5.3.2019 | 10:36
Golfiðkendur eru hluti af stærri hópi. Stytting vinnutíma?
Átakspunktarnir í stóra klukkumálinu eru farnir að skýrast.
1.
Annars vegar er um að ræða áhrif núverandi stillingar á lýðheilsu fólks á tímabilinu frá nóvember til febrúar, samtals fjóra skammdegismánuði.
Stærstu og viðkvæmustu hóparnir er ungt námsfólk sem verður meira fyrir barðinu á kolskakkri klukku en aðrir, skekkju upp á 1 klst 40 mín seinkun hádegis í febrúarbyrjun í Reykjavík, en á svæðinu vestan Þjórsár, Langjökuls og Hrútafjarðar búa 80 prósent þjóðarinnar.
Stórir hópar fólks þurfa líka á góðu þreki að halda strax í byrjun vinnudagsins í stað þess að vera að reyna að vinna upp slen eftir ófullnægjandi svefn og áhrif myrkursins.
Til að gera ástandið enn verra vill svo óheppilega til, að einmitt á þessu skammdegistímmabili færist hádegið sjálft og þar með birtutíminn til um heilan hálftíma og það í verri áttina.
2.
Hins vegar er um að ræða hóp, sem hefur stækkað mikið á síðustu árum, útivistarfólk og ferðafólk. Fyrir þetta fólk skiptir mestu máli að sól sé sem hæst á lofti síðdegis. Sólarhæðin ein skiptir miklu máli um hita og aðstæður vegna þess hve norðarlega landið liggur. Það getur skipt máli um lýðheilsu að iðkendur utanhússíþrótta og útilífs hafi sem drýgstan tíma á þessu tímabili ársins.
Þótt það sé rétt hjá helstu sérfræðingum í sólargangi að vökutími í björtu í skammdeginu lengist minna samtals við seinkun klukkunnar en ef hún væri látin vera óbreytt, er hinn viðkvæmi tími, sem vinnst á morgnana líklega dýrmætari en sá sem vinnst á kvöldin. En þetta er að sjálfsögðu álitamál.
Eina sjáanlega leiðin til að sætta þessi tvö ólíku sjónarmið er að taka á ný upp tvær stillingar á ári og seinka klukkunni yfir vetrartímann. Þetta hafa margar þjóðir gert, en eru sumar orðnar jafnþreyttar á því og við vorum fyrir hálfri öld, þegar "hringlið með klukkuna" var í gildi og hafður sérstakur sumartími, sem síðar varð að eina tímanum, sem notaður hefur verið hér.
Sú spurning vaknar, úr því að nú stendur yfir kjaradeila, hvort ákvörðun um styttingu vinnutíma gæti orðið hluti af lokalausn.
Þetta mál snertir hvern einasta mann mikið og það þarfnast afar víðtækrar og gagngerðrar skoðunar.
Gæti leikið golfiðkendur grátt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Ég er talsmaður óbreyttrar klukku, a.m.k. á meðan áhrif breytingar hafa ekki verið betur rökstudd.
Ég vil meina að um sé að ræða MEINT "áhrif núverandi stillingar á lýðheilsu" því mér finnst engan veginn óumdeilt að breyting klukku myndi hafa áhrif á lýðheilsu þær vikur sem flest fólk væri hvort eð er að vakna á meðan enn er myrkur. Þetta eru bara rétt rúmar fjórar vikur alls á árinu sem bætist við morgunbirta sem gagnast. Á móti missum við gagnlega síðdegisbirtu í marga mánuði.
Einar Karl, 5.3.2019 kl. 16:04
Mér finnst sjálfsagt að klukkan sé tólf á hádegi - þannig hefur það líkst til verið öldum saman og má til dæmis sjá af sólúrum, örnefnum og fleiru.
Verði kukkunni seinkað um einna stund þá mætti nota tækifærið og reyna að brjóta upp venjur - til dæmis gera vinnutíma sveigjanlegri - öllum liði vel og umferðarhnútar yrðu eitthvað minni!
Sigurjón Hauksson (IP-tala skráð) 5.3.2019 kl. 18:17
Ég skil ekki fólk sem hefur gaman af því að fjasa um það áratugum saman hvort klukka á að vera rétt samkvæmt sólargangi, eða fótaferða tíma eða náttmáls tíma einhverra. Mín klukka er vitlaus í allri merkingu þess orðs og það finnst mér verulega hallærislegt að þetta tækni fyrirbæri skuli vera vera skakkt en náttúru kerfið rétt.
Það er svo einfalt að hafa klukkuna rétta og það vita margir jafnt menntaðir sem og ómenntaðir, meira að segja steinaldarmenn vissu hvenær hádegi var betur en nútíma almenningur, en okkur nútíma almenningi er bannað að horfa á náttúrunna til mælinga á tíma, við eigum að hlusta á útvarpið því að þar liggur allur sá heilagi sannleikur sem ætlast er til að við trúum.
Hrólfur Þ Hraundal, 6.3.2019 kl. 08:49
Klukka er ekki fyrst og fremst til að segja til um nákvæma stöðu sólar. Ef klukkan væri það þá ætti klukkan ekki að vera eins á Vestfjörðum og Austfjörðum.
Einar Karl, 6.3.2019 kl. 20:25
Það er engin ástæða til annars en að vera á réttasta tímabeltinu sem er UTC-1.
Þeir sem vilja hlada óbreyttum háttum seinka einfaldlega sinni stundaskrá um eina stund; fara til dæmis á fætur klukkan 6 í stað klukkan 7 og njóta gömlu góðu síðdegisbirtunnar!
Sigurjón Hauksson (IP-tala skráð) 6.3.2019 kl. 21:35
Stærstu og viðkvæmustu hóparnir er ungt námsfólk sem verður meira fyrir barðinu á kolskakkri klukku en aðrir, … segir Ómar. Ég hef séð allnokkur viðtöl við skólafólk á ýmsum aldri, (það er víst eina fólkið sem við þurftum að taka tillit til) um syfju og hversu þreytt það á morgnana. Þau nefna nánast öll ranga nýtingu sólarhringsins, þ.e. fara of seint að sofa, hanga í tölvunni, horfa á vídeó, festast yfir samfélagsmiðlum, þótt úti fyrir sé búið að vera myrkur í átta klukkustundir. En, „fullorðna fólkið“ ætlar að „redda þessu“. Hvernig? Jú, með því að fjölga myrku stundunum á vökutíma! Jamm.
Arnar Guðmundsson, 8.3.2019 kl. 10:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.