7.3.2018 | 16:43
Of stór - of seint.
Í gamla daga var það draumur flugáhugamannsins að fljúga með Concorde. Concorde kom og fór af því að hún var of dýr og, svo undarlega sem það hljómar, of hraðfleyg.
Hinn mikli hraði gerði það að verkum að hún var í sérflokki á löngum leiðum, en á öllum stigum flugsins, allt frá flugtaki til lendingar, gerði hraðinn hana viðkvæmari fyrir áföllum en aðrar þotur.
Á okkar dögum gæti það verið draumur flugáhugamannsins að fljúga með lang stærstu farþegaþotu heims, Airbus A380.
En í hálfa öld hefur Boeing 747 verið sú farþegaþota sem hefur uppfyllt drauminn um að fljúga í flugvél, sem hefur verið svo miklu stærri en aðrsr, að það gefur sérstaka upplifun.
Til þess að Airbus A380 bæti nógu miklu við þetta, hefði hún þurft að vera stærri en hún er.
En vegna flugvallamannvirkja heims var það ómögulegt, því að vænghafið má ekki vera meira en 80 metrar. Annars er ekki hægt að aka henni um það kerfi akstursbrauta og flugbrauta, sem nú er.
A380 er meira að segja það stór, að það þurfti að fórna ákveðinni rekstrarhagkvæmni vegna takmarkaðs vænhafs.
Ákveðið hlutfall milli lengdar vængs og breiddar, ca 8:1, átta á móti einum gefur minnsta loftmótstöðu og mest hlutfallsleg afköst í klifri, farflugi og lækkun.
Vænghaf A380 hefði þurft að vera upp undir 90 metra til þess að hún stæði jafnfætis keppinautunum.
Til samanburðar má geta þess sú vél heims, sem er með lengst vænghaf, Spruce Goose Howvards Hughes, er með rúmlega 100 metra vænghaf.
Það var mögulegt, af því að sú vél er sjóflugvél.
Það barist um hvern lítra eldsneytis í hinni eitilhörðu samkeppni í fluginu. Eldsneytið er lang dýrasti hluti rekstrarkostnaðar.
Þótt A380 sé aðeins fáum prósentum óhagkvæmari en Boeing 747 munar um það.
Um er að ræða svipað fyrirbæri og hefur valdið því að Boeing 757 lifði ekki af samkeppni frá 737 með lengdan skrokk, sem er með 40 prósent minni væng.
Hönnunarkostnaður A380 fór langt fram úr áætlun og það hefur dregið dilk á eftir sér.
747 er þrautreynd eftir hálfrar aldar flug og hefur frá upphafi verið einhver farsælasta flugvélategund allra tíma, ótrúlega laus við barnasjúkdóma, jafn byltingarkennd og hún var.
Þegar A380 kom til sögunnar voru þeir tilbúnir hjá Boeing með stórendurbætta "Bumbu".
Hún hefur reynst of stór og það er líka seint í rassinn gripið.
A380 er afar viðkvæm fyrir því ef eftirspurn eftir flugi á henni sé ekki í hámarki.
Það munar svo miklu um það ef slík vél er hálftóm, þegar þess er gætt að ef jafnmargir farþegar væru um borð í Boeing 747, væru tómu sætin miklu færri og um hagkvæmari kost að ræða.
Það munaði ekki miklu að það yrði að hætta við framleiðlslu A380 nýlega, en ein stór pöntun bjargaði málum.
Reksturinn er afar viðkvæmur fyrir áföllum, og það var mikil heppni yfir vélinni, þegar hreyfilbilun var nálægt því að valda því að hún færist fyrir nokkrum árum.
Þá kom í ljós að aðvörunarkerfi hennar var orðið of fullkomið og viðamikið, svo undarlega sem það kann að hljóma, og að það var eingöngu vegna sérstakrar rósemi, yfirvegunar og skynsemi, sem flugstjórunum tókst að bjarga þessu stóra flykki.
Ef hún hefði farist, hefði það komið á versta tíma og jafnvel endað ferilinn.
3.700 sagt upp hjá Airbus | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Takk, Ómar, þetta er fróðlegt yfirlit. Svo eru óþægindin sem farþegi við það að bíða með 500 manns eftir hverjum þjónustuþætti í A-380 vélina og úr henni.
Ívar Pálsson, 7.3.2018 kl. 22:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.