5.8.2018 | 09:40
Einstök tryggð við gamla landið. K.N. lifir.
Þegar sagt er að á Íslendingahátíðinni í bænum Mountain í Norður-Dakota séu fleiri Íslendingar en íbúar er það að vissu leyti ekki rétt; slík er sú einstaka tryggð sem íbúarnir halda við gamla landið, sem langafi, langamma og langalangafi og langalangamma komu frá.
Ég átti þess kost að fylgjast með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta þegar hann var þar sérstakur gestur 1999 og gera um það sjónvarpsþátt.
Í tengslum við það var vígður sérstakur minnisvarði um skáldið K.N. sem þar lifði og samdi sín óborganlegu ljóð og vísur; stundum með skemmtilegri blöndu af íslensku og ensku, samanber þegar hann rímaði saman hendingarnar
"Skammastu þín, svei þér!"
- og -
"Go to hell and stay there!"
Nafn bæjarins, "Mountain" er drepfyndið, því að í Norður-Dakota er hægt að aka dögum saman á flatlendi.
En rétt við bæinn er ein brekka á þjóðveginum, álíka að stærð og Ártúnsbrekkan, og af þeirri lágu hæð sem brekkan liggur upp á, er heitið Mountain dregið!
Fleiri Íslendingar en íbúar í Mountain | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nafnið Mountain minnir á "fjallið" í Danmörku sem er á hæð við Öskjuhlíð, og heitir að sjálfsögðu "Himmelbjerget". Af toppnum er sagt gott útsýni ef maður hefur með sér stól til að standa á.
Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 5.8.2018 kl. 19:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.