21.2.2018 | 13:28
Draumur stórhuga manns, á undan samtíðinni.
Við Ármúla, nokkrum húsum neðar en Hótel Ísland er nú, rak Ólafur Laufdal skemmtistað að nafni Hollywood á þann hátt að hann varð fljótlega sá vinsælasti í borginni.
Flestir hefðu sennilega látið sér það nægja, en Ólafur var ekki maður sem svaf á lárviðarsveigum, heldur fór út í það að koma sér upp margfalt stærri skemmtistað í Mjóddinni með nafninu Broadway.
Sá staður lék afar stórt hlutverk í sögu skemmtana, tónlistar og menningar um árabil og hefðu margir af þeim fjölmörgu heimsfrægu listamönnum, sem Ólafur stóð fyrir að fá til landsins, varla komið ef hans hefði ekki notið við, að ekki sé talað um vandaðar tónleikaraðir.
Enn á ný hugsaði Ólafur hærra og nú varð til stærðar hótel, Hótel Ísland, með innbyggðum enn stærri skemmti- og menningarstað með nafninu Broadway.
Blómaskeið hans stóð út eftir öldinni, en þegar bjórbanninu var aflétt 1989, fóru í hönd miklir breytingatímar, þar sem upp spratt fjöldi lítilla bjórkráa og skemmtistaða í stíl við hið gjörbreytta ástand.
Þetta hafði smám saman afgerandi áhrif á rekstur Broadway og svo fór að Ólafur varð að horfa upp á að ekki var hægt að halda áfram á sömu braut.
Einhverjir hefðu haldið að nú væri ævintýrið búið og að Ólafur sætti sig vel við glæsilegan feril á sínu sviði.
En hann skynjaði nýja tíma fyrir "eitthvað annað", sem aðrir gerðu lítið úr og hóf uppbyggingarstarf á nýjum stað, að Grímsborgum í Grímsnesi.
Sá staður hefur notið vaxandi og glæsilegri velgengni, enda leitun að duglegri, útsjónarsamari og klárari manni, hoknum af reynslu, en Ólafi Laufdal til að stjórna uppbyggingu og framförum þar sem hans nýtur við.
Og nú, um síðir, kemur í ljós að sýn hans varðandi uppbyggingu í kringum Hótel Ísland var rétt allan tímann, þetta var bara spurning um tíma.
Skoða að stækka Hótel Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.