13.6.2018 | 00:02
Hagkvæmari samsetning bílaflotans aldrei nefnd.
Það þarf ekki fimm metra langan 2000 kílóa klump úr stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti. En það er eins að okkur Íslendingum sé fyrirmunað að skilja þetta hvað umferðina varðar.
Að meðaltali er aðeins 1,1 maður um borð í hverjum bíl í umferðinni í borginni.
Þegar ég hjólaði á rafreiðhjóli frá Akureyri til Reykjavíkur reyndi ég að kasta tölu á það hve margir væru um borð í bílunum sem ég mætti.
Í miklum meirihluta bílanna, ca 75 prósent, var aðeins einn maður á ferð.
100 þúsund bílar sem aka um Ártúnsbrekkuna á dag þekja yfir daginn um 450 kílómetra af malbiki samanlagt. Ef þeir væru aðeins metra styttri að meðaltali myndu 100 kílómetrar af malbiki verða auðir í stað þess að vera þaktir bílum.
Þetta hafa Japanir vitað í hálfa öld, ívilna þess vegna bílum sem eru styttri en 3,40 metrar og þetta svínvirkar.
Með því að taka upp kerfi þar sem fólk fær frádrátt á opinberum gjöldum á bíl, ef ekið er lítið árlega, gæti meðalfjölskyldan átt einn meðalstóran bíl fyrir lengri ferðir og not sem krefjast rýmis, en jafnframt tvo litla bíla fyrir snattið.
Í Noregi hefur reynslan verið sú að rafbíllinn er bíll númer eitt til nota innanbæjar, en bíll knúinn jarðefnaeldsneyti bíll númer tvö til lengri ferða.
Í stórum hluta bílastæða í Reykjavík myndi nýting batna verulega ef bílarnir væru ekki svona stórir.
Á efstu myndinni stendur tveggja manna Tazzari rafbíllinn inni í stæði sem er ætlaður einum 5,5 metra bíl.
Í myndinni þar fyrir neðan tekst að leggja Tazzari bílnum inn í stæði þar sem venjulegur bíll myndi skaga aftur í innkeyrsluna fyrir bílskúrinn og hamla umferð þar.
Á neðstu myndinni leggja þrír bílstjórar meðalstórra bíla 4,2 - 4,6 m) bílum sínum þannig, að stórt bil á milli þeirra kemur í veg fyrir að hægt sé að leggja þar jafnstórum bílum.
En bíll af lengd Tazzari (2,88) eða Toyota iQ sem er 2,99 en tekur samt fjóra í sæti og er með 5 stjörnur í öryggisprófun, komast léttilega inn í bæði stæðin.
Með því að tala aðeins um að "fækka bílferðum" er einungis horft á aðra hliðina á hinu raunverulega vandamáli: Hvað bílarnir taka mikið pláss. En það er hið raunverulega viðfangsefni.
Vilja draga úr fjölda bílferða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.