Grænland á sig sjálft og tunglið á sig sjálft.

Eitt af snúnum viðfangsefnum við mannvirkjagerð á Grænlandi er sú sérstaða, að þar í landi eru ekki til landeigendur, af því að það er litið svo á að Grænland eigi sig sjálft. 

Sem bankar í það að hafa það eins og hjá einni Suður-Ameríkuþjóð að náttúran sé "lögaðili". 

Þetta viðhorf ríkti víða í indíána- og ínúítabyggðúm Ameríku, og ef marka má heimildir um Ingólf Arnarson og landnám hans, er svo að sjá, að hann og sennilega fleiri norrænir menn hafi litið á Ísland svipuðum augum. 

Ingólfur taldi, að vegna trúleysis síns hefði Hjörleifur fóstbróðir hans ekkert til að friðmælast við landvættina, til dæmis með sérstakri fórnarathöfn, hafi hann goldið fyrir það með lífi sínu þegar þrælar hans drápu hann.

"Mun svo hverjum fara, sem ekki vill blóta," á Ingólfur að hafa sagt.  

Sjálfur hafði Ingólfur nokkurs konar heimilisguði sína með sér, öndvegissúlurnar, og í ljósi þess að hann nefndi son sinn Þórstein, hafi Þór verið helguð önnur súlan en Frey líklega hin, af því að stunda átti landbúnað. 

Ingólfur varpaði súlunum fyrir borð við fjöruna í Reykjavík og lét þær reka þar á landi. 

Útilokað var að hann hefði varpað þeim fyrir borð fyrir sunnan land, því hafstraumar ráða því, að þaðan getur ekkert rekið inn til Reykjavíkur, heldur berst vestur á Snæfellsnes. 

Hjá mörgum svonefndum "frumstæðum þjóðflokkum" er í gildi það viðhorf, að mennirnir eigi ekki jörðina eða landið, heldur hafi jörðina eða viðkomandi land að láni frá afkomendum sínum. 

Í ferðum sínum til Suðurskautslandsins drógu landkönnuðirnir fána landa sinna að húni, og á tunglinu settu bandarísku tunglfararnir fána lands síns upp.

Út af fyrir sig er þetta kannski alveg í lagi, nema svipað hugarfar og Donald Trump hefur lýst með því að vilja stofna bandarískan geimher sem leggi geiminn undir Bandaríkjamenn.  

Svo má hins vegar ráða af viðtölum við Neil Armstrong að hann hafi haft víðari hugsun varðandi landnám á öðrum hnöttum en flestir aðrir.  

Síðasta lagið á safndiskinum "Hjarta landsins" var samið 1996 og heitir "Við eigum land." 

Upphaf ljóðsins er svona: 

 

"Við eigum land á hjara veraldar, 

þetta undraland, sem okkur gefið var,..."

 

Í væntanlegri ljósmyndaljóðabók með ljóðunum úr safndiskinum, er hins vegar einu lagi bætt við á eftir "Við eigum land" og það valið til að vera lokalag safndisksins. 

Það er ljóð við lag, sem ekki náðist að klára fyrir útgáfu safndisksins, en átti að vera þar og ber heitið "Only one earth." 

Eins og nafnið bendir til er ljóðið á ensku, nánar til tekið ensk þýðing á ljóðinu "Aðeins ein jörð", sem er lokalagið á 1. diskinum af fjórum. 

Í öðru ljóði á ensku á 1. diskinum, "Let it be done!" er setningin "We are the rangers, pledged to save the nature of the earth." 

Sem sagt, við erum vörslumenn en ekki eigendur jarðarinnar. 

Viðbótarljóðið "Only one earth" er sett aftan við "Við eigum land" til þess að varpa ljósi á breytt viðhorf síðan 1996 og einnig það, að þrátt fyrir nauðsyn þess fyrir fjölmenningu mannkynsins að viðhalda þjóðtungum, mun eitt alþjóðlegt tungumál, enska eða annað, verða nauðsynlegt í alþjóðaviðskiptum. 

Þjóðrækniskennd í ljóðum og texta á borð við þann, sem birtist í ættjarðarljóðinu "Við eigum land" er hins vegar eftirsóknarverð fyrir smáþjóð, sem vill varðveita dýrmætan menningararf og þjóðtungu sem hluta af menningararfi og þúsundum tungumála mannkyns.  


mbl.is Ekki flaggað á tunglinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Ég á mig sjálft!" sagði líka náttúruundrið Borgarráð eftir sína fjórtándu uppákomu sem hafði fallið í misgóðan jarðveg og skilið marga eftir rasandi.

Jón Valur Jensson, 12.9.2018 kl. 07:28

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Ég á mig sjálf!" söng Þuríður Sigurðardóttir, lag, sem enn er sungið. 

Ómar Ragnarsson, 12.9.2018 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband