25.5.2007 | 01:08
FJÖGUR ORÐ SEM VANTAÐI.
Var að koma úr leiðangri á Örkinni um Hálslón en þangað var hringt í mig frá útvarpsþættinum Speglinum í gær og spurt um stjórnarsáttmálann. Ég sagði að það vantaði í hann þessi fjögur orð: Hætt verði við Norðlingaölduveitu. Síðan frétti ég í dag að Ingibjörg Sólrún hefði sagt rétt á eftir Speglinum að hún skildi sáttmálann þannig að hætt yrði við Norðlingaölduveitu.
Gísli Már Gíslason ítrekaði þennan skilning og slegið var upp í fjölmiðlum í morgun að 40 ára deilu væri lokið og Norðlingaölduveita endanlega úr sögunni.
Í kvöld (fimmtudagskvöld) kemur síðan fram að Landsvirkjun sé ekki þessarar skoðunar og hún heldur sínu striki. Og Geir Haarde minnir á að ekkert sé minnst á Norðlingaölduveitu í stjórnarsáttmálanum.
Niðurstaða mín er því sú sama og í viðtalinu við Spegilinn: Það vantar fjögur orð í stjórnarsáttmálann. Það er mergurinn málsins.
Óg nú hef ég loksins tækifæri til að skoða hann betur. Mig grunar að það vanti margt fleira í hann og að ýmislegt af því merkilegasta við samkomulag núverandi stjórnarflokka sé fólgið í því sem ekki er fjallað um eða minnst á með orðalagi sem segir ekkert ákveðið.
Athugasemdir
Ég er orðin svo afskaplega þreytt á loðnu orðalagi hvar sem stigið er niður fæti í stjórnmálum. Er það til of mikils ætlast að fólk tali skýra íslensku eða er stjórnmálamönnum það nauðsyn að hafa ætíð bakdyrnar opnar svona til að hafa möguleikann á að hætta við eða geta falið sig á bakvið að hin og þessi loforðin hafi nú ekki verið meint eins og við venjulega fólkið töldum okkur skilja þau! Svo fá pólítíkusarnir lof í eyra fyrir ræðusnilld!
Báran, 25.5.2007 kl. 12:30
Ef ekki er skýr sameiginlegur skilningur um málefni ræður úrslitum hver fer með ráðuneyti og málaflokka. Þessvegna er ég svolítið spældur yfir skiptingu ráðuneyta og málaflokka sem augljóslega er lakari fyrir Samfylkinguna en Framsókn hafði á undan, en Samfylkingin er þó með umhverfisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið.
Helgi Jóhann Hauksson, 25.5.2007 kl. 13:52
Kæri Ómar
Er það rétt að þú sért að undirbúa forsetaframboð?
Eiríkur Ingvar Ingvarsson, 25.5.2007 kl. 17:16
Eiríkur Ingvar, þessi spurning er svona álíka djók fáránleikans og sá skilingur Ingibjargar Sólrúnar að Norðlingaölduveita sé út af borðinu.
Ómar Ragnarsson, 26.5.2007 kl. 01:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.