4.4.2019 | 08:46
Húsnæði er stór hluti kaupmáttar. Loksins Keldnalandið.
Árum saman hefur það verið einn helsti þáttur málflutnings þeirra, sem telja aukningu svonefnds kaupmáttar hafa verið aðalatriði umræðu um kjaramál, að vegna góðs kaupmáttar eigi allir að vera hæstánægðir með kjör sín.
Í þessu tali hefur ævinlega verið skautað fram hjá því ófremdarástandi sem hefur ríkt í húsnæðismálum, rétt eins og það að geta átt þak yfir höfuðið skipti engu máli.
En í þeim málum hefur sigið hratt á ógæfuhlið hjá tugþúsundum fólks þannig að æpandi munur hefur verið á húsnæðiskjörum hér á landi og í nágrannalöndunum, sem verið er að bera okkur saman við.
Hinn viðamikli hluti "Lífskjarasamninganna" sem fjallar um húsnæðismál sýnir vel þá grundvallarþýðingu sem húsnæðismálin hafa.
Og loksins örlar á skilningi á því, að í raun er hið auða Keldnaland ekki síður miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu en svæði fyrir vestan Kringlumýrarbraut.
Þungamiðja byggðarinnar í heild er nefnilega austast í Fossvogsdal nálægt Smiðjuhverfinu í Kópavogi eins og sífalldur flutningur þjónustustofnana í Smárahverfið ber vitni um.
Því var fyrir löngu kominn tími til að setja uppbyggingu Keldalandsins á blað, og það vel að svo er gert í kjarasamningunum nú.
Sérstök lán og uppbygging Keldnalands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.