Ný aðferð við að skoða hag fyrirtækja: Skoða bara tekjuhliðina.

Þegar fréttir birtast nú af áhuga hjá ráðamönnum ýmissa ferðaþjónustufyrirtækja um stofnun lággjaldaflugfélags, leiðir það hugann að því hvernig þeir meti möguleikana á því með því að skoða, hvernig rekstur slíks félags geti orðið arðbær. 

Þeir skoða bæði tekjur og gjöld, debet og kredit.  

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi birtist hins vegar ný aðferð við að meta hag fyrirtækja eða hluta þeirra með þvi að segja bara fréttir af tekjuhliðinni af Kárahnjúkavirkjun, en láta útgjaldahliðina óskoðaða. 

Enda koma fréttir af afkomu Landsvirkjunar og einstakra hluta hans með skooðun á báðum hliðum rekstrar árlega frá fyrirtækinu og hafa því verið sagðar. 

En í umræddri frétt brá svo við að greint var frá því áliti Ketils Sigurjónssonar að raforkusala Kárahnjúkavirkjunar væri 11-12 milljarðar á ári. 

Það er að vísu frétt út af fyrir sig að þessi upphæð sé nefnd, því að söluverðið hefur frá upphafi verið "viðskiptaleyndarmál." þótt glöggir menn eins og Ketill og Sveinn Aðalsteinsson hér um árið, hafi með því að nota einfalda þríliðu getað komist nærri leyndarmálinu, sem fólst í allt of lágu orkuverði. 

Báðir fengu bágt fyrir hjá stóriðjunni, og var fróðlegt að fylgjast með því hvernig stóriðjufyrirtæki hröktu Ketil frá því að halda út hinu góða Orkubloggi sínu á sínum tíma svo að hann varð að leggja það niður. 

Það var sem sagt frétt að talan yrði nefnd eins og gert var í gærkvöldi, en þegar gefið var í skyn að þessi upphæð yrði aðaluppistaðan í Auðlindasjóði kárnaði gamanið, því að þá var gersamlega skautað fram hjá gjaldahliðinni sem felst meðal annars í afborgunum af stórum lánum og öðrum útgjaldaliðum vegna virkjunarinnar. 

Þetta er vægast sagt varasöm aðferð eins og sést á því, ef WOW air hefið verið ríkisrekið flugfélag og birt hefði verið frétt um miklu hærri tekjuhlið hjá WOW en hjá Kárahnjúkavirkjun og í framhaldinu greint frá möguleikunum á því að þessar tekjur gætu orðið meginstoð i auðlindasjóði tengdum fluginu.

Að vísu var forstjórinn í fréttinni spurður um skuldirnar en ekkert svar fékkst, aðeins að vonast væri til að orkuverðið hækkaði 2028. 

Og engar upphæðir voru nefndar varðandi útgjaldahliðina. 

En setjum sem svo að á móti 12 milljarða árlegri orkusölu komi 11 milljarðar á móti. 

Þá er upphæðin, sem skiptir máli, eins milljarðs arlegur hagnaður. Það er tólf sinnum minni upphæð en sú upphæð, sem fréttin snerist um. 

Nú er það að vísu sá munur á rekstri WOW og Kárahnjúkavirkjunar að WOW var rekið með tapi en Kárahnjúkavirkjun er sögð rekin með hagnaði. 

Sá hagnaður, meira að segja að mati núverandi forstjóra áður en hann tók við því starfi, var hins vegar allt of lítill frá upphafi, og auðlindarentan af virkjuninni langt fyrir neðan það sem eðlilegt hefði verið að mati Indria H. Þorlákssonar fyrrverandi ríkisskattstjóra, sem ætti að vita hvað hann er að segja. 

Og versta atriðið var ekki nefnt í sjónvarpfrétt gærkvöldsins, að Alcoa var með sérstöku og einstæðu ákvæði í samningum um virkjunana, að nota bókhaldsbrellur til þess að sleppa alveg, já alveg við það að borga nokkurn tekjuskatt af því stórgróðafyrirtæki sem álverið er í skjóli fríðinda og lágs orkuverðs.

Mat á framlagi Kárahnjúkavirkjunar til hugsanlegs Auðlindasjóðs hlýtur að þurfa að hlíta því hve stór ágóðahlutur hennar er af heildarágóða Landsvirkjunar þar sem margar virkjanir eru skuldlausar. 

 


mbl.is „Þó nokkur áhugi til staðar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Nú bíður maður bara spenntur fregna af því hvert nýja starfið hans Ketils verði, eða hvaða bitlingur er að falla honum í skaut. Slíkt er yfirleitt ástæðan þegar menn koma í fréttir til að afneita eigin niðurstöðum.

Þorsteinn Siglaugsson, 15.4.2019 kl. 20:29

2 identicon

Er þetta ekki óþarflega meinleg villa? Eða kannski ekki villa? "að mati Indria H. Þorlákssonar, sem hætti að vita hvað hann er að segja. "

Þorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 15.4.2019 kl. 22:42

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Auðvitað er þetta meinleg innsláttarvilla og verður leiðrétt, þótt seint sé. 

Ómar Ragnarsson, 15.4.2019 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband