10.11.2018 | 09:41
"Bara sandar, melar og grjót"?
"Hvaða æsingur er þetta? Þetta eru bara sandar og melar og grjót. Gildi Íslands felst meðal annars í því frelsi að mega njóta þess að spála í þessum sandi og melum. Þetta hverfur hvort eð er fljótt."
Þetta var ein af athugasemdunum, sem sjá mátti á blogginu við fréttum um utanvegaakstur í Krepputungu 2014.
Sá, sem þessu hélt fram, skautaði framhjá því, að á þeim stað, sem sýndur var, í Krepputungu er alveg einstakt landslag, þar sem ljósgulur vikur úr Öskju liggur sem þunnt lag ofana á svartri ösku úr fyrri gosum.
Þegar bílum er beitt á svipaðan hátt á þeim stað eins og bílnum er beitt á mosann á myndskeiði í tengdri frétt á mbl.is, skera hjólin gula vikurlagið í sundur og róta svörtu öskunni upp á svipaðan hátt og sést svo glögglega á grobb-myndinni af mosatætingnum.
Svörtu förin í gulum vikrinum geta blasað þar við árum saman og þegar um mosa er að ræða geta liðið margir áratugir, jafnvel hátt í öld, sem ljót för má sjá út um allt eins og við Landmannaleið frá fyrri tímum.
Síðan skauta þessir Íslandsvinir tætaranna yfir það, að allt að 90 prósent þeirra ferðamanna, sem koma í óbyggðir og auðnir landsins, sækjast eftir ósnortnu landi, friði og kyrrð, sem ekki er að finna í Evrópulöndum.
Ef siga mætti öllum út fyrir merktar slóðir til þess að "tæta og trylla" að vild hvar sem er og hvenær sem er, væri auðséð hverjar afleiðingarnar yrðu daglega.
Í Bandaríkjunum er þjóðgarðurinn Canyonlands, þar sem eru 1600 kílómetrar af merktum jeppaslóðum. Þar er stranglega bannað og engum dytti þar í hug að fara að tæta og trylla út fyrir slóðana.
Á Íslandi eru merktir jeppaslóðar vel yfir 20.000 kílómetrar og því engin rök fyrir því að siga þúsundum bíla út fyrir þær.
Spólaði um í mosanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar, af hverju getum við Íslendingar ekki tekið strax á þessum málum?
Hvað eru ekki orðin mörg ár síðan fór að bera á þessu?!
Ætli nógu háar peningasektir væru lausnin?
Kær kveðja frá Eyjum.
Helgi Þór Gunnarsson, 10.11.2018 kl. 13:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.