"Fjallagrösin" tuga milljarða virði?

Þegar deilt var um stefnu Íslendinga í auðlinda- og atvinnumálum um og eftir síðustu aldamót, töluðu eindregnir stuðningsmenn stóriðjunnar sem einu lausnarinnar til að "bjarga Íslandi" með djúpri fyrirlitningu um "eitthvað annað",  sem algerlega fráleit úrræði.

Hugmyndum um ferðaþjónustu eða skapandi greinar var líkt við fánýta fjallagrasatínslu.

Nú er verið að tala um marga tuga milljarða verðmæti, nánar tiltekið 45 milljarða í leikjafyrirtækinu CCP sem hefur byggst upp á íslensku hugviti. 

Margföldun ferðaþjónustunnar hefur skapað mestu efnahagsuppsveiflu og atvinnusköpun í sögu landsins.

En ennþá lifa þó góðu lífi ásakanir um að þeir, sem hafi bent á "eitthvað annað" hafi "um langan aldur barist með öllum tiltækum ráðum gegn mannlífi og framförum."

    


mbl.is Hagnast um milljarða á sölu CCP
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Það er allavega flestum augljóst að stóriðjan og atvinnan og tekjurnar sem hún skapaði og skapar kom ekki í veg fyrir þetta óljósa "eitthvað annað". Og að það hefði verið einstaklega heimskulegt að fresta þeirri uppsveiflu í mannlífi og framförum í áratugi sem stóriðjustefnan hefur skapað, bíðandi eftir þessu "eitthvað annað".

Hábeinn (IP-tala skráð) 6.9.2018 kl. 21:01

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Bíðandi eftir þessu "eitthvað annað." Þótt stóriðjan gerði sitt gagn frá 1970 til 1990, ruddi hún öðrum hugmyndum í burtu. Þegar síðan talið var að það eina sem gæti bjargað Norðurlandi 1990 við fall Sovétríkjanna og hruni útflutningsiðnaðarins á Akureyri að reisa álver í Eyjafirði, og það klikkaði, "neyddust" menn til að hætta að bíða og settu "eitthvað annað" á dagskrár þar, svo sem háskóla. 

Það hafði nefnilega gleymst að stóriðjan skilar aðeins 40 prósentum af þeim virðisauka inn í þjóðfélagið sem aðrar atvinnugreinar gera. 

Ómar Ragnarsson, 6.9.2018 kl. 22:49

3 identicon

Áburðarverksmiðjan í Gufunesi var vígð 1954, Sementsverksmiðjan tók til starfa 1958 og Kísiliðjan 1967. Það voru stóriðjur síns tíma og því undarlegt þetta 1970 ártal. Stóriðjan átti svo verulegan þátt í því hvernig gekk að vinna úr hruninu 2008 og hafði þá veitt þúsundum störf og staðið undir bættum lífskjörum allra landsmanna frá þessu 1990 ártali sem tengist ekki neinu.

Gaman að geta þess að fyrsta brautskráning Háskólans á Akureyri var 1989 þegar 10 iðnrekstrarfræðingar brautskráðust. Hann hafði þá þegar starfað nokkur ár áður en Sovétríkin féllu og því hæpið að tengja stofnun hans því. Nærtækara er að tengja hann Blönduvirkjun og væntingum á iðnaði og stóriðju á Norðurland í tengslum við tryggari og meiri orku. Háskólann á Akureyri mætti því segja skilgetið afkvæmi stóriðjustefnunnar og hefði sennilega ekki komið til án hennar.

Og það er ekkert til í þeirri fullyrðingu að stóriðjan skili aðeins 40 prósentum af þeim virðisauka inn í þjóðfélagið sem aðrar atvinnugreinar geri. Margar atvinnugreinar skila til dæmis nær engum virðisauka inn í þjóðfélagið.

Hábeinn (IP-tala skráð) 7.9.2018 kl. 04:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband