14.2.2019 | 00:18
Þarfur alþjóðlegur dagur sem byggist á margra alda hefð.
Þegar Valdís Gunnarsdóttir heitin stóð fyrir því á Bylgjunni að kynna Valentínusardaginn á níunda áratugnum, voru sumir andvígir því að vera að "elta Kanann", þ. e. að nota bandaríska fyrirmynd í þessu efni.
En þessi dagur er algerlega ólíkur þeim Kanaeltinarleik sem felst í Black friday og Cyber monday og byggist á séramerískum Thanksgiving day.
Dagurinnn, kenndur við heilagan Valentínus ruddi sér til rúms í nokkrum löndum Evrópu á 14. öld og hefur að vissu leyti líka forsögu og aðrir hátíðisdagar svo sem jól, dagana á föstunni, páska, hvítasunnu og 1. maí.
Síðuhafi hélt upp á 14. febrúar strax árið 1962, því að á þessum degi hitti hann tilvonandi lífsförunaut sinn í fyrsta sinn árið 1961.
Hvorugt hafði hugmynd um að þetta væri Valentínusardagurinn fyrr en Valdís fór að kynna hann um 25 árum síðar!
Samt hafði verið sungið um hann í vinsælum dægurlögum á sjötta áratugnum, svo sem í Calendar girl og My funny Valentine.
Um það leyti sem gullbrúðkaupið varð að veruleika varð til lagið Dagur elskendanna, sem verður sett á facebook síðu mína í tilefni dagsins.
Svona hljóðar textinn, sem þau Edgar Smári Atlason og Soffía Karlsdóttir syngja við undirleik Vilhjálms Guðjónssonar og Þóris Úlfarssonar. Lag, texti og flaut er úr heimasmiðju.
DAGUR ELSKENDANNA.
Þetta´er dagurinn okkar, sem eigum við nú,
þegar örlögin réðust og ást, von og trú
urðu vegvísar okkar á ævinnar braut
gegnum unað og mótbyr, í gleði og þraut.
Þú varst hamingjusólin og heilladís mín
og ég hefði´ekki orðið að neinu án þín.
Ég í fögnuði þakka þegar faðmarðu mig
að hafa fengið að lifa og elska þig.
Og til síðasta dags, ár og síð, hverja stund,
þá mun lifa björt minning um elskenda fund.
Ég við ferðalok þakka, - straumur fer þá um mig,
að hafa fengið að lifa og elska þig.
Vinsældir Valentínusardagsins að aukast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég hitti mína fyrir svipað löngu Tek undir hvert orð
Halldór Jónsson, 14.2.2019 kl. 06:45
Mér hefur alltaf þótt svolítið skrítið að tína allt upp eftir kanann. Nú er meira að segja farið að halda upp á þakkargjörðardaginn. Og svo Black friday sem sem reyndar er orðið að Black week hjá okkur. Er ekki bara verið að koma þessu á fyrir kaupmanninn ? Annars fannst mér svolítið skondið hér um árið þegar þáttargerðarmaður á bylgjunni fór að tala um heilagan Valentínus. Valentínus þessi var alls enginn sankti heldur þingmaður á rómerska þinginu í den. Dagurinn er honum til heiðurs þar sem hann mælti gegn tillögu keisarans um að hermönnum yrði bannað að gifta sig.
Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 14.2.2019 kl. 07:33
Það má alveg meta framlag Valentínusar þannig að það hefði nægt til að setja hann í dýrlingatölu.
Ómar Ragnarsson, 14.2.2019 kl. 08:38
Jú, rétt er það en menn eru nú yfirleitt kaþólskar trúar sem hafa orðið þess aðnjótandi.Valentínus trúði á sólguðinn.
Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 14.2.2019 kl. 19:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.