4.4.2019 | 19:45
Skoðanafrelsi forystufólks í verkalýðshreyfingunni er sjálfsagt mál.
Síðuhafi þessarar bloggsíðu tekur það ekki til sín að þurfa að biðjast afsökunar fyrir að hafa gagnrýnt harðlega nýja forystu í verkalýðsforystunni fyrir ábyrgðarleysi og atlögu að efnahagslífi landsins.
Þvert á móti er rétt að ítreka að ekkert óeðlilegt sé við það að þetta forystufólk hafi sýnt á yfirvegaðan og farsælan hátt þann löglega og eðlilega styrk sem felst í því að hafa verkfallsrétt í samræmi við lög og reglur þar um, rétt eins og að atvinnurekendur hafa rétt til að beita verkbönnum.
Hin nýja forysta virðist hafa staðist fylllega þær kröfur, sem gerðar eru til forystufólks á vinnumarkaðnum.
Þeir, sem hafa haft uppi mesta gagnrýni á hana hafa gert það með því að hjóla í manninn en ekki boltann, svo notað sé algeng orðalíking.
Forystufólkið hefur verið gagnrýnt fyrir sósíalískar skoðanir sem nálgist hinn gamla kommúnisma síðustu aldar.
Þetta er ekki nýtt fyrirbæri og skulu hér nefnd nokkur dæmi.
Forystumenn í mörgum verkalýðsfélögum á árunum 1930-1970 voru jafnframt félagar í Kommúnistaflokki Íslands 1930-1938 og í Sameiningarflokki alþýðu - sósíalistaflokknum frá 1938-1968, og vörðu kommúnistastjórnir erlendis hjá Stalín og öðrum kommúnistaleiðtogum.
Engu að síður voru stóðu þingmenn af þessum toga að Nýsköpunarstjórninni 1944-47 og að samningum vegna vinnudeilna á þessum áratugum í samræmi við lög þar um.
Og kjarasamningar sem mörkuðu spor, sem sjá má merki um enn í dag, svo sem 1955 og svonefndir Júnísamkomilagssamningar 1964 og 65 urðu að veruleika vegna þess að forystumenn á borð við Eðvarð Sigurðsson og Guðmund J. Guðmundsson höfðu löghlýðni og trúmennsku sína við skjólstæðinga sína og viðsemjendur í öndvegi, þrátt fyrir róttækar sósíalískar skoðanir.
Í samningunum á sjöunda áratugnum komu til skjalanna hliðarráðstafanir í félagsmálum og húsnæðismálum sem voru keimlíkar því sem nú hefur verið gert.
Þess má geta að í forystu verkalýðsfélaga hafa verið ýmsir félagsmenn í Sjálfstæðisflokknum í gegnum tíðina svo sem Sverrir Hermannsson, Pétur Sigurðsson sjómaður, Magnús Sveinsson og fleiri, sem unnu fyrir verkalýðsfélög og á félagsmálasviðinu.
Ættu að biðja okkur afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.