Gervijepparnir mokseljast hjá öllum. Hvenær kemur Opel Karl?

Bilasalan í heiminum hefur lengi þrifist á því að búa til ímyndir með tískubrögðum.Cadillac 59 

Á árunum 1956-1961 voru það aftursveigðar framrúður og gríðarlegir uggar og stél sem voru aðal sölutrixin. 

Svo aftursveigðar voru sumar framrúðurnar, að fólk rak hnén í gluggahornin, sem sköguðu inn í dyrarýmið að framan og það var erfitt að setjast inn eða fara út um dyrnar. 

Sumir uggarnir og stélin voru allt að 2,5 metrar að lengd og næstum jafnhá og þök bílanna. Toyota C-HR

Síðustu árin að undanförnu byggist salan mjög á því að hafa útsýni sem verst úr bílunum, enn verra en var á amerískum bílum frá 1935-1948.

En eftir 1948 fóru gluggarnir að stækka og bílaframleiðendurnir kepptust við að auglýsa sem hæsta útsýnistölu í prósentum (panorama) og stærst flatarmál glugga. 

Núna verða húddin verða að vera svo há að vart sé hægt að sjá yfir þau, og gluggarnir að aftanverðu á bílunum verða helst að vera mjóar rifur eða borur. 

Nú heita allir bílar, sem eiga að trekkja, "jeppar" ef þeir eru meira en 1,55 á hæð. 

Þeir þykja þeim mun "verklegri" og "jeppalegri" sem neðsti hluti framendans er síðari og skagar lengra fram. Sem er ávísun á það að "jeppinn" lendir í mestu vandræðum á ójöfnum vegum. 

Æ fleiri "jeppar" eru ekki fáanlegir með fjórhjóladrifi og slíkum bílum moka bílaframleiðendur nú út og rokselja, því að það er jeppa"lúkkið" sem telur, ekki jeppaeiginleikarnir.

Allra nýjustu dæmin eru sport"jepparnir" eru Citroen Aircross, Renault Captur og nú síðast Opel Crossland. 

Heitið jeppi eða "jeep"  var hér á landi haft um bíla með góða torfærueiginleika, fjórhjóladrif, örugga veghæð, bæði hlaðnir og óhlaðnir, og hátt og lágt drif. 

Engu af þessu er til að dreifa í æ fleiri af "jeppunum" sem hér mokseljast, en þessir bílar falla erlendis undir skilgreininguna SUV, Sport utility vehicle, og má sem fyrstu SUV bílana nefna Dodge Caravan í Bandaríkjunum og Renault Espace í Frakklandi, sem eru fjarri því að vera jeppar þótt þakið sé hátt. 

Mikil samræming á sér stað hjá flestum bílaframleiðendum.

Hinn "nýi" Opel Mokka er nokkurn veginn sami bíllinn og Chevrolet Trax var, en hann kom á markað hér fyrir nokkrum árum. 

Mokka er þýskur Trax. 

Chevrolet Spark seldist vel hér fyrir nokkrum árum og hefur reynst vel og er með drjúga notkunarmöguleika. 

Í hitteðfyrra kom Opel Karl á markað, nokkurn veginn sami bíll en líklega enn betri, og einnig mun fallegri að mínum dómi. 

Þýskur Spark. Opel_Karl_1.0_ecoFLEX_Exklusiv_–_Heckansicht,_28._Oktober_2015,_Düsseldorf

Ekki bólar á honum enn, enda gefur sala ódýrustu bílana lítið af sér á sama tíma sem blöðin eru full af auglýsingum um "sportjeppa" sem miðað er á mun tekjuhærra fólk, að ekki sé nú talað um að opna sérstaka söluskála fyrir lúxusbílana, sem seljast svo vel, að það er skortur á þeim hjá umboðunum. 

Suzuki fór að framleiða Celerio í staðinn fyrir Alto 2014 og hefur Celerio fengið mjög góða dóma, enda rúmbetri en Alto en þó ekki þyngri. Suzuki_Celerio_1.0_Club_–_Frontansicht,_26._Juli_2015,_Düsseldorf[1]

En vinsældir næsta bíls fyrir ofan, Suzuki Swift, eru það miklar, að ekki borgar sig að flytja Celerio inn fyrir pupulinn.  

 


mbl.is Opel Mokka X frumsýndur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki er jakki frakki nema síður sé.

Þetta er bara spurning um að sita ofar, það er það sem fólk vill.  Engin kaupir "jeppa" til að keyra yfir fjöll eða upp ófærar ár eða gilskorninga.  Sitja ofar og fá betra og víðara útsýni.  Þess vegna sselst Rav4 betur en Avensis

Bjarni (IP-tala skráð) 17.3.2018 kl. 19:09

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fólk gleymir því hinsvegar að því ofar sem er setið, því meira vaggar bíllinn og steypir stömpum á misjöfnum og ójöfnum vegum eða á miklum hraða. 

Þess vegna eru framsætin svona neðarlega í Bens A, C, E og S og BMW 1, 3, 5, 7. 

Ómar Ragnarsson, 17.3.2018 kl. 23:36

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Leiðrétting: Benz með z, ekki s. 

Ómar Ragnarsson, 17.3.2018 kl. 23:38

4 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Fyrir um 30 árum, meðan ég enn sá um bílaskrif Morgunblaðsins, tók ég upp erlenda frétt á síðuna. Fréttin var um bandaríska könnun meðal eigenda fjórhjóladrifinna bíla: Hvernig notuðu þeir bílana? Hvar óku þeir o.s.frv. Niðurstöðurnar voru sérlega athyglisverðar, í ljósi þess hve jeppaeign var á þeim tímum algeng þar vestra. Innan við 5% eigenda fjórhjóladrifinna bíla (sem flestir féllu undir þína skilgreiningu á jeppa) fóru nokkurn tíma á bílum sínum út fyrir malbik!

Það er því ekki að undra að fólk sem aldrei fer út fyrir malbikið bregðist við og kaupi ódýrari bíla, þótt aðeins útlitið minni á jeppa. Og - framleiðendur bregðast líka við! Auðvitað leggja þeir áherslu á meira úrval af því sem selst vel og draga úr því um leið sem selst illa eða hægar og hægar samanber gömlu jeppana.

Heilar hásingar hafa margfalt meiri ókosti heldur en kosti, eins og þyngsli, kostnað í framleiðslu. Einfalt er að yfirvinna sig bílsins með loftpúðafjöðrun eins og t.d. LandRover gerir í bæði Range Rover og Discovery.

Svo eru það nafngiftirnar. Þú nefnir Renault Captur sem dæmi um "sportjeppa." Ég átti einn slíkan í tvö ár, skömmu eftir að þeir komu fyrst á markað. Mér leist vel á hann því hann er hár, rúmgóður, vel skipulagt innirými, hann er ódýr og eyðir nánast engu. Ég keypti hann ekki sem jeppa eða sportjeppa og ekki reyndi seljandinn, BL, heldur  að selja mér hann sem slíkan. Ég held ég hafi fyrst séð þessa nafngift notaða um þennan bíl í grein eftir einhvern bílablaðamanninn. Annars hafa svona bílar lengi verið til, þú manst eftir Hagamúsinni sem var nú einfaldlega genetískur forfaðir Captursins!

Ég ek nú Hyundai Tuscon, fjórhjóladrifnum og sjálfskiptum. Afbragðs bíll og plássgóður sem þjónar næstum öllum mínum torfæruþörfum. Það gerist nefnilega einu sinni upp í kannski fjórum sinnum á ári að ég þarf að komast yfir dýpri snjó en hann ræður við, en þá geng ég bara þessa sirka 50 metra sem eftir eru að frístundahúsinu! :) Sjálfskipting og átaksstýring og raflæsing í drifunum hefur að miklu leyti leyst af hólmi lága drifið fyrir okkur sem brunum um í slyddunni og látum þér og öðrum fjallamönnum eftir hina stærri og meiri torfærur! :)

Þessir bílar eru nefnilega á viðráðanlegu verði meðan maður er ekki að eltast við ofurlúxus sem engu bætir við aksturseiginleika eða torfærugetu.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 18.3.2018 kl. 15:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband