Reykjaneshringlið byrjaði 1959.

Fram til 1959 voru örnefnin á Reykjanesskaga rökrétt og góð. 

Ysti hluti skagans, sem skagar út til suðvesturs, hét og heitir enn Reykjanes, og Keflavík og Njarðvík voru Faxaflóamegin á skaganum.Reykjanes, kort (1)

Allt svæðið frá Vogum í norðri til Grindavíkur hét og heitir enn Suðurnes og fólkið á öllu þessu svæði Suðurnesjamenn. 

Svæðið Rosmhvalanes eða Miðnes, sem vísar í norður frá skaganum með Garðskaga sem útvörð, var kallað Útnes og íbúarnir Útnesjamenn. 

Þetta sést glöggt í ljóðinu um Suðurnesjamenn, þegar sungið er: - 

"Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn..."

og "Ekki var að spauga með þá Útnesjamenn." Reykjanesskagi, kort

Undir síðarnefnda svæðið heyrðu bæði Sandgerði og Garður, og því eðlilegast að nýtt sameinað sveitarfélag héti einfaldlega Útnes og íbúarnir Útnesjamenn. 

Fram til 1959 náði einmenningskjördæmi allt frá Reykjanestá í suðvestri til botns Hvalfjarðar og hét "Gullbringu- og Kjósarsýsla." Látum það vera. 

En 1959 byrjaðið hringlið, sem engan enda ætlar að taka. Ákveðið var að breyta nafninu í Reykjaneskjördæmi og fella Hafnarfjörð, sem hafði verið einmenningskjördæmi, inn í það. 

Að kenna í framhaldinu Hafnarfjörð, Álftanes, Kópavog, Garðabæ og Mosfellshrepp við lítið útnes í 50 kílómetra fjarlægð verður að flokkast sem mikill misskilningur. 

Og raunar afleitur misskilningur, því að smám saman fór fólk að tala um allt kjördæmissvæðið sem Reykjanes. 

Afleiðingarnar hrúguðust upp og gera það enn, en hefðu kannski ekki gert það ef þetta kjördæmi á árunum 1959-1999 hefði heitið Suðvesturkjördæmi.

Með sameiningu Keflavíkur og Ytri- og Innri-Njarðvíkur var stofnað stækkað sveitarfélag sem fékk nafnið Reykjanesbær. DSC04722

Aldeilis fráleitt. Því að Reykjanes er ekkert nálægt þessum bæjum. 

Skárra hefði verið að nefna þetta nýja bæjarfélag Suðurnesjabæ, og nýja bæjarfélagið núna Útnesjabæ. Garðurinn er norðar en Keflavík/Reykjanesbær. 

En kannski rætist úr þessu ef það eðlilega gerist, að öll sveitarfélögin í vestur frá Vatnsleysuströnd og Selvogi sameinist í einn Suðurnesjabæ, þar sem íbúarnir heita Suðurnesjamenn. DSC04719

P. S.  Úr launsátri felunafns gerir maður, sem nefnir sig Vagn, harða árás á það sem hér að ofan er sagt um Reykjanes, telur það tóman þvætting hjá mér sem sagt er um þetta nes yst á Reykjanesskaganum og þar með að ég sé alger ómerkingur í þessu efni. 

Vagn fullyrðir að hið eina rétta sé, að Reykjanes ("Reykjanes er hluti af Reykjanesi") sé aðeins ysti hlutinn á hinu raunverulega Reykjanesi, sem innifeli allan þann stóra skaga, sem er á suðveturhorni landsins. Reykjan.skagi ,bók

Vagn færir engar heimildir fyrir þessum ásökunum um stórfelldar rangfærslur mínar, og er það ansi hart að þurfa að nefna aðeins örfáar af ótal heimildum sem finna má til að sanna það sem sagt er í pistli mínum um Reykjanesið. Nýútkomin er stórmerk og vönduð ljósmyndabók um Reykjanesskagann, sem auðvitað fer rétt með og er með forsíðumynd af Sogunum og Keili, sem eru rúmlega 30 kílómetra frá Reykjanesinu. 

Einnig má benda á heimildamynd sem Ari Trausti Guðmundsson og Valdimar Leifsson gerðu um Reykjanesskagann. 


mbl.is Suðurnesjabær hlutskarpast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og Reykjanesbrautin sem liggur nuna inn að Sundum! Eða allir þessir 'bæir' sem eru margir bæir, dreifa sér jafnvel kringum heilan jökull. Dæs.  En Útnes á þetta auðvitað að heita eins og ég var einmitt að rövla um fyrr í kvöld. Keflavík, Njarðvík og Hafnir gátu líka heitið Hafnir! 

Oddný (IP-tala skráð) 4.11.2018 kl. 02:02

2 identicon

Á Reykjanesi er enginn staður og ekkert svæði sem kallast Útnes, en þar er útnes - afskekkt nes eða skagi. Á Reykjanesi eru staðir og svæði sem heita Rosmhvalanes eða Miðnes, Sandgerði, Reykjanesbær og Krísuvík. Grindavík, Vogar, Keilir og Straumsvík. Hafnarfjörður, Garðabær, Mosfellshreppur og Reykjavík. Þar er einnig staður sem ber sama heiti og skaginn, Reykjanes á Reykjanesi.

Frá Ölfusá, Sogi, Þingvöllum og yfir í Hvalfjarðarbotn hafa ætíð talist mörk Reykjanessins.

Vagn (IP-tala skráð) 4.11.2018 kl. 16:06

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Reykjanes á Reykjanesi". Kanntu annan? Það var að koma út stórmerk ljósmyndabók Ellerts Grétarssonar, sem heitir réttilega Reykjanesskagi. 

Set inn undir P.S. í pistilinn kort af Reykjanesinu, þar sem það sést vel hvernig í pottinn er búið. 

Þar sést líka að Reykjanesið er ekki það sama og Reykjanestá, því að hún er blátáin á Reykjanesinu.  

Ómar Ragnarsson, 4.11.2018 kl. 20:48

4 identicon

Það ruglar marga að Reykjanesskaginn heitir Reykjanes, rétt eins og Vestfjarðarkjálkinn heitir Vestfirðir og Reykjavíkurborg heitir Reykjavík. Nýjar bækur og skilgreiningar nútímamanna sem forfeðrum okkar hefðu þótt undarlegar breyta því ekki.

2. kafli

Flóki Vilgerðarson hét maður; hann var víkingur mikill; hann fór að leita Garðarshólms og sigldi þar úr er heitir Flókavarði; þar mætist Hörðaland og Rogaland. Hann fór fyrst til Hjaltlands og lá þar í Flókavogi; þar týndist Geirhildur dóttir hans í Geirhildarvatni.

Með Flóka var á skipi bóndi sá, er Þórólfur hét, annar Herjólfur. Faxi hét suðureyskur maður, er þar var á skipi.

Flóki hafði hrafna þrjá með sér í haf, og er hann lét lausan hinn fyrsta, fló sá aftur um stafn; annar fló í loft upp og aftur til skips; hinn þriðji fló fram um stafn í þá átt, sem þeir fundu landið. Þeir komu austan að Horni og sigldu fyrir sunnan landið.

En er þeir sigldu vestur um Reykjanes og upp lauk firðinum, svo að þeir sáu Snæfellsnes, þá ræddi Faxi um: "Þetta mun vera mikið land, er vér höfum fundið; hér eru vatnföll stór".

Síðan er það kallaður Faxaóss.

Þeir Flóki sigldu vestur yfir Breiðafjörð og tóku þar land, sem heitir Vatnsfjörður við Barðaströnd. Þá var fjörðurinn fullur af veiðiskap, og gáðu þeir eigi fyrir veiðum að fá heyjanna, og dó allt kvikfé þeirra um veturinn. Vor var heldur kalt. Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum; því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið.

Þeir Flóki ætluðu brutt um sumarið og urðu búnir litlu fyrir vetur. Þeim beit eigi fyrir Reykjanes, og sleit frá þeim bátinn og þar á Herjólf; hann tók þar sem nú heitir Herjólfshöfn. Flóki var um veturinn í Borgarfirði, og fundu þeir Herjólf. Þeir sigldu um sumarið eftir til Noregs.

Og er menn spurðu af landinu, þá lét Flóki illa yfir, en Herjólfur sagði kost og löst af landinu, en Þórólfur kvað drjúpa smjör af hverju strái á landinu, því er þeir höfðu fundið; því var hann kallaður Þórólfur smjör.

Vagn (IP-tala skráð) 4.11.2018 kl. 23:41

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Auðvitað sigldu þeir fyrir Reykjanes, rétt eins og siglt er fyrir Garðskaga án þess að mönnum detti í hug að Garðskaginn nái allt til Þingvalla eins og þú segir, Vagn, að Reykjanes nái. 

Þótt siglt sé fyrir Horn, heitir allur Vestfjarðakjálkinn ekki Horn, og þótt siglt sé fyrir Font, heitir allt Langanesið ekki Fontur. 

Ómar Ragnarsson, 5.11.2018 kl. 02:39

6 identicon

"En er þeir sigldu vestur um Reykjanes og upp lauk firðinum, svo að þeir sáu Snæfellsnes," Til þess þarf að sigla fyrir mitt Reykjanes - skagan allan, það ljúkast engir firðir upp og Snæfellsnes sést ekki þegar siglt er fyrir þitt Reykjanes. Svo er spurning hvort þínu Reykjanesi hafi verið búið að gefa nafn á þessum tíma.

Vagn (IP-tala skráð) 5.11.2018 kl. 07:52

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er reyndar bein sjónlína til ytri hluta Snæfellsness frá skipi, um leið og komið er fyrir Reykjanes. Hver sem er, getur séð þetta á korti.  

Ómar Ragnarsson, 7.11.2018 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband