11.3.2018 | 00:52
Útsýni úr íbúð = 400 milljónir. Útsýni í íslenskri náttúru = 0.
Sérkennilegt lögmál er í gildi á Íslandi um mat á útsýni.
Ef útsýni er úr íbúð á efstu hæð í Reykjavík er það metið á 400 milljónir króna og enda þótt kostnaðurinn við byggingu hennar seé dregið frá þessu verði er útsýnið stór hluti af verði svona íbúða, til dæmis við Sæbraut.
Ef hins vegar er um að ræða útsýni á svæðum dýrmætustu náttúruverðmæta Íslands var því slegið föstu við gerð Kárahnjúkavirkjunar að virði þeirra fjölda fossa og ekki síst heils 25 kílómetra langs og 180 metra djúps dals, væri núll krónu virði.
Engu skipti þótt bent væri á að erlendis væri til viðurkennd aðferð til að meta slík náttúruverðmæti, sem nefnt væri "skilyrt verðmætamat."
Á sínum tíma fór ég til Sauðafjarðar (Sauda) í Noregi til að taka myndir af svæði þar sem slíku mati hafði verið beitt og ræddi við Staale Navrud prófessor við Umhverfis-og líffræðiháskólann í Ási, sem rakti fleiri dæmi um slíkt í ýmsum löndum.
Öllu slíku var hafnað og er enn hafnað hér á landi.
Ein röksemdin er að útsýni sé einskis virði nema að það sé frá húsi sem maður býr í eða mannvirki, sem maður stendur á.
Þetta er yndisleg kenning. Margir hafa upplifað þvílíka gagntakandi tilfinningu við að standa utan dyra í ósnortinni náttúru og njóta óviðjafnalegs útsýnis að þeir munu aldrei upplifa slíkt úr íbúð í borg.
En, sem sagt, á Íslandi, landinu sem meira en 80 prósent erlendra ferðamanna eru komnir til til þess að upplifa einstæða náttúru landsins, eru náttúruverðmæti, þar með talið útsýni, metin einskis virði í peningum og engin breyting þar á.
Á ljósmyndinni, sem er yfir bloggpistlum mínum, er staðið á botni Hjalladals, sem sökkt var og verður þetta landslag á um 150-180 metra dýpi undir aurlagi í fyllingu tímans.
Þetta er hluti af svonefndum Stöpum, sem eru marglitir klettar úr flikrubergi við Rauðagljúfur, Rauðagólf, Rauðuflúð og stuðlabergshamarinn Arnarhvol, sem mikilvirkasta fljót heims hafði grafið á innan við einni öld.
Fjær og ofar er hluti af stærsta hjallalandslagi á Íslandi, og sést í Hálsinn, sem lónið er kennti við, smá bút af gróinni og grænni Fljótshlíð íslenska hálendisins, sem er 15 kílómetra löng, en öllu þessu var sökkt í drulluvatn og verður tortímt enn kyrfilegar með Kárahnjúkavirkjun, þegar dalurinn hefur verið endanlega fylltur af auri.
Neðsta myndin er tekin við Kelduá fyrir austan Snæfell þar sem nú er búið að drekkja landinu og Folavatni, sem manni sagt að væri í gróðursnauðu umhverfi og einskis virði.
Þegar komið var að vatninu áður en því var sökkt, kom hins vegar í ljós að bakkar þess og fjórir grónir hólmar á því voru fallegar gróðurvinjar þar sem Snæfell speglaði sig í vatnsfletinum ef kyrrt var.
Dýrasta íbúðin á hundruð milljóna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er kominn tími á að stíga nokkur skref afturábak og skoða stöðuna í landinu. Margir tala byltingu gegn allri yfirstjórn og byrja upp á nýtt eins og staðan var þegar stríðið byrjaði í 1940. "Spinnegal" elíta ræður of miklu og verður að strokast út!
Eyjólfur Jónsson, 11.3.2018 kl. 01:26
Útsýni úr íbúð = 400 milljónir. Útsýni í íslenskri náttúru = Ekki til sölu nema sem uppbót og afsökun fyrir 10 evru verði á kaffibolla fyrir útlendinga, samkvæmt verðskrá umhverfisverndarsinna.
Vatn sem rennur út í sjó = 0. Vatn sem rennur gegnum hverfil = 50 nýir læknar, 100 hjúkrunarfræðingar, 200 menntaðir kennarar, 100 lögregluþjónar og 500 malbikaðir kílómetrar af tvíbreiðum vegi með brúm í fullri stærð á hverju ári.
En eins og komið hefur fram þá telur Ómar 50 lækna, 100 hjúkrunarfræðinga, 200 kennara, 100 lögregluþjóna og 500 malbikaða kílómetra af tvíbreiðum vegi einskis virði í samanburði við foss sem 100 manns skoða í 5 mínútur.
Og Eyjólfur hefur byltinguna sína strax og útsölum lýkur í Kringlunni og búið er að byrgja sig upp með klósettpappír úr Costco, ef veður leyfir. Allir velkomnir og heitt á könnunni.
Hábeinn (IP-tala skráð) 11.3.2018 kl. 02:12
2.3.2018:
Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar rúmlega fimm hundruð milljarðar króna í fyrra - Um þrefalt meira en útflutningsverðmæti sjávarafurða
Þorsteinn Briem, 11.3.2018 kl. 02:34
Álverin greiða einungis brot af þeim sköttum sem fyrirtæki greiða hér á Íslandi og meðallaun í álverum hér eru lægri en í ferðaþjónustunni, eins og undirritaður hefur margoft sýnt hér fram á.
Mikil meirihluti skatta fyrirtækja og einstaklinga kemur frá höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal þjónustufyrirtækjum og þeim sem þar starfa, enda er þar mikill meirihluti fyrirtækja og einstaklinga.
Til að reisa hér virkjanir tekur Landsvirkjun lán erlendis, þannig að tugmilljarða króna vextir af þeim fara árlega til lánastofnana erlendis sem erlendur gjaldeyrir.
Þar að auki þurfa álfyrirtækin hér, sem eru í eigu erlendra fyrirtækja, að kaupa gríðarlegt magn af súráli í erlendum gjaldeyri til sinnar framleiðslu.
Þorsteinn Briem, 11.3.2018 kl. 02:35
15.11.2015:
Alcoa aldrei greitt skatt hér á Íslandi - Um 57 milljarðar króna farið frá Alcoa í Reyðarfirði til Lúxemborgar
Þorsteinn Briem, 11.3.2018 kl. 02:36
Stóriðjan þarf gríðarmikla raforku og stóriðjufyrirtæki verða einungis á örfáum stöðum á landinu.
Ferðaþjónusta er hins vegar í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins.
Þar að auki eru langflest fyrirtæki í ferðaþjónustunni hér á Íslandi einkafyrirtæki, sem Sjálfstæðisflokkurinn talar sífellt um af mikilli lítilsvirðingu, eins og mörg önnur einkafyrirtæki hér, til að mynda alls kyns þjónustufyrirtæki.
Hversu mörg stóriðjufyrirtæki verða annars staðar en í Hafnarfirði, Helguvík, á Grundartanga, Húsavík og Reyðarfirði?!
Hvernig ætla Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn þá að auka hér hagvöxt?!
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn gapa nú mjög um hagvöxt hér á Íslandi síðastliðin ár en útflutningur á þjónustu hefur skapað þann hagvöxt.
Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa ekkert gert til að skapa þennan hagvöxt, heldur þvert á móti gapað af mikilli lítilsvirðingu um ferðaþjónustu hér á Íslandi.
Þorsteinn Briem, 11.3.2018 kl. 02:37
11.5.2017:
Starfsmönnum álversins í Straumsvík fækkað um eitt hundrað á nokkrum árum í 380
7.8.2015:
"Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto Alcan sendi starfsmönnum bréf í dag þar sem hún útskýrir afstöðu fyrirtækisins."
"Rannveig segir í bréfinu að ... fyrirtækið hafi tapað samtals sjö milljörðum árin 2012 og 2013 og að hagnaður fyrirtækisins aðeins verið 0,3% arðsemi eigin fjár."
Steini Briem, 5.3.2016:
Vilji fyrirtæki hér á Íslandi ekki hækka laun eins og önnur fyrirtæki í landinu verður því einfaldlega lokað og starfsmennirnir fá sér vinnu í öðrum fyrirtækjum sem geta hækkað laun vegna þess að þau eru ekki rekin með tapi.
Starfsmennirnir eru ekki þrælar erlendra stórfyrirtækja eins og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn vilja greinilega að þeir verði.
Og álverið í Hafnarfirði er ekki rekið með tapi vegna launa starfsmannanna.
27.4.2017:
"Á aðalfundi Landsvirkjunar í dag var samþykkt tillaga stjórnar fyrirtækisins um 1,5 milljarða króna arðgreiðslu til ríkisins."
10.4.2013:
"Á aðalfundi Landsvirkjunar í dag var samþykkt tillaga stjórnar fyrirtækisins um arðgreiðslu til eigenda, þ.e. ríkissjóðs, að fjárhæð 1,5 milljarðar króna fyrir árið 2012.
Landsvirkjun greiddi 1,8 milljarða í arð í ríkissjóð í fyrra [2012] en fyrirtækið greiddi engan arð í fjögur ár þar á undan [2008-2011]."
Þorsteinn Briem, 11.3.2018 kl. 02:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.