Flugfélag Íslands og Loftleiðir voru mjög ólík flugfélög.

Þegar flugfélögin Loftleiðir og Flugfélag Íslands voru sameinuð í félaginu Icelandair voru félögin afar ólík. 

Flugfélagið var með einokun í áætlunarflugi innanlands en Loftleiðir stunduðu eingöngu millilandaflug. 

Flugfélagið var í IATA, alþjóðlegum samtökum flugfélaga, en Loftleiðir stóð fyrir utan samtökin og byggði tilveru sína á því. 

F.Í. varð að hlíta fargjöldum alþjóðasamtakanna, en Loftleiðir gátu róið á önnur mið, komið sér upp ódýrum flugflota, sem var í fyrstu fólginn í hægfara DC-6 bulluhreyflavélum, sem þurftu að millilenda í Gander á leið yfir Atlantshaf, en Flugfélag Íslands tók Viscount skrúfuþotur í notkun 1957 og Boeing 727 þotur 1967. 

Á þeim tíma höfðu Loftleiðir skipt yfir í skrúfuþotur af Canadair 44 gerð, sem voru að vísu hraðfleygari og langfleygari en sexurnar gömlu, en hins vegar ekki eins hraðfleygar og þotur. 

En flugflotinn réð úrslitum um það að Loftleiðir gátu rutt braut sem lággjaldaflugfélag og risið gegn IATA. 

Mikilvægi Íslands í hernaðarlegu tilliti hjálpaði til við það að Loftleiðir gátu notað loftferðasamninga við Bandaríkin, sem voru grundvöllur þessa merka flugs. 

Með sameiningu flugfélaganna tókst að koma í veg fyrir ófarir þeirra á erfiðum tímum rekstrarlega, þegar olíukreppur dundu á 1973 og 1979 og það var sennilega ákveðinn kostur fólginn í því hve ólík félögin voru. 

Að þessu leyti gæti sameining Icelandair og Wow hugsanlega gengið upp, en spurningin er bara hvort tapi á rekstri slíks sameinaðs félags yrði afstýrt. 

Íslensk stjórnvöld pressuðu á sameiningu Flugfélagsins og Loftleiða vegna ríkra íslenskra almannahagsmuna, hagsmuna þjóðar, þar sem lega landsins em eyland langt frá öðrum löndum, gerðu millilandaflug að skilyrði sjálfstæðis þjóðarinnar. 

Slíkt er ekki fyrir hendi nú, og því verður að telja ólíklegt að til sameiningar verði gripið. 


mbl.is Sameinast flugfélögin fyrr en síðar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband