Lengi lifir nærsýnin.

Það þarf ekki viðamikla rannsókn til þess að komast að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hafi notið góðs af miklum vexti þjóðartekna á síðasta áratug. 

En það er mikil einföldun að þakka það hlýnun loftslags jarðar þegar við blasir að megnið af þessum uppgangi er að þakka fordæmalausum vexti ferðaþjónustu, sem í upphafi byggðist á einu töfraorði: Eyjafjallajökull.  

Eldgosið þar kom Íslandi á varir alls mannkynsins og til þess að hnykkja á hinni gríðarlegu kynningu, sem Ísland hlaut, varð annað og ekki síður skætt eldgos árið eftir. 

Hlýnun eða kólnun loftslags hafði ekkert með þetta að gera, heldur var það fyrst og fremst hið einstæða samspil elds og íss auk sérstöðu hins eldvirka Íslands sem skóp stórauknar tekjur landsmanna. 

Hluti af þeirri ímynd, sem hægt var að "selja" fólst í jöklum landsins, og ef litið er aðeins lengra fram í tímann mun tapið af hvarfi jökla á borð við Snæfellsjökul ekki verða bætt. 

Í "niðurstöðum vísindalegrar rannsóknar háskóla" felst hrópandi mótsögn við hið alþjóðlega orð, sem notað er um háskóla: "University", sem felur í sér víðsýni og djúpa hugsun, alls óskylda því að dæmalaus uppgangur ferðaþjónustunnar á Íslandi sé hlýnun loftslags að þakka. 

Það er dæmi um mikla nærsýni í stað víðsýni, að öllu skipti fyrir hverja þjóð að einblína á tærnar á sjálfri sér og taka allra þrengstu skammtímahagsmuni fram fyrir miklu stærri hagsmuni, sem felast meðal annars í því að takast á við þverrandi auðlindir vegna rányrkju, bruðls og græðgi jarðarbúa. 


mbl.is Íslendingar hagnast á hnatthlýnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Nú þyrfti einhver, sem hefur vit á þessum málum, að rýna í þessa rannsókn. Hún er opin og aðgengileg eftir því sem ég fæ best séð.

Það er algeng villa í svona rannsóknum að samsama fylgni og orsakasamhengi. En ég veit ekki hvort sú villa er gerð í þessari rannsókn.

Hvað sem því líður er erfitt að sjá með hvaða hætti hlýnun jarðar ætti að skýra efnahagslegan uppgang á Íslandi. Ekki nema vegna þess að ég fæ ekki séð annað en að undirstöðurnar hafi hreinlega ekkert með lofthita að gera:

    • Árangur í sjávarútvegi er til kominn vegna góðrar sóknarstýringar.

    • Árangur í ferðaþjónustu er, eins og þú nefnir réttilega, tilkominn vegna eldgoss í Eyjafjallajökli. Þannig komst Ísland á kortið.

    • Árangur í stóriðnaði er tilkominn vegna lágs orkuverðs.

    • Og almenn áhrif aukins viðskiptafrelsis eru auðvitað veruleg.

    Ekkert af þessu hefur neitt með breytingar á lofthita að gera.

    Þorsteinn Siglaugsson, 6.5.2019 kl. 11:17

    2 Smámynd: Sveinn R. Pálsson

    Sumt af því sem borið er á borð í nafni loftslagsvísinda er ekki nógu vandað, eins og þessi umrædda rannsókn.

    Sveinn R. Pálsson, 6.5.2019 kl. 16:01

    3 Smámynd: Hörður Þormar

    Það má segja að "hrunið" og Eyjafjallajökull hafi komið Íslandi á kortið.

    Með hlýnandi loftslagi og aukinni gróðursæld má búast við að þetta stóra og að miklum hluta "óbyggða" land muni í náinni framtíð verða æ eftirsóttara til búsetu, einkum af fólki sem býr í löndum þar sem loftslagsbreytingin hefur þveröfug og háskaleg áhrif.

    Stefan Rahmstorf er haf- og loftslagsfræðingur sem hefur m.a. haldið fyrirlestur um Golfstrauminn við Háskóla Íslands. Hér fjallar hann um loftslagsmál:  Expert asks, can we control the climate crisis in time?

    Hörður Þormar, 6.5.2019 kl. 18:21

    4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

    Rétt athugað Hörður. Það er því svolítið einkennilegt að þeir sem hafa mestar áhyggjur af að suðrænir útlendingar utan Þjóðkirkjunnar komi til landsins, skuli gjarna einnig vera þeir sem láta sér í léttustu rúmi liggja yfirvofandi áhrif loftslagsbreytinga, og, eins og þú bendir á, áhuga hinna suðrænu og vantrúuðu á að setjast að hérlendis.

    Þorsteinn Siglaugsson, 6.5.2019 kl. 18:54

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband