29.4.2018 | 13:45
Eins og að stökkva vatni á gæs.
Eftir tvö ár eru 50 ár síðan Halldór Laxness skrifaði tímamótagrein sína: "Hernaðurinn gegn landinu", en á sama ári og greinin var skrifuð, sprengdi andófsfólk gegn hrikalegum virkjanafyrirætlunum í Þingeyjarsýslu stíflu í Miðkvísl í Laxá.
Eftir eitt ár eru liðin 70 ár síðan Sigurður Þórarinsson skrifaði fyrstu blaðagreinina með varnaðarorðum vegna illrar umgengni Íslendinga við náttúru landsins.
En hver er staðan eftir öll þessi ár, "hvert er þá orðið okkar starf...?" eins og listaskáldið góða spurði fyrir næstum tveimur öldum?
Þessir áratugir hafa verið áratugir fyrirbæris, sem jafna má við trúarbrögð og mætti kalla áltrú, trú á það, að það eina sem geti "bjargað" Íslandi sé að fórna öllum virkjanlegum náttúruverðmætum Íslands fyrir stóriðju.
Ef ekki ál, þá jafnvel verksmiðjur sem endurvekja kolabrennslu á Íslandi.
Í tengdri frétt á mbl.is er fjallað um ráðstefnu, sem leiðir í ljós margfalt meiri efnahagslegan ábata af verndun einstæðra náttúruverðmæta heldur en af virkjunum og stóriðju.
En öll notkun hugtaka og heita í umræðunni er miðuð við hina úreltu hugsun um að engin verðmæti séu til, nema þau séu metin í tonnum og megavöttum.
Í rammaáætlun er virkjanakostum til dæmis skipt í þrjá flokka, verndarflokk, nýtingarflokk og biðflokk.
Heitin eru gildishlaðin þannig að strax í þessari skiptingu er gert ráð fyrir að nýting náttúruverðmæta sé óhugsandi, nema virkjanir felist í henni.
Þær vatnsaflsvirkjanir, sem mestum óafturkræfum umhverfisspjöllum valda, eru fæstar nefndar eftir þeim ám eða fossum, sem gefa þeim afl, heldur einhverju allt öðru.
Virkjun þriggja stórfossa efst í Þjórsá er ekki nefnd Þjórsárfossavirkjun heldur Kjalölduveita. Það áður Norðlingaölduveita.
Virkjun Köldukvíslar er kölluð Skrokkölduvirkjun.
Virkjun Skaftár er kölluð Búlandsvirkjun.
Virkjun Aldeyjarfoss og Hrafnabjargarfoss var nefnd Hrafnabjargavirkjun.
Virkjanir í Þjórsá í byggð draga hvorki nafn af ánni né Búðafossi, sem virkjaður verður.
2015 stillti þáverandi forsætisráðherra sér upp í miðjum hópi þeirra sem ætla að reisa álver suður af Skagaströnd. Helstu valda- og fjármálamenn í héraðinu eru þegar búnir að tryggja sér eignarrétt á þeim jörðum sem stórvirkjanir landshlutans eiga greinilega að rísa í, þótt það sé búið að setja þær í verndarflokk.
Einróma yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands 2013 um að risaálver skuli rísa í Helguvík hefur aldrei verið dregin til baka.
Skyndilega hellast yfir landsmenn áætlanir um 55 virkjanir með alls um 500 megavatta afli, á við tvær Búrfellsvirkjanir, sem eru hver um sig 9,9 megavött og þurfa því ekki að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum, af því að lögin um þau miðast svið afl virkjananna og hverflanna, - ekki við umhverfið.
Fyrir nokkrum dögum var viðruð áætlun um 100 virkjanir, bara á Tröllaskagasvæðinu.
Í rammaáætlun eru meira en 80 virkjanir á borðinu, þannig að það er verið að tala um á þriðja hundrað virkjanir auk risavaxinna vindorkugarða.
Búið er að ákveða að sögn forstjóra Landsvirkjunar, að tvöfalda orkuframleiðsluna upp í það að framleiða tíu sinnum meiri raforku en Íslendingar þurfi sjálfir fyrir eigin fyrirtæki og heimili og einnig búið að aögn forstjórans að ákveða að leggja raforkusæstreng til Skotlands.
Nú er fyrir Alþingi Evróputilskipun sem ásamt sæstreng gæti leitt til þess að fara með allt vald yfir orkuauðlindum Íslands úr okkar höndum.
Á sama tíma og þessi stefna er að bólgna út, fylgir með að njörva landið þvers og kruss niður í risaháspennulínur.
Og réttlætt með því að það vanti afhendingaröryggi og raforku fyrir íslensk heimili og fyrirtæki.
Á bak við þetta allt standa tiltölulega fámenn peninga- og valdaöfl, sem eiga mestallar eignir og auðlindir landsmanna og leggja því áherslu á að koma í veg fyrir nýja stjórnarskrá þar sem tekið er á auðlindum, náttúru og lýðræðismálum.
Andspænis þessu ofurefli standa fjárvana félög náttúruverndarfólks, sem nú á hreinlega að kaffæra í á þriðja hundrað virkjanahugmyndum.
Ofan á allt þetta bætist við svo samfelld síbylja úr munni hundraða ráðamenna þjóðarinnar um "hreina og endurnýjanlega orku," að allar tilraunir til að andmæla þessari stærstu lygi okkar samtíma eru eins og að stökkva vatni á gæs.
Akkur í lifandi landslagi verndarsvæða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þessir áratugir hafa einnig verið áratugir fyrirbæris, sem jafna má við trúarbrögð og mætti kalla "eitthvað annað trú", trú á það, að það eina sem rétt væri að gera sé að fórna öllum mótuðum hugmyndum um atvinnuuppbyggingu og örugga tekjuöflun fyrir "eitthvað annað" sem vonandi skýrist seinna.
Samsæriskenningar eru svo til taks til að útskýra lítinn áhuga þeirra sem málin snerta og slakan árangur hjá "eitthvað annað" trúar fólkinu frekar en að flestir sjái gegnum málflutning sem byggir á bulli, blekkingum og þvælu.
Hábeinn (IP-tala skráð) 29.4.2018 kl. 15:45
"...byggir á bulli, blekkingum og þvælu." Er ekki Hábeinn/Hilmar kominn eina ferðinga enn með það eina sem hann hefur alltaf til málanna að leggja.
Ómar Ragnarsson, 29.4.2018 kl. 17:40
Ætlum við eki frekar að lifa á og af þessu landi heldur en bara að glápa á það?
Ekki étum við útsýnið?
Halldór Jónsson, 29.4.2018 kl. 19:44
Og Steini/Ómar svarar með sömu rökum og venjulega þegar fullyrðingum hans og nýstárlegum söguskýringum er ógnað.
Hábeinn (IP-tala skráð) 29.4.2018 kl. 19:47
Nei, hvað segirðu? Segðu mér hvar Steini er að svara þessu. Ekki sé ég það.
Ómar Ragnarsson, 29.4.2018 kl. 21:50
Á sama stað og Hilmar, gáfnaljós.
Hábeinn (IP-tala skráð) 29.4.2018 kl. 23:30
Felumaðurinn Hilmar skrifaði stanslaust árum saman: "Lygi og rangfærslur" og fleiri rök þurfti hann ekki.
Felumaðurinn Hábeinn skrifar "bull, blekkingar og þvæla" sem er annað orðalag yfir "rök" Hilmars.
Steini Briem heitir Þorsteinn Briem og er með kennitölu, og þess vegna erum við sitt hvor maðurinn.
En hvorki Hilmar né Hábeinn, kannski Hábeinn/Hilmar, vilja gefa upp kennitölu sína heldur nota launsátur sitt.
Ómar Ragnarsson, 30.4.2018 kl. 01:48
Minn kæri Halldór. 500 milljarðar í gjaldeyri koma árlega inn í þjóðarbúi í formi þess sem erlendir ferðamenn borga fyrir "útsýnið" yfir þá einstæðu íslensku náttúru, sem yfir 80 prósent þeirra segjast vera komnir til að sjá.
Það er hægt að éta heilmikið fyrir 500 milljarða.
Ómar Ragnarsson, 30.4.2018 kl. 01:51
Þó ég sjá bull, blekkingar og þvælu hjá þér þá er ég ekki allir þeir sem það gera. Mér nægir að vera ég. En meðan þú kýst að kalla mig einhverjum öðrum nöfnum en mínu höfundarnafni áskil ég mér rétt til að gera slíkt hið sama við þig. Hvað veit ég, og það kæmi mér ekki á óvart, nema þú hafir verið að misnota nafn og kennitölu sjúks einstaklings á þínum síðum.
Hábeinn (IP-tala skráð) 30.4.2018 kl. 02:28
Sæll Ómar.
Ætla rétt að vona að þú sért ekki farinn að skrifa í nafni dauðra
eða hafir slíka í vinnu hjá þér!
Ekkert er nýtt undir sólinni og með leyfi að segja þá er aðferðin
velþekkt(!)
Lyftum umræðunni upp á hærra plan þennan síðasta daga aprílmánaðar!
Bakarameistarar um land allt! Sameinumst um að gera 23. apríl
að sérstökum hátíðisdegi í tilefni afmælis Dóra litla í Laxnesi!
Hann lýsti því yfir á sínum tíma að best af öllu væru heitar pönnukökur með strásykri!
Það ætti að vera þegnskylda í anda Jónasar frá Hriflu að fylla öll vit af slíkum bakstri á þessum degi! Allar varíasjónir í pönnukökum og flæðandi og rennifljótandi sykri og rjóma.
Öll bakarí ættu að selja pönnukökur á þessum degi rétt eins og bollur á bolludaginn.
Til fjandans með sökkið, - en ærlegan sukkdag 23. apríl 2019!
Húsari. (IP-tala skráð) 30.4.2018 kl. 06:11
<Bakarameistarar! Munum sukkdaginn 23. 4. 2019!>
Húsari. (IP-tala skráð) 30.4.2018 kl. 08:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.