en þjóðgarðurinn komi. 

Gott að vita það, því að með virkjuninni verður hugsanlegur þjóðgarður rændur þeim ósnortnu náttúrudjásnum, sem hann hefði annars búið yfir. 

Þau eru innan punktalínunnar á kortinu hér fyrir ofan og munu ekki aðeins gera ómögulegt að þjóðgarður verði á því 180 ferkílómetra svæði sem ræður úrslitum í þessu efni. 

Þar að auki mun tilvist stíflnanna og lónanna hafa þau sjónrænu áhrif sem eyðileggja þá sýn að horfa yfir ósnortna Ófeigsfjarðarheiði og Drangajökul. 

 

 


mbl.is Samþykktu tillögur vegna virkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fullyrðingar Vesturverks um stórbætt raforkuöryggi á Vestfjörðum með tengingu Hvalárvirkjunar við Vesturlínu reyndust innistæðulausar. 
Í því ljósi er eðlilegt að gjalda varhug við fullyrðingum aðstandenda verkefnisins um gestastofu, samgönguúrbætur og áþekkan ósamningsbundinn fagurgala.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 31.1.2018 kl. 02:14

2 identicon

Þetta fólk sem samþykkti breytingar á aðalskipulaginu í dag sem situr í hreppsnefndinni ætti að skammast sín! Framtíð svæðisins á ekki að vera í höndum 5 manna hreppsnefndar og hagsmunir 30 manna byggðar eiga ekki að ganga fram yfir hagsmuni almennings í landinu. Ég vona að það verði mögulegt að stoppa þetta stórslys en með hverjum andskotans fundinum sem verður þar sem hreppsnefnd hittist og ræðir þessi mál þá verð ég ansi svartsýnn á að það verði einhvern tímann hægt að stoppa þetta einkum þar sem meirihlutinn er meðfylgjandi virkjun. Ég mæli með því að oddvitinn ætti að skipta um flokk. 

Jón Jónsson (IP-tala skráð) 31.1.2018 kl. 05:06

3 identicon

Hugmyndin um hálendisþjóðgarð miðast við mismunandi tegundir af þjóðgörðum þar sem virkjanir í þjórsársvæðinu myndu vera inní eins ef hentar raflínur sé svosem ekki tilganginn en svona er pólitíkin í dag ekki taka menn jarðir eignanámi án bóta undir þjóðgarða. skil ekki eyðslu fjármagns í nýja meðan þeir gömlu eru ekki sæmilega fjármagnaðir. náttúruvættið vatnajökull skil ég ekkert í. með aðalskrifstofu í reykjavík

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 31.1.2018 kl. 11:51

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Menn verða að vita hvað þeir eru að tala um.  Hvorki erlendis né hérlendis er það skilyrði fyrir þjóðgarði að "jarðir séu teknar eignarnámi án bóta." Þegar Jóstedalsþjóðgarður var stofnaður í Noregi fyrir 20 árum héldust eignabönd bænda á jörðum þeirra þar sem þeir óskuðu þess.

Ómar Ragnarsson, 31.1.2018 kl. 13:24

5 identicon

auðvitað verða menn að vita hvað menn eru að tala um.það eru til óbein eignaupptaka. þar sem eigendur geta ekki gert nema með leifi þjóðgarðsins. síðan getur ómar kallað það hvað sem er það eru til mörg falleg nöfn um eignaupptöku ef vilji er til að taka eignir eignarnámi

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 2.2.2018 kl. 06:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband