20.1.2019 | 13:51
Vaxandi umferðarógn: "Fjarverandi vegfarendur".
Hér er tæpt á hugtaki, sem nær yfir þann ört stækkandi hóp vegfarenda, sem hafa sjálfir svipt sig að meira eða minna leyti athygli og getu í umferðinni og eru vaxandi ógn.
Eftir að síðuhafi varð hjólreiða- og vélhjólamaður að stórum hluta fyrir fjórum árum hefur hann kynnst umferðinni frá nýrri hlíð og beinbrotnað tvisvar í slysum, sem setja má í flokk slysa "fjarverandi vegfarenda."
Af þeim má mikið læra og frá sjónarhóli manns á reiðhjóli og "vespu"vélhjóli sést margt sem ekki sést eins vel úr, bíl.
1. Notkun snjallsíma hjá ökumönnum, hjólamönnum og gangandi fólki. Mun algengari en mann óraði fyrir. Oft í gangi við erfiðar og flóknar aðstæður, jafnvel í gegnum hringtorg. Sum notkunin virðist byggja á þeirri skoðun ökumanns eða vegfaranda að það sé allt í lagi að nota tækifærið þegar stansað er á gatnamótum til þess að leggjast þá í símann. Eða að nýta hvert tækifæri sem gefst í umferðarteppum. Veldur hins vegar töfum, óróa og öryggisleysi, því að oft tekur snjallsímanotandinn ekki efir því þegar grænt ljós kviknar eða að hann tímir ekki að hætta þegar umferðin fer af stað.
2. Verið á fullu við að skoða mæla eða annað á fullri ferð, jafnvel við erfiðar aðstæður. Þetta var höfuðástæða hjólsalyss með beinbroti 2. janúar sl. eins og áður hefur verið greint frá hér á síðunni.
3. Hlustað með eyrnatólum á útvarp eða tónlist gangandi, hjólandi eða akandi. Sérstaklega lúmskt fyrirbæri, sem til dæmis á líklega stóra þátt í lítilli notkun reiðhjólabjöllunar. Eða hvers vegna halda menn að þetta mikilvæga tæki sé á hjólunum? Í tveimur af þeim þremur skiptum af þúsundum, sem vegfarendur sem mættu síðuhafa, viku til rangrar hliðar, voru þeir að hlusta af ákafa á eitthvað sem var í eyrnartólum á höfði þeirra. Í öðru af þessum tveimur tilfellum gangandi vegfarenda vék hann svo lagt til vinstri, að ég lenti á tré úti í limgerði!
4. Fíkniefni, þar með talið áfengi, sjá tengda frétt á mbl.is um það efni.
5. Óvæntar og ófyrirséðar skyndiákvarðanir, teknar "blindandi". Sú var ástæða beinbrotshjólaslyss á gangbraut yfir frárein Grensásvegar í apríl 2016. Skyndiákvörðun bílstjóra á þvi augnabliki, sem hann fékk lága blindandi kvöldsól beint í augun.
Svipað magn og við krufningar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.