11.3.2018 | 17:50
"Aldrei haft það betra" - með 204 þús á mánuði?
"Þið hafi aldrei það betra" var slagorð breska íhaldsflokksins á uppgangstíma í Evrópu í kringum 1960. Samt var leitun að jafn fornlegri stéttaskiptingu og kjaramun norðan Alpafjalla en í Bretlandi.
Nú stefnir í það að viðleitni til að koma á norrænu velferðarmódeli í kjaramálum hér á landi, fyrirkomulagi sem hefur skapað stöðugleika jafnframt kjarabótum, verði algerlega klúðrað af íslenskum stjórnmálamönnum.
Björgvin Guðmundsson hefur ritað blaðagreinar sem sýna hvernig valdamenn hafa marg svikið ástemmd loforð sín um að rétta hlut þeirra sem verst eru staddir.
Hann rekur nýjasta dæmið, þar sem laun lægst settu lífeyrisþeganna eru 204 þúsund krónur á mánuði eftir skatt. Og tökum eftir orðunum "eftir skatt".
Stjórnmálamennirnir víla ekki fyrir sér að taka skatt af þeirri hungurlús, sem þessu fólki er ætlað að lifa á.
Jafnframt þessu hafa valdhafar búið til kerfi Kjaradóms, sem hyglar hinum hæst launuðu ítrekað á sama tíma sem stórir þjóðfélagshópar eru látnir skrapa botninn.
Þegar stjórnmálastéttin er beðin um að fella sitt eigið launakerfi í svipað horf og er í norrænu fyrirmyndinni þykist hún ekki geta það, - það væri lagabrot.
En hvaða lög eru það, sem ekki má brjóta? Jú, lögin, sem hún setti sjálf og hikaði ekki við það þá að breyta fyrri lögum. En lætur síðan nú eins og að þetta séu einhver guðs lög eða náttúrulögmál, sem ekki megi hrófla við.
Með sjálftöku til hærri launa og tekna en felst í norræna módelinu er verið að ögra láglaunafólki, sem rétt er upp í hendurnar tilefni til að segja: Nú er nóg komið! Við látum ekki bjóða okkur þetta lengur!
Þetta er dapurlegt dæmi um getuleysi og sjálfhygli trausti rúinna stjórnmálamanna.
Því að hugsunin á bak við Salek-samkomulagið hefði getað gert mikið gagn hér á landi.
Nú virðast þeir valdamenn, sem studdu þetta samkomulag í orði, hafa fallið á því einfalda prófi að láta gjörðir fylgja orðum.
Því miður.
Laun stjórnmálamanna ótrúlega há | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Verðlag á Íslandi er líka alveg ótrúlega hátt. Ég er ekk iviss um að þeir fái mikið fyrir þessar krónur sínar frekar en aðrir.
En eru ekki íslenskir verkalýðsleiðtogar líka með þeim bezt launuðu í heiminum?
Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 11.3.2018 kl. 21:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.