10.1.2019 | 04:21
Hætt á toppnum?
Keppnisferill Guðjóns Vals Sigurðssonar hefur verið einstaklega farsæll og langur, röð stærstu alþjóðlegu stórmótanna í 22 ár á þeim áratugum þegar lið lands hans hefur verið nær því að vera fastagestur á slíkum mótum en nokkru sinni í boltaíþróttasögu Íslands.
Miðað við þennan einstaklega langa og glæsilega feril með bestu handboltaliðum heims í viðbót við stórmótaferilinn og allt það óheyrilega líkamlega álag, sem slíku fylgir, verður Guðjón að teljast hafa sloppið furðu vel við þau meiðsli sem oft sækja að þeim afreksmönnum er harðast leggja að sér.
Þegar æviárin nálguðust töluna 40 var augljóst að Guðjón yrði að beita sjálfan sig æ meiri hörku til þess ómögulega; að viðhalda hinum ótrúlega sprengikrafti, snerpu, hraða og úthaldi sem hefur verið aðall hans alla tíð.
Miðað við toppform hans að undanförnu, sem hefur sætt undrum, virtist stefna í það að hann myndi toppa á hárréttum tíma. En slíkt tekst ekki alltaf í þeim biorytma, sem besta afreksfólkið gengur gegnum.
En þá brast hnéð, að því er virtist án sýnilegs hnjasks.
Og við blasir sá möguleiki að í stað þess að sigla seglum þöndum í gegnu hátind ferilsins standi Guðjón frammi fyrir því að hafa nú þegar hætt á toppnum, en grátlega óvænt - of snemma.
Vonandi er þessu ekki svona farið, en með hverju æviárinu aukast samt líkurnar á því.
Og eftir stendur einstakur ferill og einstakur maður, hvernig sem fer.
Töldu Guðjón mögulegan markakóng HM | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það skiptir mig engu máli hvort að einhverri leðurpjötlu
sé hent fram og til baka; þó að það sé nú önnur saga.
Er það þess virði að slasa sig til langs tíma bara vegna einhvers bolta?
Jón Þórhallsson, 10.1.2019 kl. 12:18
Það er alveg sama hvernig á það er litið, Guðjón Valur er einstakur íþróttamaður og ótrúleg fyrirmynd. Hann er orðinn nógu gamall til að geta verið faðir flestra þeirra sem nú eru að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu, sem sumir hverjir voru ekki fæddir þegar Guðjón Valur fór fyrst á stórmót.
Hann hefur um árabil verið einn allra besti leikmaður heims í sinni stöðu og er enn, það hafa hingað til helst verið markverðir sem hafa náð að halda sér í fremstu röð komnir á þennan aldur. Það er alveg ljóst að slíkur árangur hefur útheimt ótrúlega eljusemi og ekki síður skynsemi, sem alls ekki er á allra færi.
Þá er hugarfar og heiðarleiki þessa magnaða leikmanns öðrum (líka í öðrum íþróttagreinum og bara almennt séð) til eftirbreytni.
Að því sögðu óska ég landsliðinu alls hins besta í komandi stórmóti, þrátt fyrir nokkurt reynsluleysi í kjölfar kynslóðaskipta - og vonandi nær Guðjón Valur að njóta mótsins, þótt að þessu sinni sé það í faðmi fjölskyldunnar.
TJ (IP-tala skráð) 10.1.2019 kl. 15:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.