28.4.2018 | 01:08
Það var mikið! 45-1.
Um áratuga skeið hefur ríkt einstaklega þvermóðskuleg tregða gegn því hér á landi að láta meta efnahagslegt gildi þjóðgarða og verndaðra svæða. Slíkt var flokkað undir hið fyrirlitlega "eitthvað annað."
Aðeins stóriðja og virkjanir voru taldar geta "bjargað Íslandi."
Allar hugmyndir um að meta efnahagslegt gildi ósnortinnar náttúru voru barðar niður með harðri hendi þegar farið var í Kárahnjúkavirkjun, heldur þvert á móti, var gildi svæðisins sem umturnað var og að stórum hlutum sökkt í drullu, metið á núll krónur.
Skipti engu þótt bent væri á dæmi erlendis um notkun svonefnds skilyrts verðmætamats og að bæði kæmi hingað til lands erlendur sérfræðingur á því sviði, Staale Navrud og farið væri til Sauðafjarðarar (Sauda) í Noregi til að skoða slíkt svæði
Þetta núll krónu mat var talið rétt þótt íbúðarhúsnæði í háhýsum við Skúlagötu væri metið á hundruð milljóna króna aukalega vegna útsýnisins úr þeim.
Í fyrirlestrum sex erlendra fyrirlesara á ráðstefnu um verndarsvæði og þróun byggða í Veröld, húsi Vigdísar í dag, kom glögg fram hve langt á undan okkur Íslendingum aðrar þjóðir hafa verið í að meta gildi verndarnýtingar.
Rammaáætlanir komu ekki til álita hér á landi fyrr mörgum árum eftir að Hjörleifur Guttormsson hafði lagt til að slíkt yrði gert hér og ekki fyrr en í þáttunum "Út vil ek" í Sjónvarpinu hafði verið greint frá þeim.
En í upplegginu í rammaáætlun er viljandi gert ráð fyrir því að efnahagsgildi þjóðgarða og friðaðrar svæða sé ekkert því að sá flokkur virkjanakosta er nefndur verndarflokkur, en flokkur virkjana kallaður nýtingarflokkur.
Nú á loks að fara að gera eitthvað frekar í þessu máli hér, en hugsanlega of seint til þess að afstýra eyðileggingu hinna ósnortnu víðerna suður af Drangajökli, sem hefðu getað orðið að hjarta þjóðgarðs þar, því að brotaviljinn í "hernaðinum gegn landinu" er afar einbeittur.
Í því felst að ekki sé hægt að nýta verndarsvæði, heldur bara virkjanasvæði.
Á ráðstefnunni í dag var rakin tímamótarannsókn á efnahagslegu gildi Snæfellsnesþjóðgarðs, þar sem í ljós kemur að 3,8 milljarðar króna streyma inn í svæðið og að 1,9 milljarðar verða þar eftir, og - sem er aðalatriðið, sem fólk skilur, að efnahagslegt gildið vegna verndunar er ígildi 700 heilsársstarfa.
Eða það að afrakstur af fjárfestingunni í þjóðgarðinum sé 45-58 sinnum meiri en það sem lagt var í fjárfestinguna.
Á sama tíma er því haldið fram í Árneshreppi, þar sem á að eyðileggja alla möguleika til stofnunar þjóðgarðs með Hvalárvirkjun, að friðun og verndun hálendisins suður af Drangajökli myndi ekkert gefa af sér.
Í staðinn er stefnt að virkjun, sem mun örugglega skapa ekki svo mikið sem eitt einasta starf eftir að virkjanaframkvæmdum lýkur.
Nú á loks að fara að gera eitthvað í því að bæta fyrir áratuga þvermóðsku á þessu sviði, en með einbeittum brotavilja í "hernaðinum gegn landinu" á vestfirska hálendinu má búast við að ekkert verði gefið eftir þar.
Meta efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
þó ég vilji ekki virkjun i árneshreppi nema hún nýtist á svæðinu. skal benda á ýmislegt þó ekki verða til bein störf koma tekjur í sveitarsjóð, viðhaldsvinna og eftirlit með virkjunum og vegum ef kemur ljósleiðari með virkjun skapast möguleiki á tölvuteingri starfsemi. ásahreppur og grafníngshreppur hin forni hafa lifað ágætlega á sínum virkjunum. ómar verður bara að afsaka það að ég sé ekki gildi þjóðgarða menn geta gert alt það sama án þjóðgarðsnafnið flækist fyrir. bara men meira skrifræði er nóg af skrifræði í þjóðfélæginu í dag .?.
kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 29.4.2018 kl. 06:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.