Einn af örlagavöldunum í lífi mínu.

Guðrún Stephensen leikkona skilur eftir sig dýrmætar minningar hjá mörgum.

Hún vann við kennslu í Laugarnesskólanum þegar ég var þar nemandi frá sjö til tólf ára aldurs, og enda þótt hún kenndi mér ekki varð hún sá kennari í skólanum, sem hafði mest áhrif á lífshlaup mitt. 

 Án þess að ég væri meðvitaður um það þegar ég var tólf ára, beindi hún mér inn á braut í lífinu sem ég átti eftir að feta. 

Þetta gerði hún með því að benda föður sínum, Þorsteini Ö. Stephenssen og þeim Gunnari Hansen leikstjóra og Einari Pállsyni leikara á að fela mér hlutverk götudrengsins Gavroche í leikritinu Vesalingarnir, sem Gunnar skrifaði eftir hinu heimsþekkta stórvirki Victors Hugo.

Þorsteinn lék aðalhlutverk sýningarinnar, Jean Valjean. 

Gunnar hafði ætlað götudrengnum tiltölulega stóran hlut í sýningunni, og hann og Einar útskýrðu það fyrir mér að það stefndi í að fjölmennasti hópur "vesalinga" í heiminum yrðu götubörnin í ört vaxandi stórborgum fátæku ríkjanna. 

Götudrengurinn átti að halda mikilvæga þrumuræðu í upphafi seinni hlutans eftir hlé og vera talsmaður "vesalinganna." 

Ég hafði tekið þátt í tveimur leikritum í skólanum, sem Guðrún sá, og byggði tillögu sína til Gunnars og Einars á. 

Í undirbúningnumm fyrir hina miklu sýningu, sem tók meira en þrjár klukkustundir, lögðu þeir Gunnar og Einar alúð við að fræða mig og undirbúa sem best fyrir hlutverkið og túlkun boðskapar skáldins, og var það ómetanlegt veganesti út í lífið, þótt ég áttaði mig ekki á því til fulls fyrr en löngu seinna, að fá svo ungur jafn góðan grunn til að byggja á síðar.

Guðrúnu kynntist ég betur síðar í þeim leikritum, sem ég tók þátt í í Iðnó og hún var í einu orði sagt yndisleg manneskja og öðlaðist sérstakan sess í hjarta mér.

Því kveð ég hana með þökk og söknuði og votta hennar nánustu dýpstu samúð. 

 


mbl.is Andlát: Guðrún Þ. Stephensen leikkona
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband