17.10.2018 | 15:27
Óþekktir misyndismenn áttu leið framhjá. Kanntu annan?
Hvarf Jamal Khesoggis verður æ sérkennilegra eftir því sem málinu vindur fram, og er orðið einskonar arabískt Skripal-mál með hinum furðulegustu tilviljunum og útskýringu.
Sádarnir hafa verið í sérstæku dálæti hjá ráðamönnum í Washington og Trump reyndi að draga úr óþægindunum, sem krónprins Sádanna varð fyrir, með því að taka undir þá kenningu, að óþekktir misyndismenn hefðu átt leið framhjá meintum morðstað og verið manna líklegastir til þess að drepa Khashoggi.
Með ólíkindum er ef tveir harðdrægir valdamenn, Pútín og krónprins Sáda, hafa komið fram með jafn lélegar skýringar á svipuðu klúðri með stuttu millibili.
Maður hélt að jafn voldugir menn "kynnu betur til verka" við svona aðstæður.
Hér í gamla daga átti ég einn sérkennilegan vin, mikinn sérvitring, sem á tímabili hringdi daglega í nokkra menn, þeirra á meðal mig, til þess eins að tala við þá í síma.
Þetta gat verið pirrandi þegar allt var á útopnu í fréttunumm, en ég hafði lúmskt gaman af þessu og skellti aldrei á hann.
Það var eins og hann fyndi það á sér sjálfur að þessar daglegu símhringingar væru kannski ekki alveg í lagi, því að í hvert sinn sem hann hringdi, byrjaði hann á því að segja:
"Fyrirgefðu, að ég hringdi, en ég átti leið fram hjá símanum."
Nú velta voldugir þjóðarleiðtogar því upp, hvort misyndismenn hafi fyrir hreina tilviljun átt leið framhjá meintum morðstað.
Og gamalkunnugt svar kemur í hugann, en fer þó ekki lengra: Kanntu annan?
Böndin sögð berast að krónprinsinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er ekki hér um Trump-effect að ræða? Trump lætur að vísu ekki myrða andstæðinga sína, en rekur þá úr starfi og svertir mannorð þeirra með öllum ráðum. Slíkur ignorant og dóni hefur aldrei áður verið húsbóndi í Hvíta húsinu. Gæti valdið því að ríkisstjórnir (regimes) færa sig upp á skaftið, verða djarfari, ósvífnari. Rússar nota eitur til að koma andstæðingum fyrir kattarnef. Sádar myrða blaðamann í konsúlati þeirra í Istanbul. Yfirmaður Interpols, Kínverjinn Meng Hongwei, er hnepptur í fangelsi í Kína. Og á litla krútti Íslandi er sett lögbann á fréttaflutning um brask og innherjaviðskipti forsætisráðherrans og fjölskyldu rétt fyrir kosningar.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.10.2018 kl. 16:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.