15.11.2018 | 07:56
"Flóðavarnargarðurinn hefur æpt á hækkun í marga áratugi.
"Katla kemur" hefur verið orðtak hjá mörgum Skaftfellingum í meira en hálfa öld.
Amma mín heitin, Ólöf Runólfsdóttir frá Hólmi í Landbroti, uppalin á Svínafelli í Öræfum, sagði mér frá Kötlugosinu 1918 fyrir 70 árum þegar hún var 22ja ára, og því mikla róti, sem það gos hafði á fólkið eystra, þar á meðal hana og Þorfinn Guðbrandsson, en bæði fluttu til Reykjavíkur og tóku þar saman.
Síðan hef ég beðið eftir Kötlu.
Einnig eftir næsta Heklugosi, einkum á meðan ég dvaldi langdvölum við Hvolsvöll sumrin 2010 til 2014.
Hugsunin er ekki sú, að ég, Reynir Ragnarsson eða aðrir vilji að næsta Kötlugos verði jafn skætt og hættulegt og gosið 1918, heldur kannski frekar einskonar einkasamtal við hana þegar ég er á ferð um þetta svæði og veður er gott síðsumars, nokkurn veginn svona:
"Heyrðu, gamla, það vita allir, að þú ætlar hvort eð er að gjósa. Verst er ef þú gýst snemma að vori þegar gróðurinn er lítill og viðkvæmur og askan þín drepur því mest.
Og af því að líkurnar fyrir stóru gosi aukast yfirleitt við það að langt líði á milli gosa, væri skárra ef þú ert ekki að draga þetta lengi eða að safna í stórgos.
Nú er gott veður þar sem allir sjá til þín og úr því að kemur fyrr eða síðar, hvað sem hver segir, gerðu það þá nú svo að það sé afstaðið og allir geti verið rólegir eftir það."
Í sjónvarpsþættinum Heimsókn 1975 þar sem farið var í heimsókn í Vík, var eðlilega fjallað talsvert um Kötlu og það nefnt sem fáránlegt dæmi um andvaraleysi, að flóðavarnargarður á milli kletta hinnar fornu sæbröttu strandar og allstórrar hæðar, sem ber heitið Höfðabrekkujökull, er augljóslega allt of lágur, úr því að hæðin sem hann liggur utan í með flugvöll ofan á sér, ber jökulsheiti og var mynduð í Kötlugosi.
Hæðin, mun hærri en varnargarðurinn, er augljóst merki um afl Kötluhlaupa, og varnargarðurinn þyrfti því að verða að minnsta kosti jafnhár en helst hærri.
Það yrði neyðarlegt ef þessi garður yrði allt of lágur og gagnslaus eftir margra áratuga tal um að styrkja hann og hækka.
Katla er ekkert grín. Undir öllu Suðvesturlandi er fjögurra sentimetra þykkt öskulag úr gosi fyrir nokkur þúsund árum.
Fyrir alla þá, sem þurfa að vera viðbúnir slíku reginafli, verður því að huga að viðbúnaði, þar á meðal styrkingu á varnargörðum.
Katla er mér því hugstæð eftir sögurnar, sem amma gamla sagði af henni. Meira að segja á ég 44 ára gamlan jeppa, sem hefur síðustu árin fengið heitið "Kötlujeppinn".
Það viðurnefni, sam aðrir en ég fundu upp, er til komið vegna þess að hann er jöklajeppi með 38 tommu dekk. Þau eru þetta stór, af því að sýslumenn og almannavarnarfulltrúar eiga það til að banna alla umferð bíla á ákveðnum bannsvæðum, nema að þeir séu á minnsta kosti 38 tommu dekkjum.
Ég hef tiltæka þrjá jöklajeppa af mismunandi stærðum sem viðbragðsbíla,- allir með nógu stór dekk fyrir jöklaferðir. Í ferðum verður að vera sveigjanleiki og helst að vera ekki einn á ferð.
Tveir jeppanna, Suzuki Fox árgerð 1988, 940 kíló á 31 tommu dekkjum, og "Kötlujeppinn", Range Rover, árgerð 1973, með Nissan Laurel dísilvél, eru fornbílar, en jeppinn í lengst til vinsri á myndinni, er líklegastur til notkunar, Suzuki Grand Vitara dísil árgerð 1998 á 35 tommu dekkjum.
Hann er aðeins 1480 kíló, 620 kílóum léttari en "Kötujeppinn" og flýtur því alveg jafnvel og sá stóri á snjó. Það má staðfesta með reynslu í jöklaferðum og með notkun á sérstakri flotformúlu.
En samt verður að vera víðbúið að aðeins 38 tommu jeppinn fái grænt ljós hjá stjórnendum aðgerða vegna hamfara og að það þurfi að vera með slatta af fólki og farangri með í för.
Sterkari tilfinning fyrir Kötlugosi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fyrst og fremst þyrfti að grjótverja Kötlugarðinn. Honum var ýtt upp og efnið í honum er eingöngu sandur og vikur. Nái vatn að flæða yfir hann er hann farinn á augabragði. Sem betur fer er þetta allt í athugun núna ásamt því að gera annan garð vestar eða frá Víkurkletti og niður að sjó. Þetta tvennt gæti skipt sköpum ef og þegar ,,Katla kemur"
Þórir Kjartansson, 15.11.2018 kl. 21:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.