17.3.2018 | 09:48
Þegar skór og taska réðu úrslitum.
Ef skór og taska gátu ráðið úrslitum í keppni bestu frjálsíþróttamanna Evrópu 1950 má nærri geta hvað sé í gildi okkar tímum sérhæfingar, einbeitingar og algerrar afneitunar, sem besta íþróttafólk heims verður að tileinka sér til þess að komast í fremstu röð.
Í aðdraganda EM í frjálsum 1950 var svo hörð skömmtunarstefna rekin á Íslandi vegna hruns gjaldeyrisforðans í lok stríðsins, að það náði niður í einstök pör af skóm.
Nýir og betri hlaupaskór voru komnir á markaðinn erlendis en þeir skór sem íslenskir afreksmenn notuðu hér heima. Svonefnt Fjárhagsráð, sem skipað var til að afa alræðisvald um leyfi til innflutnings, gaf KR leyfi til að flytja inn eitt par af stökkskóm.
Í liði Íslands í Brussel voru fjórir KR-ingar og var ákveðið að hlutkesti milli tveggja manna skyldi ráða, hvor þeirra fengju skóna.
Torfi Bryngeirsson vann hlutkestið og sagði síðar að það hefði ráðið úrslitum um að hann varð Evrópumeistari í langstökki.
Hlaðmenn Flugfélags Íslands notuðu tösku Arnar Clausens til að skorða af dyr við útburð á farangri Íslendinganna á Reykjavíkurflugvelli, og varð taskan þar eftir fyrir misgáning.
Nærri má geta hvað það þýddi fyrir Örn sem einn af þremur bestu tugþrautarmönnum í Evrópu að koma skólaus til keppni.
Hann varð að fá lánaða skó hjá tvíburabróður sínum til keppni í hlaupum og allt of stóra skó hjá Jóel Sigurðssyni fyrir keppni í spjótkasti, kringlukasti og kúluvarpi.
Samt munaði örfáum stigum að hann yrði Evrópumeistari og samkvæmt nýrri stigatöflu Alþjóðasambandsins hefði hann orðið Evrópumeistari.
En Frakkar fengu því ráðið að gamla stigataflan var notuð. Fyrir bragðið var Örn skráður þetta ár sem annar besti tugþrautarmaður heims, næst á eftir bandaríska heimsmethafanum!
Ef valið stendur á milli trompetleiks og þess að komast í allra fremstu röð í 100 metra hlaupi á okkar dögum er úr vöndu að ráða fyrir fljótasta Íslendinginn. Hann býr að einbeitingu að trompetleiknum alla ævi, en spretthlauparaferill er aðeins nokkur ár.
Ég hef fengið nasasjón af svona vali. Eftir drengjameistaramót í frjálsum íþróttum sumarið 1958 var sagt í einu blaðinu að ég væri mesta hlauparaefni, sem komið hefði fram síðari árin.
Viku síðar sleit ég svo illilega liðbönd í vanhugsuðu "víðavangsþrístökki" að sumarið og veturinn fuku út úm gluggann.
Á meðan ég lá rúmfastur fann ég ekkert skárra mér til dundurs en að byrja að semja fyrstu heilu skemmtidagskrána mína.
Þar með var stefnan mörkuð í það að semja skemmtidagskrár, uppistönd, lög og texta og verða síðan skemmtikrafur að atvinnu nokkrum mánuðum seinna. Nýttist ævina alla, nú síðast á facebook síðu minni.
Ákvörðunin var í raun tekin fyrir mig 1958, fyrir réttum 60 árum, þrátt fyrir fjögurra vikna gutl í hlaupum 1964 og sex vikna gutl 1965 en 1960 hafði ég byrjað í nokkrar vikur, en var með rangan þjálfara, þótt frábær væri fyrir aðra; hann var af austur-evrópska skólanum og vildi láta mig hlaupa staðlaðan eðlisfræðilegan "réttan" stíl sem var mér ekki eðlilegur.
Og þá er bara að segja eins og Edith Piaf söng: "Ég sé ekki eftir neinu."
Get farið miklu hærra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.