16.8.2018 | 00:25
Hraðasta sigurför einnar gerðar í sögu bílaframleiðslunnar.
Árin 1955-1970 voru einstæð uppgangsár í bandarískri bílaframleiðslu. Alger sprenging varð í sölu nýrra bíla 1955 og hart hestaflakapphlaup hófst með tilkomu nýrra V-8 véla, þar sem aflið fór úr 110 hjá Ford 1953 upp í 162 árið 1955 og síðan áfram og áfram í yfir 400 hestöfl áratug síðar.
Ed Cole átti ásamt samverkamönnum sínum hins vegar heiðurinn af smíði 265 kúbika "small-block V-8 vélar fyrir Chevrolet, sem er á flestum listum yfir bestu bílvélar allra tíma.
1959 kom Cole aftur fram með byltingarkennda vél og bíl, 6 strokka loftkældri "boxer" vél að aftan í "smábíl" á bandarískan mælikvarða, Chevrolet Corvair.
Bíllinn varð of djarft tiltæki, og venjulegri bíll af þessari stærð hjá Ford, Falcon, seldist mun betur. Hann og Plymouth Valiant hjá Chrysler gátu laghentir menn haldið við í bílskúrum heima hjá sér, en það þurfti að læra nánast allt upp á nýtt varðandi Corvair.
Til að bregðast við þessu var farið að framleiða tveggja dyra sport-gerðir af Corvair, Monza, með afturhallandi þaki og þröngu og lágu aftursæti, svo að bíllinn taldist "2 plús 2 bíll." Hvíti bíllinn á myndinni hér að ofan er af þeirri gerð.
Þessar sportgerðir seldnust fljótt betur en venjulegu fernra dyra gerðirnar sem féllu í sölu, og Monza gerðirnar með fjögurra gíra handskiptingum í gólfi hömluðu gegn því að Corvair yrði algert klúður.
Ef stjórnendur GM hefðu kunnað að lesa út úr þessu, hefðu þeir verið með pálmann í höndunum.
En þeir áttuðu sig ekki á því að það var að myndast hratt stækkandi markhópur, sem vildi frekar snaggaralega bíla með sportlegum eiginleikum en gömlu þunglamalegu drekana.
Lee Iacocca hét maðurinn hjá Ford, sem áttaði sig á því að það að þarna ætti Ford leik á borði.
Með vandaðri markaðskönnun fann hann út örugga leið til að láta hanna bíl, sem væri jafn einfaldur og léttbyggður og Falcon og raunar byggur á Falcon-grunni, en væri lágur, með löngum framenda, lágmarks aftursæti og stuttum afturenda, svo að minnti á sportbíla.
Bíllinn var settur á markað í mars og á innan við ári seldust meira en 700 þúsund; hraðamet í sölu nýrrar bílgerðar, sem ekki hefur enn verið slegið.
Hægt var að fá bílinn sáraeinfaldan með sparneytinni 85 hestafla (SAE netto) sex strokka vél, en hlaða hann að metfjölda af aukahlutum og V-8 vélum, allt upp í meira en 300 hestöfl, sem gerði hann að hreinu villidýri í bílsmynd.
Ótrúlegasta fólk, allt frá rosknum konum, unglingsstelpum upp í jaka, töffara og háttsettra öldunga, keypti bílinn; bílstjórar gleymdu sér við að sjá hann í sýningargluggum og óku á ljósastaura og bandarísku þjóðina greip algert Mustang-æði.
Til varð nýtt hugtak: "Pony-cars."
Árið eftir kom léttur jeppi með svipað kram á markað, Bronco, og Bronco-æði greip Íslendinga.
Keppinautarnir svöruðu með eftirlíkingum eins og Chevrolet Camaro, AMC Javelin, Plymouthe Barracuda og Dodge Charger, en Mustanginn varð strax kominn fram með þróaða gerð, Shelby, og brunaði áfram fremstur í kapphlaupi um fleiri hestöfl ásamt aukinni þyngd og stærð fram yfir 1970.
Með þessari þróun Mustangs varð hann bæði þunglamalegri og ekki eins sportlegur og áður og síðan dundu yfir bæði olíukreppa og mengunarkreppa, sem drógu allan mátt úr stóru vélunum í bandarískum bílum.
Niðurstaðan varð mun smærri Mustang, Mustang II, sem var í flestra augum ekki alvöru Mustang.
Síðan tóku við áratugir með misjöfnu gengi, og alls hafa 6 kynslóðir Mustang litið dagsins ljós.
Af þeim finnst mér 4. kynslóðin hafa nálgast best upprunalegt útlit Mustang, en nýjasta gerðin er þó líklega best ef menn eru ekki of fastheldnir á útlitið.
Nú hafa selst 10 milljón bílar undir þessu heiti.
Þeir eru þó af það mörgum kynslóðum, að ekki er hægt að tala um eina bílgerð líkt og Volkswagen Bjöllu, Ford T eða Renault 4.
10 milljón Mustangar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Af einhverjum ásyæðum sný ég mér við þegar ég mæti vissum bílum. Þeir eru yfirleitt Camaro. Hann hefur einhverjar línur við sig em ég fíla.
Halldór Jónsson, 16.8.2018 kl. 20:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.