Hvaða mun sér Trump á Íran og Norður-Kóreu?

Ef einhver hefði spáð því um síðustu áramót að Kim Jong-un og Donald Trump gætu hugsað sér að fallast í faðma innan hálfs árs á sama tíma og Trump træði illsakir við Írana og þjóðir í Evrópu, hefði sá hinn sami verið talinn annað hvort algerlega galinn eða með full stórkarlalega kímnigáfu. 

Á þessum tíma hótuðu Kim og Trump hvor öðrum kjarnorkustríði og það var í fyrsta sinn í sögu Bandaríkjanna að bandarískur forseti hótaði slíkri beitingu í Asíu. 

Harry S. Truman rak meira að segja úr starfi yfirhershöfðingja Douglas McArthur hershöfðingja og stríðshetju Kana í styrjöldinni við Kyrrahaf fyrir að orða möguleikann á beitingu kjarnorkuvopna.  

En nú hafa heldur betur orðið sviptingar í stefnu Trumps og það leiðir hugann að því hverja hann velji sér helst að vinum og óvinum. 

Einn grundvallarmunur liggur fyrst í augum uppi.

Íranir hafa verið einhverjir helstu óvinir Bandaríkjamanna allt frá því er keisaranum Resa Palevi var steypt af stóli af öfga múslimaklerkum og í ljós komu einhver stærstu mistök bandarísku leyniþjónustunnar í sögu hennar. 

Hún hafði metið stöðu keisarans hrapallega rangt og þar með stöðu Bandaríkjamanna í Miðausturlöndum. 

Tímaritið Time var nýbúið að birta mikla lofgerðargrein um rísandi stórveldi, þóknanlegt Bandaríkjamönnum, á svæðinu. 

Í staðinn var komið heittrúar klerkaveldi með múg sem hertók bandaríska sendiráðið í Teheran og tók sendiráðfsólkið í langa gíslingu. 

Afleiðingarnar urðu versta olíukreppa sögunnar, nokkuð sem var ófyrirgefanlegt gagnvart gangverki bandarísks lífsstíls og bandaríska draumsins. 

Á næsta ári verður komin 40 ára löng hefð á fjandskapinn milli Írans og Bandaríkjanna. 

Þegar Íran er annars vegar verða allir þeir, sem á einhvern hátt hafa ástæðu til að fjandskapast við Írani, vinir Bandaríkjanna. 

Kanar studdu meira að segja harðstjórann Saddam Hussein í stríði Íraka og Írana og nú um stundir fer Trump létt með að vingast við einræðisöflin í Sádi-Arabíu með sín mannréttindabrot og verstu hernaðarafskipti heims í Jemen. 

Og ekki þarf að spyrja að vináttu Trumps við Ísraelsmenn og djúpa andúð hans á múslimum.

Fyrst Trump getur talið Sádana til sinna helstu vina og bandamanna, eingöngu vegna þröngra hernaðar- og efnahags/olíu/hagsmuna, er í raun ekkert sem getur komið í veg fyrir að versta kúgun veraldar í Norður-Kóreu verði látin afskiptalaus af hálfu forysturíkis vestræns lýðræðis og mannréttinda, svo framarlega sem Norður-Kóreumenn halda sig á mottunni út á við. 

Norður-Kóreumenn hafa nefnilega passað sig á því að reka hvergi neinn undirrróður fyrir kommúnismann utan heimalandsins. 

Það er andstæðan við Írani, sem hafa leynt og ljóst stutt hryðjuverkastarfsemi, undirróður og skærustarfsemi í öðrum löndum í bráðum fjóra áratugi samfellt. 

Suður-Kórea og Japan eru dyggar bandalagsþjóðir Bandaríkjamanna og mjög mikilvægar í öllu tilliti fyrir bandaríska hagsmuni, bæði á hernaðarsviðinu og efnahagssviðinu. 

Þessum vinaþjóðum Kana er mikið í mun að tryggja frið í sínum heimshluta og það er lítið mál fyrir Kana að kyngja kúgun aðeins 25 milljóna manna af þeim 2200 milljónum sem búa samtals í Suður-Kóreu, Japan, Kína og Filippseyjum. 

Kim Jong-un hefur nefnilega allan tímann farið fram á aðeins eitt: Að fá tryggingu fyrir því að hann fái að halda völdum yfir því 1,1 prósenti fólks, sem býr í Austur-Asíu. 

 


mbl.is Leiðtogafundur Kim og Trump 12. júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband