21.2.2018 | 18:44
Loksins! Loksins! Mál Erlu er eftir.
Loksins! Loksins hefur það gerst, sem hefði átt að gerast fyrir löngu, löngu.
Geirfinns- og Guðmundarmálin setja mjög ljótan blett á orðspor íslensks samfélags á síðustu öld, og er með ólíkindum að hægt hafi verið að halda því fram að þær pyntingar, sem hafðar voru í frammi við sakborningana.
Að það hafi verið nútíma menningar- og mannúðarsamfélag sem hélt einum sakborninganna í algerri einangrun í meira en sex hundruð daga eða hátt í tvö ár samfellt, er auðvitað fjarri lagi.
Skömmin er íslenska þjóðfélagsins í heild, sem lét þetta viðgangast í hugarfari, sem minnti á galdraofsóknir fyrri alda.
Ekki þarf að endurtaka hvernig málatilbúnaðurinn allur var farsakenndur og fáránlegur.
Það eina sem skyggir á niðurstöðu setts ríkissaksóknara er að mál Erlu Bolladóttur skyldi ekki hafa verið tekið upp líka, því að það var algerlega samofið þeim ósköpum, sem meðferð málsins var á sínum tíma.
Það verður að halda í vonina um að hún verði sýknuð líka, úr því að það tókst loks eftir fjóra áratugi að fá fram sýknukröfu á hina sakborningana.
Krefst sýknu að öllu leyti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Allar þjóðir virðast eiga sín dómsmorð en ákaflega mis mörg. Almennt er talið að 10-15 prósent dómsmála séu byggð á röngum forsendum og oft þvingaðar fram játningar. Eða staða sakborninga það veik að þeir verða undir ruðningsáhrifum rannsóknar og dómskerfisins.
Ekki er algengt á Vesturlöndum að ást á ríkisvaldinu eða þjónkun við hagsmuni þess leiði til hryðjuverka eða dómsmála á borð við Guðmundar og Geirfinnsmálið. Upphaf málsins var að spíra af Fossunum var varpað í sjóinn út af Reykjanesi. Búinn var til sú saga að Geirfinnur hafi ætlað að koma fengnum í land. Spuni á eftir spuna leiddi svo til að rannsóknarmenn sem höfðu óbeislað vald gátu sannfært Sakadóm um að ungmenn væru að grafa undan ríkinu. ÁTVR með því að hafa ætlað að græða á spíra. Aldrei hafa verið settar fram trúverðugar skýringar eða ástæður meintra morða ungmennanna. Heldur spuni á spuni ofan sem rannsóknarlögreglan bjó til í óskiljanlegum tilgangi.
Í Austur Evrópu eru til "Terror"-söfn í Búdapest og Póllandi sem sýna hvernig framapotarar í öryggislögreglunni misnotuðu aðstöðu sína og tóku að "framkalla" játningar. Átakanlegt er að ganga í gegnum svona söfn. Hver sem eyðir hluta úr dagstund í að skoða hryllinginn verður aldrei sá sami. Mannvonskan yfirþyrmandi, sem hafði þann aðal tilgang að halda fólki í ótta og festa ólöglega valdhafa í sessi.
Hér urðu margir einstaklingar og fjölskyldur fyrir miklum þjáningum sem afleiðing af einangrun og þvinguðum játningum á hendur ungmennunum í Guðmundar og Geirfinnsmálinu. Skipaðir lögmenn sakborninga voru niðurlægðir og haldið utan við sönnunargögn. Engin ástæða er að draga úr því. Enginn var tekin af lífi eins og átti sér stað um alla Austur-Evrópu á dögum kommúnista.
Að ætla sér nú að undanskilja eina manneskju frá því að fá sýknun í sama máli er ekkert annað en mannvonska og mikill mistök eins og þú bendir á. Venjulega eru það óvönduð vinnubrögð við upphaf rannsókna sem leiða af sér dómsmorð. Hér á hins vegar að kóróna síðustu rannsóknarvinnuna með því að skilja Erlu Bolladóttur utangarðs. Þá er bara eitt að vona að Hæstaréttur kollvarpi þessari nálgun og sendi mál hennar til föðurhúsanna. Mál sem er órjúfanlegur þáttur af heildinni. Mál sem rannsóknarvaldið á erfitt með að nálgast.
Sigurður Antonsson, 21.2.2018 kl. 20:36
Fáránlegt að mál Erlu sé ekki þarna með. Hún var ekki síður fórnarlamb spillingar og mannvonsku en hinir.
En það væri vel við hæfi að stofna safn um Geirfinnsmálið, eða í það minnsta setja upp sýningu. Þar væri rétt að hafa styttur í fullri stærð af öllum hinum opinberu starfsmönnum sem tóku vitandi vits þátt í dómsmorðinu.
Þorsteinn Siglaugsson, 21.2.2018 kl. 20:44
15.9.1976:
"Karl Schütz kom hingað til lands fyrir nokkrum vikum að ósk ríkisstjórnarinnar í þeim tilgangi að veita aðstoð við rannsókn Geirfinnsmálsins og Guðmundarmálsins."
Alþýðublaðið 15.9.1976
Ráðuneyti Geirs Hallgrímssonar 1974-1978
Þorsteinn Briem, 21.2.2018 kl. 22:36
"Karl Schütz var að eigin sögn sérfræðingur í að "vernda æðstu ráðamenn Sambandslýðveldisins og upplýsa mál sem vörðuðu öryggi ríkisins".
Þegar hann var farinn af landi brott lýsti hann því yfir í viðtali við þýskt síðdegisblað að meðferð gæsluvarðhaldsfanganna hafi minnt sig á blómatíð nasismans í Þýskalandi og að hlutdeild hans í málinu hafi bjargað íslensku ríkisstjórninni."
Hliðverðir dómsmorðs? - Greinasafn Sigurfreys
Þorsteinn Briem, 21.2.2018 kl. 22:38
Í dag:
"Hafþór Sævarsson, sonur Sævars Ciesielskis, segir að Guðmundar- og Geirfinnsmálinu verði ekki lokið með sýknudómi í Hæstarétti, heldur þurfi allsherjar uppgjör á málinu.
Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, krefst þess að sakborningar málsins verði allir sýknaðir.
Greining á gögnum málsins hafi grafið undan játningum þeirra og sektardómurinn byggði nær eingöngu á framburði þeirra.
Ragnar Aðalsteinsson, verjandi Guðjóns Skarphéðinssonar, segir Hæstarétt ekki geta annað en sýknað í málinu.
"Hæstiréttur er að mínu viti bundinn af kröfum ákæruvaldsins í málinu og getur ekki sniðgengið sýknukröfuna, þannig að niðurstaðan verður að lokum sú að þessir sakborningar verði sýknaðir af þessum gömlu ákærum."
Engu að síður þurfi málið að fara fyrir dóm.
"Ég býst við að verjendur hafi ástæðu til að koma að ýmsum athugasemdum við rökstuðninginn í greinargerð ákæruvaldsins.""
Þorsteinn Briem, 21.2.2018 kl. 22:58
"Vilmundur Gylfason sakaði Ólaf Jóhannesson, sem þá var dómsmálaráðherra, um að hafa haft óeðlileg afskipti af Geirfinnsmálinu."
Þorsteinn Briem, 21.2.2018 kl. 23:18
Erla bolla var sakfelld fyrir að bera rangar sakir á menn sem voru svo ekki dæmdir í málinu. Sýkna í þessu máli þýðir að ósannað er að framburður Erlu hafi verið rangur.
Ég er ekki að segja að ekki hafi verið brotið á Erlu og Einari en það er augljóslega ekki hægt að hræra þessu saman.
Guðmundur Jónsson, 22.2.2018 kl. 11:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.