7.4.2019 | 11:10
Hljóðlátir snillingar á Íslandi.
Á ferli sínum hefur síðuhafi hitt nokkra hljóðláta snillinga sem flýðu sviðsljósið.
Meðal þeirra eru tveir tónlistarmenn sem voru greindir sem undrabörn á sviði tónlistar á þeim tíma sem Eystrasaltslöndin voru hluti af Sovétríkjunum.
Þeir voru því teknir kornungir til sérstakrar meðferðar í tónlistaruppeldi og fóru á mis við það að fá að vera venjuleg börn.
Síðan hrundu Sovétríkin og báðum skolaði til Íslands þar sem þeir gátu unað við tónlistarkennslu og frjálsa spilamennsku í dreifbýli Norðausturlands.
Eitt sinn er ég skemmti á Akureyri leitaði ég á náðir Pálma Gunnarssonar um undirleikara og benti hann mér á Eistlending í Mývatnssveit til að annast undirleik á ýmsum lögum í prógrammi mínu, sem sum voru frumsamin og alveg ný.
Ég var fullur efasemda en Pálmi kvaðst myndu éta hatt sinn ef þessi undirleikari klikkaði, sem auk undirleiksins þyrfti að leika undir borðhaldi og söng fjöldasöngva.
Við mæltum okkur mót við Sjallann tímanlega, en hann tafðist við málningarvinnu heima hjá sér og kom svo seint, klæddur í málningargallann, að ég hélt að kvöldið yrði hrein skelfing fyrir okkur.
Fyrstu upplýsingar hans um sjálfan sig voru þær að hann væri fiðluleikari!
Í stað uppáklædds píanóleikara var mættur þarna eistneskur fiðluleikari á skítugum gallabuxum með málningarslettum.
Svo settist hann við flygilinn og lét mig raula hratt helstu lögin á meðan hann hripaði hljóma á blað.
Þegar þessari ofurhraðferð var lokið sagði hann við mig að nú myndi væri hann auðvitað búinn a gleyma öllum lögunum neitt, og að ég yrði að hvísla upphafi laganna í eyrað á sér áður en ég byrjaði á þeim.
Svo hófst þrautagangan, sem breyttist fyrr en varði í hreina og gersamlega óvænta unun.
Hann spilaði dýrlega tónlist á flygilinn undir borðum, allt frá Bítlunum til Beethoven og Kaldalóns, kunni alla íslensku fjöldasöngvana, lék sér að því að breyta útsetningum og takti sumra laga minna af stakri snilld og var í stuttu máli einn af fimm bestu undirleikurum á píanó, sem ég hef haft á ferli mínum, en þeir eru sennilega ekki færri en hundrað.
Við nánari athugun kom í ljós að bæði hann og hinn Eistlendingurinn, sem minnst var á í upphafi þessa pistils gátu leikið á nánast hvaða hljóðfæri sem sett var í hendur þeirra, stjórnað kórum og hvaðeina.
Pálmi Gunnars þurfti ekki að éta hatt sinn.
"Hvað ertu að gera í Mývatnssveit?" spurði ég.
"Að fá að lifa eðlilegu lífi meðal góðs og venjulegs fólks í stað þess að vera fullorðið undrabarn í ferðatöskum á milli hljómleika" hljóðaði svarið.
Poppséníin sem flýðu sviðsljósið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fiðluleikari þessi lék eitt sinn í brúðkaupi með mjög skömmum fyrirvara og spurði hin erlendu brúðhjón þegar þau komu í kirkjuna hvort þau ættu sér óskalag. Þau spurðu hvort hann kynni "Whiter shade of pale" með Cream, sem fiðluleikarinn hafði reyndar aldrei spilað áður - hvað þá á kirkjuorgel.
Hann hugsaði sig um eitt augnablik og sagði svo að það ætti að ganga, fór upp á söngloft og spilaði lagið eins og þaulæft væri á meðan brúðurin var leidd inn kirkjugólfið (það er m.a.s. til upptaka af þessu).
Þú ættir að heyra í Pálma Gunnarssyni við tækifæri og fá hann til að segja þér frá tónleikum sem haldnir voru í Ýdölum á laugardagskvöld, þar sem "hinn" fiðluleikarinn frá Eistlandi var heiðraður í tilefni stórafmælis.
Þeir fjölmörgu tónlistarmenn og kórar sem fram komu fóru á kostum (og ekki síst þeir félagar) og mátti vart á milli sjá hvorir skemmtu sér betur, þeir sem á sviðinu stóðu eða nokkur hundruð áhorfendur í sal.
Það er engum ofsögum sagt um það hversu heppnir Norðlendingar hafa verið að fá allt þetta frábæra tónlistarfólk frá Eistlandi til sín í lengri eða skemmri tíma.
TJ (IP-tala skráð) 8.4.2019 kl. 11:59
Procol Harum, vildi ég sagt hafa (ekki Cream)...
TJ (IP-tala skráð) 8.4.2019 kl. 12:37
Rétt hjá þér Ómar minn, Valmar er einn mesti tólistarsnillingur sem rekið hefur á fjörur Norlendinga.
Svei (IP-tala skráð) 8.4.2019 kl. 13:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.