10.3.2018 | 02:38
Fleiri en Menntamálastofnun falla á prófi.
Það hafa fleiri fallið á prófi en Menntamálastofnun að undanförnu.
Í fjölmiðlum hafa ítrekað verið birtar myndir, sem sagt er að séu af Teigsskógi en annað hvort eru það ekki né gefa rétta mynd af skóginum og þessu svæði.
Þetta fall á prófi upplýsingargjafar hefur staðið í mörg ár.
Myndin með tengdri frétt á mbl.is er tekin á vegarslóða, sem liggur um kjarr á leið eftir vesturströnd Þorskafjarðar en til þess að myndin gæfi rétta mynd af verðmætasta svæðinu sem náttúruvætti, hefði þurft að fara mun lengra út eftir til myndatöku.
Myndir sem sýndar voru á sínum tíma og áttu að sýna þáverandi ráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, í könnunarferð í Teigsskógi, voru heldur ekki teknar á réttum stað, heldur á vegarslóða, sem liggur að verðmætasta svæðinu.
Á grunni þessara mynda hafa síðan vaðið uppi fullyrðingar um að Teigsskógur sé alls ekki skógur, heldur aðeins lágt kjarr eða lyng og jafnvel er fullyrt að leiðin um skógar- og kjarrlendið sé aðeins 2,5 kílómetrar að lengd.
Á Stöð 2 var sýnd loftmynd, tekin úr flugvél í mikilli hæð á flugi norður eftir þessari strandleið og var sú tilraun virðingarverð.
En hún gaf í raun enga mynd af Teigsskógi og því landslagi og gróðri strandarinnar, sem gerir svæðið að mikilsverðu náttúruverðmæti, því að hún var tekin úr of mikilli hæð til þess að hún gæfi nothæfa mynd af viðfangsefninu.
Aðeins hluti af ytri hluta strandarinnar sást í 6 sekúndur, en síðan var myndavélinni beint að slóðaleiðinni, sem liggur í átt að Teigsskógi í 20 sekúndur .
Flestir þeirra sem hafa haft hæst um það hve lítilfjörlegt það sé, landslagið og gróðurinn á því svæði þar sem vegurinn á að liggja, hafa ekki komið þangað.
Ég eyddi degi í það fyrir um þrettán árum, skömmu áður en ég fór á eftirlaun, í að aka eins langt og unnt var eftir vegarslóðanum, sem hefur verið margmyndaður, og ganga þaðan út fyrir Grenitrésnes og til baka aftur með kvikmyndatökuvél.
Um 40 sekúndna myndskeið frá þessari gönguferð var sýnd sem lokamyndskeið í einum fréttatímanum.
Síðar tók ég loftmyndir af grænum skóginum alla leið út að Djúpafirði, sem ég sýndi á fundi vestra.
Þessar tvær ferðir taldi ég vera lágmark til þess að gera sér grein fyrir þessu svæði og síðari hluta leiðarinnar skipta mestu máli.
Oft eru mál afgreidd svipað þessu hjá okkur, að upplýsingar skila sér ekki að gagni fyrr en seint og síðar meir.
Til dæmis var það ekki fyrr en eftir að búið var binda alla hnúta fasta um Kárahnjúkavirkjun, sem 1. áfangi rammaáætlunar fékkst birtur.
Þá fyrst fékk það að koma fram að Kárahnjúkavirkjun væri annar tveggja virkjanakosta á Íslandi, sem langmestum óafturkræfum og neikvæðum gætu valdið.
Hinn þessara tveggja verstu kosta var að virkja Jökulsá á Fjöllum.
Í ofanálag við þetta er ekki víst að gríðarlega mikið einstætt myndefni, sem ég, Friðþjófur Helgason og Sigurður Grímsson tókum í um 100 ferðum mínum frá Reykjavík austur á Norðausturhálendið til að kvikmynda drekkingu Hjalladals og eyðileggingu náttúrunnar þar og austan Snæfells, muni nokkurn tíma koma fyrir sjónir þjóðarinnar.
Allt það fé og fyrirhöfn verði unnið fyrir gýg.
Á efstu ljósmyndinni á síðunni er horft úr lofti yfir manngert leirfok úr þurru lónsstæði Hálslóns, sem kaffærir stíflurnar á björtum júlídegi í hlýjum sunnanþey. Það glyttir aðeins í Fremri-Kárahnjúk.
Á miðmyndinni liggur Örkin í apríllok, tilbúin fyrir sumarið á botni Hjalladals með Fremri-Kárahnjúk í baksýn, landslag sem verður í fyllingu tímans á 130 metra dýpi í drullu aurseti.
Á neðstu myndinni sést hvernig Kringilsá er með aurburði sínum búin að fylla af sandi að mestu gljúfur sitt, Stuðlagáttina, á aðeins þremur árum.
Þetta er tekið í júní og það er að renna í lónið eftir veturinn og á eftir að hækka í því svo að allt þetta svarta sem sést, Töfrafoss meðtalinn, fer á kaf í byrjun september.
Síðan rennur úr lóninu til næsta vors og eftir situr ein til tvær milljónir af nýjum jökulauri á þurru lónstæðinu.
Ef kvikmyndaefnið verður aldrei notað, mun þjóðin, bornar og óbornar kynslóðir, aldrei í raun aldrei fá að vita hvað gert var.
Kvikmyndin Örkin, sem ætlunin var að gera, verður þá aðeins draumsýn eða öllu heldur martraðarsýn mín, sem fer með mér í gröfina.
Þar með verð ég meðal þeirra sem féllu á prófi - og það ansi stóru prófi.
Allir munu þá anda léttara og það skil ég vel.
Vegurinn lagður um Teigsskóg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Teigsskógur getur aldrei kallast annað en ósköp venjulegt kjarrlendi Ómar. Hefurðu komið þarna? Það mætti segja að landið væri skógi vaxið ef þessi fláki skilgreinist sem skógur.
Það er lenska í nafngiftum hér að kalla kjarrlendi skóg. Á íslenskan mælikvarða líklega allt skógur sem ekki eru melar og hraun.
Þetta eru bara bölvaðar hrislur og alger bilun að hamla samgöngum fyrir heilan landsfjórðung fyrir þær.
Baráttumál þín eru ansi geðþóttafull og skrítin á stundum. Þú lagðist æstur gegn Héðinsfjarðargöngum hér fyrir norðan og studdir vini þína á króknum að fá þau inn í fljót. Það hefur sannað sig og sýnt sem allir vissu að var algert rugl.
Þú blandar þér í mál sem þér koma ekki rassgat við og þú hefur engan skilning á enda búið alla þína hunds og kattartíð á malbikinu. Hafðu skoðun á þínu nærumhverfi og samgöngum þar og láttu annað eiga sig.
Jón Steinar Ragnarsson, 10.3.2018 kl. 07:21
Það er yfirdrep að þeta mál snúist um einhvern skóg. Þetta snýst um þvermöðsku einhverra bænda sem vilja absolútt búa í einangrun eða þá eru svo gráðugir að þeir vilja einhverjar stjarnfræðilegar upphæðir fyrir að leyfa veginn. Gamla íslenska afturhaldið og þvermóðskuna styður þú ,eð oddi og egg. Engar framfarir. Ekki breyta neinu.
Jón Steinar Ragnarsson, 10.3.2018 kl. 07:26
Held að það sé nú ekki rétt hjá þér Jón Steinar að þetta séu bændur þarna sem þvælast fyrir. Tek það fram að ég er ekki kunnugur á svæðinu en heyri alltaf að eigendur tveggja af þessum þremur jörðum sem eiga Teigsskóg og allar eru í eyði, eigi heima á Reykjavíkursvæðinu. Það eru fyrst og fremst þessir menn sem hafa þvælst fyrir og fá eins og svo oft áður allskonar náttúruverndarsamtök í lið með sér. Þau eru alltaf að láta einhverja eiginhagsmunaseggi misnota sig. Fólkið sem þarna á heima vill auðvitað bara sjá samgöngubæturnar komast í framkvæmd. En að nefna Kárahnúkavirkjun og Teigsskóg í sama orðinu, eins og Ómar gerir hér að ofan, er auðvita alveg út í bláinn
Þórir Kjartansson, 10.3.2018 kl. 09:45
Ómar ef ég má. Þú ert beðin að svara athugasemd frá Bjarne Örn.
https://skolli.blog.is/blog/skolli/entry/2212650/#comment3686735
Valdimar Samúelsson, 10.3.2018 kl. 11:42
Ólafur Arnalds prófessor - Teigsskógur og vegalagning:
"Skipulag vegalagningar um Gufudalssveit er orðið langt og sorglegt drama.
Ljóst var fyrir 11 árum síðan, þegar Skipulagsstofnun hafnaði vegastæði um Teigsskóg, að leggja þyrfti veginn með öðrum hætti.
Hefði sú vinna farið strax í gang keyrðu Vestfirðingar fínan malbikaðan veg um Gufudalssveit núþegar, bara á öðrum stað.
Það er afskaplega leiður ávani ýmissa stjórnvalda, í þessu tilfelli Vegagerðarinnar, að hunsa álit annarra stjórnsýslueininga á sviði umhverfismála.
Reynt var að láta ráðherra snúa við úrskurðinum, sem hún gerði (Jónína Bjartmarz) en Héraðsdómur ógilti úrskurð ráðherra (2008).
Enn var þumbast við en árið 2009 staðfesti Hæstiréttur "Héraðsdóminn". Ögmundur Jónasson komst síðar að sömu niðurstöðu sem ráðherra vegamála.
Þessi vegalagning um Teigsskóg virðist hins vegar hafa beinlínis orðið að þráhyggju hjá Vegagerðinni eða einhverjum þar innanhúss.
Og nú á enn að hunsa álit Skipulagsstofnunar og annarra ríkisstofnana sem fara með umhverfismál af hálfu ríkisins.
Veglína Vegagerðarinnar um Teigsskóg er umhverfislegt stórslys.
Jafnframt er beitt óvönduð vinnubrögðum, að mínu mati, til að viðhalda þráhyggjunni, gert lítið úr svæðinu við Teigsskóg (málið snýst alls ekki bara um skóginn), meðal annars með vafasömum myndbirtingum.
Lítið er gert úr öðrum möguleikum en þegar rýnt er í þær röksemdir standast þær ekki mál.
Þá er fullkomlega gengið fram hjá byggðarsjónarmiðum sem lúta að því að treysta þéttbýlið á Reykhólum."
Þorsteinn Briem, 10.3.2018 kl. 13:15
31.3.2017:
"Endurbætur á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit, frá Bjarkarlundi að Skálanesi, hafa staðið til um margra ára skeið en gamall malarvegur er kominn til ára sinna.
Í vikunni skilaði Skipulagsstofnun áliti á umhverfismati Vegagerðarinnar fyrir veginum.
Í umhverfismatinu voru teknar fyrir fimm leiðir og lagði Vegagerðin til leið sem er kölluð Þ-H.
Skipulagsstofnun lagði hins vegar til í áliti sínu að farin yrði önnur leið sem er talin valda minni umhverfisáhrifum, D2.
Þrátt fyrir álit Skipulagsstofnunar hyggst Vegagerðin halda sínu striki."
Hvert er gjaldið fyrir Vestfjarðaveg?
Þorsteinn Briem, 10.3.2018 kl. 13:39
"Hefurðu komið þarna?" spyr Jón Steinar. Hefur ekki einu sinni fyrir því að lesa pistilinn. Ég hef farið um þessar slóðir árlega í 60 ár og bæði gengið um Teigsskóg og flogið lágt yfir hann, en Jón Steingar gefur sér að ég sé einn "lattelepjandi 101 kaffihúsa ónytjunga", einn af "101 rottum" eins og Ásmundur kallar það og núna er maður afgreiddur svona: "hefur búið alla þína hunds og kattartíð á malbikinu."
Það stendur skýrum stöfum í pistlinum að Kárahnjúkavirkjun feli í sér mestu mögulegu óafturkræfu umverfisspjöll á Íslandi, en pistillinn snýst ekki um það, heldur um dæmi þess í smáu og stóru þegar upplýsingagjöf skortir.
Ómar Ragnarsson, 10.3.2018 kl. 14:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.