24.7.2018 | 12:27
Aðgerðir gegn umhverfisverndarfólki gætu mótast af skilgreiningum.
Aðgerðir gegn hópum andófsfólks fara oft eftir skilgreiningum og notkun hugtaka og orða.
Erlendis hefur myndast flokkun á slíku fólki, sem virðist ekki vera eins hér á landi.
Hér á landi virðist nefndilega vera að myndast íhugunarverð skilgreining á andófsfólki, sem er á skjön við alþjóðlega skilgreiningu að þær gætu smám saman valdið því að hér yrðu viðbrögð við andófi talin réttlætanleg, sem ekki kæmu til greina í öðrum löndum.
Nýlega var gerð "úttekt" í íslensku blaði þar sem heilli síðu var eytt í að nefna "náttúruhryðjuverk", sem framin hefðu verið á Íslandi.
Meðal þessara "náttúruhryðjuverka" var það athæfi 25 manna hóps, að sitja kyrr og hreyfingarlaus í Gálgahrauni þar sem stærsta skriðbeltatæki landsins var stefnt að þessu hreyfingarlausa fólki auk 60 manna sérsútbúins lögregluliðs með gasbrúsa, handjárn og kylfur.
Lítum nánar á orð og hugtök um þetta efni.
Á útlendu máli er andóf flokkað í nokkra flokka.
Andófsfólk án aðgerða nefnist "dissidents."
Aðgerðarsinnar á borð við Rósu Park, Martin Luther King og Mahatma Gandhi eru nefndir "activists." King var 35 sinnum handtekinn og settur í fangelsi, en flokkaðist sem activist.
Skemmdarverk eru nefnd sabotage.
Síðan kemur hugtakið hryðjuverk og hryðjuverkamaður, og er heitið "terrorists" notað yfir það.
Þeir, sem flokkast sem hryðjuverkamenn fá þann stimpil vegna þess að þeir valdi "terror", þ. e. djúpstæðum ótta hjá almenningi, oftast með morðum á saklausu fólki.
Samkvæmt fyrrnefndri íslenskri blaðaúttekt var það athæfi fólks að ganga niður Laugaveginn 26. september 2006 í fjölmennustu mótmælagöngu hér á landi, þar sem fyrrverandi forseti landsins var meðal hinna fremstu, flokkað sem "náttúruhryðjuverk" og rúmlega tíu þúsund einstaklingar stimplaðir sem "hryðjuverkamenn", terroristar.
Gildir þá engu, þótt fullt leyfi lögregluyfirvalda hafi fengist fyrir þessum friðsömu mótmælum, - nei, "náttúruhryðjuverk" skal það heita.
Engin athugasemd var gerð á sínum tíma við þessa íslensku flokkun andófs, sem er algerlegal á skjön við alþjóðlegar skilgreiningar.
Ef gangan niður Laugaveginn er flokkuð sem hryðjuverk yrði engin furða þótt sú skoðun gæti komið fram að það sé góð aðferð á "umhverfisfíflin" að salla þau niður með vopnavaldi.
Og að stærsta sprenging Íslandssögunnar í stærsta gljúfri landsins verði til dæmis flokkað sem góðverk, en andóf við hana hins vegar sem "náttúruhryðjuverk."
Yfir 200 umhverfisverndarsinnar drepnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er þetta ekki bara í stíl við annað sem er að gerast á skerinu. Umhverfisverndarfólk eru hryðjuverkamenn. Rasistar og mannhatarar hinsvegar þjóðarhöðingjar sem eru heiðraðir með orðum og Panama-piltar og innherjaþjófar gerðir að fjármála-, ef ekki forsætisráðherrum.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 24.7.2018 kl. 13:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.