17.2.2018 | 14:52
Tveir mánuðir í "kolefnissvelti". Rafknúinn "stuttbíll" til sölu.
Þessi bíll, rafknúinn tveggja manna stuttbíll (sbr.stuttpils) af gerðinni Tazzari er til sölu hjá Álfaborg, Skútuvogi 6. Nánar um það seinna hér á eftir.
Um átta ára skeið var ég bílablaðamaður hjá dagblaðinu Vísi í hjáverkum. Reyndi að innleiða gagnlegar nýjungar, svo sem að mæla hljóð inni í bílum sem reynsluekið var, og fór tvisvar á vegum blaðsins til útlanda.
Notaði vettvanginn til þess að takast á við baráttu harðsnúinna manna og fordóma gagnvart notkun bílbelta og fékk fyrir bragðið hlut í skammaryrðinu Ó-in þrjú, þ.e. ásamt Óla H. Þórðarsyni formanni Umferðarráðs og Ólafi Ólafssyni landlækni.
Til að kynna mér og öðrum málið beint, setti ég örbíl minn, Fiat 126, inn í myndver fréttastofu Sjónvarpsins og lét mæla og senda út á ljósvakanum hve langan tíma tæki að spenna beltið.
Það tók minna en þrjár sekúndur og kollvarpaði áróðri þess efnis, að það tæki margfalt lengri tíma.
Nú fer fram mikil umræða um rafbíla og tilvist þeirra, sem tengist deilum um loftslag á jörðinni.
Við það vaknar áhugi á að taka upp gamla hætti frá 1975 til 1984 og birta bílaprófanir þegar tilefni er til.
Markmiðið var sett fram fyrir rúmum þremur árum, að kynna það sem nefnt var "rafbíll litla mannsins".
Rafbíl, sem gæti orðið viðráðanlegur kostur fyrir þá sem hafa litlar fastatekjur, svo sem láglaunafólk og lífeyrisþegar.
Einnig var ætlunin að slá á harða gagnrýni varðandi þá hræsni mína sem fælist í því að gera ekkert sjálfur, heldur ætlast bara til þess af öðrum.
Kostnaðarhliðin reyndist hins vegar snúin og þar með viðfangsefnið í heild.
Hefur gangur þess máls verið rakinn hér á síðunni og á facebook og endanleg lausn málsins hefur dregist þar til nú, að hægt er að greina frá tveggja mánaða reynslu við erfiðustu hugsanlegu aðstæður.
Ef keyptur er rafbíll fyrir fjórar millur verður greiðslubyrðin á sjö ára láni tæplega 50 þúsund krónur á mánuði fyrir bíla á borð við Renault Zoe og Nissan Leaf. Og jafnvel þótt e-Up! verði valinn, sem kostar þrjár millur, er greiðslubyrðin tæplega 40 þúsund á mánuði.
Á móti kemur sparnaður í orkukostnaði, en að jafnaði er þar aðeins um rúmar 10 þúsund krónur á mánuði.
Í Noregi er reynslan sú að hjá þeim sem eiga rafbíla, verður hann oftast bíll númer eitt á heimilinu, notaður á daginn í borgarsnatti og hlaðinn heima á næturna.
Síðan er bíll knúinn jarðefnaeldsneyti, oft eldri bíll, notaður fyrir lengri ferðir.
Eða þá að bílaleigubíll er notaður.
Alger útrýming kolefnisspors er ekki möguleg, en það er hægt að komast býsna langt.
Fyrsta skrefið var rafreiðhjól til ferða innanborgar. Hjólið kostaði 250 þúsund krónur og orkukostnaðurinn samsvarar 0,15 lítra eyðslu af eldsneyti á 100 kílómetra.
En fyrir mann, sem býr austast í Grafarvogshverfi varð hjólið því í mörgum tilfellum of hægfara, og rafknúin vélhjól, kölluð "vespur" eða "vespuhjól" hér á landi, eru of dýr, miðað við takmarkaða drægni þeirra og hraða, svo að slíkt hjól leysir ekki dæmið til fulls.
Niðurstaðan varð því nýtt bensínknúið Honda PCX 125 cc hjól á 450 þús kall, sem nær þjóðvegahraða, hefur þegar lagt að baki um 6000 kílómetra úti á landi og aðeins eytt 2,3 lítrum á hundraðið síðan í júlí 2016.
Og er því með svo lítið samanlagt kolefnisspor, tíu sinnum léttara og ódýrara en rafbíll, að það nálgast mesta mögulega "kolefnissvelti." Og bæði hjólin, rafreiðhjólið og Hondan, létta á umferðarvandanum í borginni.
Síðan gerðist það í nóvember, að tveir rafknúnir stuttbílar af gerðinni Tazzari Zero, skráðir í ágúst 2016 og eknir um 1500 kílómetra, voru auglýstir til sölu á 1990 þúsund krónur hvor.
Það er helmingur af verði ódýrustu meðalstórra rafbíla og sé fjárfesting í svona rafknúnum örbíl fyrir "litla manninn" miðuð við venjuleg bílalánakjör verður útkoman um 25 þúsund krónur á mánuði, en frá dregst sparnaður í orkukostnaði upp á helming þess verðs.
17. nóvember óx því "kolefnissvelti" mitt úr um 70 prósentum upp í ca 85 prósent og hefur því staðið í tvo mánuði.
Og hvernig er reynslan? Vonum framar. Fram í miðjan desember var lítið ekið vegna veikinda, en þessa fyrstu tvo mánuði, sem Tazzari bíllinn hefur verið í mínum höndum, hefur honum verið ekið alls 1300 kílómetra.
Það samsvarar um 8000 kílómetrum á ári.
Síðustu vikur hafa hjólin Náttfari og Léttir lítið hreyfst af ástæðum sem hægt er að sjá á mynd hér síðunni, og meðan ég glímdi við sýkingu í fæti fyrir jól, var lítið hægt að nota hjólin af þeim sökum.
En almennt talað eru hjólin notuð í hverri viku ársins.
Tazzari bíllinn var settur á örlítið hærri dekk, vetrardekk, og er veghæðin 17 sentimetrar og drifið og 65 prósent þyngdarinnar að aftan, svo að dugnaðurinn er hinn ágætasti í snjó.
Færð og veður hafa verið með því versta sem gerist en bíllinn hefur reynst mjög vel.
Drægnin hefur verið 80-90 kílómetrar á hleðslu allan tímann, sem gefur vonir um meira en 100 kílómetra í sumar.
Eðli rafbíla og uppsetning mæla gerir það að verkum, að ökumenn slíkra bíla verða fyrir hvatningu til þess að eyða sem minnstu rafmagni.
Ef það er ekki gert, ekið snarplega og miðstöðin höfð á allan tímann, minnkar drægnin væntanlega úr 80 kílómetrum að vetrarlagi niður í 50-60.
En eftir örfá ár verða miklar framfarir á þessu sviði, og er þetta raunar að bresta á hjá Nissan Leaf.
Um er að ræða nýja gerð rafhlaðna sem getur aukið drægnina um allt að 40 prósent án þess að stækka rafhlöðurnar.
En að vísu verða þær eitthvað þyngri.
Ég hef áður lýst reynsluakstri á Tazzari Zero hér á síðunni og læt því nægja að segja, að bíllinn býður upp á ágætis rými fyrir tvo í sæti, þannig að farþegar verða undrandi, af því að þeir stóðu í þeirri trú að svona stuttur bíll, metra styttri en Yaris, hlyti að bjóða upp á þrengsli.
En það sem fólk sér þegar það situr í þessum bíl, er líkast því sem að það sæti í venjulegum bíl af því að útsýnið fram á við er ekkert frábrugðið því sem fólk á að venjast, og það að heilan metra vanti á hann að aftan, sést ekki í akstrinum.
Breiddin inni í er álíka og á Suzuki Jimny og farangursrýmið aftur í er 180 lítrar.
Þetta er lang léttasti rafbíllinn um þessar mundir, um 500 kílóum léttari en léttustu bílarnir á markaðnum. Er þar af leiðandi mjög sparneytinn.
Raforkukostnaður samsvarar 1,5 lítrum á hundraðið af bensíni.
Vegna léttleikans var hann flokkaður í flokk vélhjóla með fjögur hjól í Evrópu en er þó með viðurkenningu fyrir öryggisatriði á hraðbrautum.
Helstu tölur:
Lengd / breidd / hæð: 2,88 - 1,56 - 1,42
Afl: 20 hestöfl.
Tog: 15 Newton m
Rafhlaða: 15 kwst
Hámarkshraði: 90 km/klst
Þyngd: 760 kíló óhlaðinn.
P.S. Í athugasemd vænir Hábeinn mig að vanda um stórfelldar rangfærslur og lygar og heimtar gögn um það að ég noti EKKI meira jarðefnaeldsneyti en Ásmundur Friðriksson!
En hvernig er hægt að birta gögn um akstur, sem ekki hefur átt sér stað?
Í svari mínu vísa ég til þess að ég hafi áratugum saman fært nákvæm gögn upp á kílómetra um notkun mína á bílum og flugvélum og að ég geti svosem farið í það að ljósmynda þessar minnisbækur mínar og birta þessar myndir.
Læt tvær ljósmyndir nægja til útskýringar, aðra frá því í október síðastliðnum og hina frá því fyrir viku.
Aksturinn er táknaður með grænum tölum og heitum farartækjanna:
Náttfari er rafreiðhjólið.
Léttir er vespuhjólið.
Sjá má heiti þriggja fornbíla, sem ég set í gang og hreyfi á þriggja vikna fresti, 4 til 6 kílómetra hvern, til þess að halda þeim við.
Alto er bíll konu minnar, ódýrasti og umhverfismildasti bíllinn sem var á boðstólum 2014.
Það var óhagstætt veður þegar ég fór á opinn fund í Búðardal og því ekki ráðlegt að fara á vespuhjólinu og rafbíllinn dró ekki nógu langt til þess að hægt væri að komast þetta á honum nógu fljótt.
Þetta voru 294 kílómetrar af þeim ca 2000, sem voru eknir voru út á land síðustu fimm mánuði, þar á meðal ein Þingvallaferð á vespuhjólinu í lok október.
Magnaður rafjeppi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sparnaður heimila vegna notkunar á rafbílum í stað bensínbíla eykur að sjálfsögðu kaupmátt þeirra og sparnaðurinn er notaður til að kaupa aðrar vörur og þjónustu, sem greiða þarf af virðisaukaskatt.
Þorsteinn Briem, 17.2.2018 kl. 15:10
23.12.2014:
"Í flestum löndum Evrópu eru lítil eða engin gjöld á rafbílnum Nissan Leaf og víða greiðir hið opinbera kaupendum fasta upphæð við kaup á svo vistvænum bíl."
Gott ár rafbílsins Nissan Leaf
Þorsteinn Briem, 17.2.2018 kl. 15:12
Rafbílum fylgja aukin lífsgæði.
Bensínbílum fylgir mengunarskapandi útblástur og hávaðamengun alla daga í til að mynda borgum og því að sjálfsögðu ekki ómálefnalegt sjónarmið að gjöld á rafbílum séu lægri en á bensínbílum.
Þorsteinn Briem, 17.2.2018 kl. 15:13
Meðalakstur einkabíla í Reykjavík er um 11 þúsund kílómetrar á ári, eða 30 kílómetrar á dag.
"Every US specification Nissan LEAF is backed by a New Vehicle Limited Warranty providing: [...] 96 months (í átta ár)/100,000 miles (eða 161 þúsund km.) Lithium-Ion Battery coverage (whichever occurs earlier)."
Nissan Leaf 2015
Og miðað við 11 þúsund kílómetra akstur á ári tekur um fimmtán ár að aka 161 þúsund kílómetra.
Þorsteinn Briem, 17.2.2018 kl. 15:14
Þeir sem eiga rafbíla greiða ekki lægri skatta til ríkisins en aðrir, enda þótt þeir greiði lægri gjöld af þeim en greiddir eru af bensínbílum, þar sem þeir greiða virðisaukaskatt af öðrum hlutum sem þeir kaupa fyrir sparnaðinn af því að eiga rafbíl.
Það kostar um 2 krónur að aka Nissan Leaf hvern kílómetra og rafhlaðan endist í að minnsta kosti fimmtán ár, miðað við meðalakstur einkabíla í Reykjavík.
Ríki vilja minnka daglega mengun vegna olíu og bensíns og hygla því eigendum rafbíla með lægri sköttum af þeim en bensínbílum.
Þorsteinn Briem, 17.2.2018 kl. 15:16
Við þetta má bæta vandaðri opinberri könnun á heildar kolefnisspori rafbíla og bíla knúnum með jarðefnaeldsneyti sem sýnir yfirburði rafbílanna, jafnvel þótt stærsti hluti orkku þeirra erlendis komi frá kolaorkuverum.
Í neikvæðri umræðu hefur nefnilega verið gert mikið úr kolefnisspori við framleiðslu og förgun á rafhlöðum en því yfirleitt sleppt að kanna kolefnissporið vegna framleiðslu eldsneytisbílanna.
Ómar Ragnarsson, 17.2.2018 kl. 15:19
Meðalstórt heimili í Reykjavík notar um fjögur þúsund kWst raforku á ári.
Raforka vegna rafbíls á heimilinu er minni en þriðjungur af þeirri notkun.
Einkarafbíla sem eingöngu eru notaðir á höfuðborgarsvæðinu hér á Íslandi nægir yfirleitt að hlaða á nokkurra nátta fresti, þar sem meðalakstur einkabíla í Reykjavík er 30 kílómetrar á dag.
Og öll heimili nota einungis 5% raforkunnar hér á Íslandi.
Þorsteinn Briem, 17.2.2018 kl. 15:19
17.8.2016:
"Hægt væri að skipta út allt að 87% bandarískra bíla með ódýrum rafmagnsbílum jafnvel þó að ökumenn þeirra gætu ekki hlaðið þá yfir daginn.
Þetta er niðurstaða rannsakenda við MIT-háskóla og Santa Fe-stofnunina sem könnuðu aksturshegðun Bandaríkjamanna og ýmsa þætti sem hafa áhrif á drægi rafbíla."
Óttinn við drægi rafbíla ofmetinn
Þorsteinn Briem, 17.2.2018 kl. 15:20
Hefðbundnar bifreiðar nota mikið af rafbúnaði sem knúinn er af sprengihreyfli en honum fylgir margvíslegur og flókinn búnaður og mengunarskapandi útblástur.
Rafmótorinn hefur hins vegar einungis fáeina hreyfanlega hluti í stað hundraða.
Í rafbíl eru slitfletir margfalt færri og hitamyndun minni, sem skilar sér í lengri endingu.
Rafmótor þarf minna viðhald en hefðbundin bílvél sem þarfnast olíu- og síuskipta, kertaskipta, ventlaskipta, tímareimaskipta, pústviðgerða, viðhalds á vatnsdælu, eldsneytisdælu, rafal og öðru sem fylgir flóknum sprengihreyfli.
Þorsteinn Briem, 17.2.2018 kl. 15:21
"17. nóvember óx því "kolefnissvelti" mitt úr um 70 prósentum upp í ca 85 prósent og hefur því staðið í tvo mánuði. " Lauslegur útreikningur segir okkur að 70% jafngilda því akstri nærri 5 meðalstórra fjölskyldubíla ef þau 15% sem eftir standa, þegar þú hefur náð 85% með Tazzari Zero, eru akstur þinn erlendis og flug til og frá landinu. Það er meiri akstur innanlands en Ásmundur ökuþór getur montað sig af.
"Við þetta má bæta vandaðri opinberri könnun.." Gaman væri að sjá þá könnun og þurfa ekki að reiða sig á mat Ómars á því hversu vönduð hún er og hversu opinber. Það eru nefnilega margar kannanir sem sýna annað frá opinberum aðilum, tæknitímaritum, umhverfissamtökum o.fl... Til dæmis frá IVL Swedish Environmental Research Institute: http://www.ivl.se/download/18.5922281715bdaebede9559/1496046218976/C243+The+life+cycle+energy+consumption+and+CO2+emissions+from+lithium+ion+batteries+.pdf ( https://ing.dk/artikel/svensk-undersoegelse-produktion-elbilers-batterier-udleder-tonsvis-co2-200080 )
En vegna fyrri reynslu af því þegar beðið er um einhverskonar staðfestingu á fullyrðingum Ómars þá er ekki talið líklegt að hann svari með öðru en væli, útúrsnúningum og kvörtunum.
Hábeinn (IP-tala skráð) 17.2.2018 kl. 19:14
Nei er ekki Hábeinn mættur, fúll á móti að venju með ásakanir um "lygar og rangfærslur" mínar.
Hann hefur áður gefið sér að ég hafi verið eins og jójó að fljúga yfir Atlantshafið á síðastliðnu ári og ekið mörg þúsund kílómetra erlendis og fær út úr því með einhvers konar þríliðu að ég aki marga tugi þúsunda kílómetra hér heima á bílum sem nota jarðefnaeldsneyti, minnsta kosti 50 þúsund kilómetra!
Í fyrsta lagi voru þetta og eru enn alrangar fullyrðingar Hábeins. Ég fór tvisvar yfir hafið á árinu, fyrst í ferð til Brussel og þaðan til brúðkaups sonar míns í sunnanverðu Frakklandi og síðan hljóp ég í skarðið fyrir Þorstein Bergsson í fjóra daga á ráðstefnu í Hollandi.
Ég ók engum bíl sjálfur í Hollandi, heldur var ég farþegi í rútu fram og til baka milli Amsterdam og Venhorst og ók ódýrasta fáanlega bílaleigubíl með konu minni til brúðkaups sonar okkar, alls innan við tvö þúsund kílómetra.
Í öðru lagi er ég aðeins að tala um ferðir í einkaerindum hér innan lands, enda er það alþjóðleg aðferð við að meta kolefnisspor við einkaerindi borgara í einstökum löndum.
Hábeinn sættir sig ekki við það, heldur býr til gríðarlegar ferðir mínar erlendis þar sem engin leið er til að komast hjá því að fljúga eða sæta þeim faratækjum sem bjóðast.
Hábeinn heimtar staðfestingu á því að ég hafi ekki flogið margsinnis yfir hafið og sönnun á því að ég aki meira en 50 þúsund kílómetra árlega innanlands.
Hann getur alveg eins heimtað að ég sanni, að ég hafi ekki drepið mann á síðasta ári.
Og af því að ég geti ekki afsannað þetta og geti ekki gefið staðfestingu á því, hljóti ég að hafa drepið mann.
Raunar gæti ég tekið ljósmyndir af minnisbók minni sem sýnir nákvæmlega alla daga ársins alla notkun farartækja af minni hálfu, sundurliðað upp á kílómetra með tilgreindri akstursleið.
Staðreyndin er að ég eða hef til umráða þrjú vistmild farartæki til þess að lágmarka kolefnisspor mitt.
En Hábeinn gefur sér það að samt slái ég met Ása í akstri innanlands á farartækjum sem brenna jarðefnaeldsneyti og heimtar að ég afsanni þessa fullyrðingu sína.
Ómar Ragnarsson, 17.2.2018 kl. 20:37
Ég heimta hvergi að þú sannir eitt eða neitt varðandi akstur, ferðalög og kolefnisspor þitt. Þú ert svo duglegur að koma með tölur að ég þarf bara að reikna. Ég einfaldlega bendi á að samkvæmt þínum tölum þá ert þú að halda því fram að þú hafir minkað kolefnisspor þitt um jafngildi meðalaksturs rúmlega 5 meðalstórra fjölskyldubíla. Til hamingju sé sú raunin. Og frábært að þú skulir nota reiðhjól og þesslags tól til að ferðast innanlands meira en Ásmundur ökuþór.
Kolefnissporin telja þó þú sért í útlömdum, farþegi eða að fara fyrir einhvern annan. Einnig ferðir sem þú flokkar ekki sem ferðir í einkaerindum hér innan lands. Annars gæti Ásmundur ökuþór haldið því fram að hans kolefnisspor væri minna en þitt, hann væri löngu kominn á núllið ef hann þyrfti ekki að anda og prumpa. Sjálfur ek ég oftast heimilisbílnum yfir 500 km á viku en innan við 3 í hreinum einkaerindum fyrir sjálfan mig. Kolefnisspor mitt minnkar samt ekki um 50% þó ég skreppi í ríkið á reiðhjóli.
Hábeinn (IP-tala skráð) 17.2.2018 kl. 21:54
P.S.vegna P.S. Ómars. Hvar hef ég vænt Ómar um stórfelldar rangfærslur og lygar og heimtað gögn um það að hann noti ekki meira jarðefnaeldsneyti en Ásmundur Friðriksson? Ekki hér að ofan. Það geta allir aðrir en Ómar séð.
Hábeinn (IP-tala skráð) 18.2.2018 kl. 00:20
Þú segir að samkvæmt mínum tölum haldii ég því fram að það jafngildi kolefnisspori fimm meðalstórra bíla á ári að ég aki 2000 km árlega á rafreiðhjóli, 10 þúsund á léttu vélhjóli og 8000 á rafbíl kolefnisspori.
Ég held þessu alls ekki fram, heldur hinu, að ef ég notaði ekki þessi þrjú farartæki fyrir 20000 km akstur árlega, myndi kolefnisspor mitt fyrir þennan 20 þús km akstur á bensín- og dísilbílum vera jafngildi spori 1,3ja meðalbíla.
Allur samanburður þinn við akstur Ásmundar Friðrikssonar er langt út úr kortinu, en í samræmi við einlægan og ítrekaðan vilja þinn til þess að sverta mig sem versta umhverfissóða Íslands.
Ómar Ragnarsson, 18.2.2018 kl. 01:06
Semsagt þar sem ég labba allt hér innandyra en nota ekki bensínknúinn hjólastól sem eyðir 10 lítrum á hundraðið þá er ég að minnka kolefnisfótspor mitt um 99,999% samkvæmt reiknikúnstum þínum. Og kolefnisfótspor mitt utandyra telst ekki með frekar en valdar ferðir þínar. Ég er því í góðum málum og telst súper umhverfisvænn svo lengi sem ég labba eða nota eitthvað rafknúið innandyra.
Hingað til hef ég talið minnkun vera þegar eitthvað minnkar en ekki þegar eitthvað stækkar ekki. Að 70% eða 85% minnkun á kolefnisfótspori sé minnkun úr einhverri stærð. Og ef minnkunina á að skrifa á minni sóun farartækja á orku þá sé ekki um fækkun kílómetra að ræða. Ég þarf greinilega að finna orðabók og rifja upp hvað minnkun er.
Og versti umhverfissóði Íslands eru þín orð en ekki mín. Ég mundi ekki ganga lengra en að efast um að stærðfræðikunnáttan nægði til að komast upp úr grunnskóla þegar þú reiknar kolefnisfótspor þitt. En þú þekkir þig betur en ég og ert vanur því að gefa hlutum nafn og leggja mönnum orð í munn.
Hábeinn (IP-tala skráð) 18.2.2018 kl. 02:43
Hver notar "bensínknúinn" hjólastól innan dyra?
Dæmið er ekki flókið.
Ég notaði árlega bensín- eða dísilknúna bíla utan dyra í raunveruleikanum og ekki er um að ræða "valdar ferðir" mínar hvað það snertir upp á alls um 23 þúsund kílómetra.
Nú hef ég breytt farartækjunum þannig að í stað þess að aka 23 þúsund kílómetra árlega á bílum knúnum jarðefnaeldsneyti ek ég aðeins 3 þúsund á slíkum bílum, en 20 þúsund á þremur farartækjum, þar sem tvö þeirra hafa engan útblástur og eitt þeirra er með þrisvar til fjórum sinnum minni útblástur en meðalbíll.
Út úr þessu fæ ég ca 85 prósent minna kolefnisspor en á meðan ég var eingöngu með bensín- eða dísilbíla.
Ómar Ragnarsson, 18.2.2018 kl. 03:13
Hér ritar þú Ómar Ragnarsona, bíladellukall, skemmtikraftur og oft ágætur blaðamaður um tæknimál eftir einhverju sem þú en lest í auglýsingapésum.
Ég Guðmundur Jónsson, vélfræðingur, véliðfræðingur og radíóamatur sem hef unnið við hönnun véla (og þar með talið bíla) í bráðum 30 ár ritaði hinsvegar þennan pistil um sama málefni fyrir nokkru.
https://mummij.blog.is/blog/mummij/entry/2200623/
Kaldur raunveruleikinn er sá að þegar á heildina er litið er þessi litli bíll mun umhverfisvænni væri hann með hefðbundinni bensínvél.
g
Guðmundur Jónsson, 18.2.2018 kl. 11:03
Ég hef sagt það og segi enn, að Honda PCX hjólið er umhverfismildara en nokkur rafbíll. Það er 10 sinnum léttara, 10 sinnum ódýrara og að öllu leyti nema kannski hreyflinum, með minna kolefnisspor þegar tillit er tekið til allra þátta, líka þess kolefnisspors sem framleiðsla og förgun, fjárfestingarkostnaður og viðhald er tekið með í reikninginn.
Ómar Ragnarsson, 18.2.2018 kl. 15:17
Síðan má ekki gleyma gildi þess, hvað þetta hjól tekur miklu minna pláss í gatnakerfinu en bíll og getur skapað rými fyrir einn aukabíl á götunni á meðan það er á ferð.
Ómar Ragnarsson, 18.2.2018 kl. 15:19
Kolefnisskattur á eldsneyti er bara einn skatturinn enn allt kjaftæði um hlýnun jarðar er barta bull.Og það er nægt jarðefnaeldsneyti til um ókomna tíð.Mengun fr´eldgosum síðustu 200 árin hefur ekkert að segja með hlýnun jarðar að gera frekar en brennsla á jarðefnaeldsneyti.Ef eitt hvað er mengandi eru það þessir rafbílar bæði við að framleiða þá og að farga rafgymum fyir utan að 4 ára eru þeir verðlausir.
BMW DÍSEL (IP-tala skráð) 18.2.2018 kl. 15:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.