Meira að segja líka "stærsti jólasveinn í heimi."

Samar, í nyrstu héruðum Svíþjóðar, Noregs og Finnlands, þökkuðu kærlega fyrir sig þegar Íslendingar færðu þeim jólasveininn á silfurfati um miðja síðustu öld. 

Íslendingar færðu Löppum líka fjögur önnur dýrmætustu atriðin í að laða ferðamenn norður úr öllu valdi. 

Á þeim tíma trúðu evrópsk börn því að jólasveinninn ætti heima á Íslandi og skrifuðu honum bréf í tugþúsundatali. 

Utanáskriftin var einföld og eðlileg í huga barnanna: "Jólasveinninn. Íslandi."  

Að sjálfsögðu. 

En Íslendingar litu á þetta sem leiðinda vandamál. Blaðafulltrúi Ríkisstjórnarinnar reyndi að svara börnunum, en komst ekki yfir nema lítið brot af staflanum. 

Því var þessu vikið burtu, en þörfin var áfram fyrir hendi og nú fóru börnin að skrifa Lappland í staðinn fyrir Ísland. 

Og í nyrstu héruðum Evrópu er búið að stimpla Lappland sem heimkynni jólasveinsins með Rovianemi sem miðstöð, sem græðir á tá og fingri á þeim rauðklædda, allan tíma ársins, en þó helst á veturna. 

Íslendingar töldu, og telja margir líklega enn, að fernt væri það versta, sem þjóðin byggi við: Myrkur, kulda, þögn og ósnortna náttúru. 

Fyrir 15 árum voru ferðamenn að vetrarlagi orðnir miklu fleiri í Lapplandi en allt árið á Íslandi. 

Ástæðan var ferföld: "Myrkur, kuldi, þögn og ósnortin náttúra" og engin hætta á neinni samkeppni frá Íslendingum, sem hafa þrettán jólasveina, auk Lepps, Skrepps, Láps, Skráps, Grýlu, Leppalúða, jólakattarins, álfa, trölla, álfadrottningar og álfakóngs, og eldfjöll og mikilfenglegt landslag í viðbót við heiðar, frosin heiðavötn, hreindýr og skóga á austanverðu landinu. 

Jólasveinavinsældir í nyrðri hlutum Skandinavíu virðast eiga sér fá takmörk. 

Á landleið norður Noreg fyrir tveimur áratugum var ákveðið að fara styttri leið norður frá Tromsö með því að taka ferju yfir einn fjörðinn. 

Þetta var í júlílok og viti menn: Þegar í land var komið blasti við, - ja, hvað haldið þið, - nema milli 5 og 10 metra há risastytta af eldrauðum jólasveini í fullum skrúða með áletruninni: "Stærsti jólasveinn í heimi"!  

Nú erum við loks farnir að átta okkur á möguleikum til vetrarferðamennsku, en eitt er víst: 

Samarnir í Skandinavíu munu ekki afhenda okkur jólasveininn, sem þeir hirtu af okkur fyrir rúmri hálfri öld. 


mbl.is Á meira en 40.000 jólasveina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband