1.4.2018 | 14:17
Af hverju ráðgefandi en ekki gild?
Þótt aldurshópurinn 16 og 17 ára fengi kosningarétt er ekki þar með sagt að þátttakan yrði mikil í honum. Miðað við minni áhuga hjá yngstu kjósendunum í undanförnum kosningum en hjá hinum eldri, má búast við enn minni áhugi verði hjá 16 og 17 ára, enda segir í tilkynningu um málið að þetta verði ráðgefandi kosning.
Þýðir það að atkvæðin verði ekki gild og því talin sérstaklega? Þetta hljómar svipað og ef konur hefðu fengið að kjósa í ráðgefandi kosningum þegar þær fengu fyrst kosningarétt.
Áhugi og þekking á stjórnmálum er afar misjöfn hjá 16 og 17 ára unglingum, en stórum hluta þeirra er alveg eins treystandi til að kjósa í "bindandi kosningu" og þorra eldri kjósenda.
Sem nörd frá níu ára aldri hvað varðaði stjórnmál hefði ég, þegar ég lít til baka, alveg treyst mér til að taka þátt í kosningum frá og með forsetakosningunum 1952.
Varð hins vegar að bíða alveg til 1963 til þess að taka þátt í Alþingiskosningum, og hefði ráðstafað atkvæði mínu alveg eins í kosningunum 1959 ef ég hefði haft atkvæðisrétt.
Þeir unglingar, sem telja sig ekki hafa næga þekkingu, taka líklegast almennt síður þátt í kosningum en hinir. Og er það bara ekki allt í lagi?
Og hvers vegna að hafa óskaplegar áhyggjur af ráðgefandi kosningu ef hún hefur engin bein áhrif?
P.S. Eins og vænta mátti, var þessi frétt um "ráðgefandi kosningarétt" aprílgabb, en fyrirsögnin á þessum pistli afhjúpar það reyndar óbeint auk fleiri orða síðar, - og auk þess er það er bara allt í lagi að spjalla um kosningarétt 16. og 17. ára fólks.
Til upplýsingar fyrir tvo menn, sem gerðu athugasemdir. Ég var að fá tilkynningu um eitthvað tilfallandi í "server" og sá að þessi pistill hafði óvart farið tvisvar inn með sex mínútna millibili, kl. 14:11 og 14:17. Ég eyddi því eldri pistlinum, en við hvorugan pistil stóð, að athugasemdir hefðu verið gerðar. Pistillinn fór samt ekki út strax og við næsta innlit mitt sá ég, að komið hefðu tvær athugasemdir við hann. Ég hefði frekar átt að fela hann en eyða honum, því að nú gat ég ekki tekið neitt til baka og fengið athugasemdirnar fram. Fróðlegt væri að sjá þær og ég biðst afsökunar á þessu klúðri.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.