23.2.2018 | 21:45
Nýjasta virkjanaæðið: Eftirsókn eftir vindi og sæstreng.
Nýlega notaði forstjóri Orku náttúrunnar orðið "virkjanaæði" um það ástand, sem ríkti hér á landi í orkumálum.
Nú stingur nýjasta tegund þess upp kollinum: Risavaxin vindorkuver.
Stórbrotnar hugmyndir um þau spretta ekki upp af tilviljun. Nokkur áhrifaatriði má nefna:
1.
Óheyrilegar háar orkutölur og eftir því gróðavon. Stærsta vindorkuver heims á að rísa vestarlega í Kína, langt inni á meginlandi Asíu og geta afkastað 20 þúsund megavöttum, sem er álíka mikið og 30 Kárahnjúkavirkjanir.
Vindorkuverið, sem fyrir liggur í viljayfirlýsingu sveitarstjórnar Dalabyggðar og eigenda jarðarinnar Hróðnýjarstaða, skammt frá Búðardal, að skuli verða sett á skipulagið þarna, á að hafa allt að 130 megavatta uppsett afl.
Það er litlu minna en afl stórvirkjunarinnar Blönduvirkjunar, sem er 150 megavött. Landvernd minnist á "sambærileg svæði" og verndarsvæði og þessi 40 mastra skógur af 150 metra háum möstrum á Hróðnýjarstöðum mun sjást frá mestallri Hvammssveit í því héraði landsins sem býr yfir hvað mestum sagnaslóðum.
Vindorkugarðar voru fegraðir mjög á fundi í Dalabúð á dögunum, hávaðinn í myllunum sagður ekki meiri en frá ísskáp og þegar horft væri lóðrétt niður á myllurnar, sýndust þær mjög smáar!
2.
Virkjanasprengja. Virkjanahugmyndir, jafnvel á virkjunarkostum í verndarflokki, hrúgast inn í tugum. Fyrir liggur yfirlýsing forstjóra Landsvirkjunar á aðalfundi fyrirtækisins fyrir þremur árum um að fyrir árið 2025 verði búið að tvöfalda raforkuframleiðslu Íslands frá því sem nú er. Það þýðir, að 2025 framleiddum við tíu sinnum meiri raforku en við þurfum til okkar eigin heimila og fyrirtækja. Les: Stóriðja.
3.
Sæstrengur. Forstjóri Landsvirkjunar sagði líka á fyrrnefndum fundi að það væri ekki spurning um hvort, heldur hvenær lagður yrði sæstrengur milli Íslands og Skotlands.
Þetta tengist þeim ágalla vindorkuvera að vera afllaus í logni og sæstrengur hefði gríðarlega þýðingu fyrir stórfella vindorkuvæðingu Íslands, því að þá yrði hægt að selja vindorku til Evrópu hvenær sem væri, sem er mikill munur miðað við það að geta aðeins selt Landsvirkjun takmarkað magn sem passar við sveiflujöfnun í lónum hennar.
Allt tal um að hægt yrði að safna á rafhlöður orku vindorkuvera á við margar Kárahnjúkavirkjanir er út í hött, svo mikið af rafhlöðum þarf til að geyma svona mikla orku. Til samanburðar má nefna að rafbílavæðing landsins felur aðeins í sér um að ræða örfá prósent af orkuframleiðslu landsins og samt er rætt um vandamál varðandi rafgeymana sem þarf fyrir bílana.
Vindorkuver rísi ekki á verndarsvæðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
ef marka má forstjóran er komi virkjanahlé sem ég skil ekki alveg því í hinu orðinu bíðas fyrirtæki í hrönum eftir orkuni. það er eingin tilviljun að landsnet vilji stórar raflínur austur þar sem línur koma saman erstutt í sæstreing hvar sem hann kemur að landi. tilviljun held varla. ekki hrifin, menn eiga ekki að bruðla með orkuna með sæstreing. ágæt skoðun hjá ómari
kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 24.2.2018 kl. 10:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.