Maðurinn; mesta villidýr jarðarinnar?

Nú nýlega ræddi David Attenborough um tölur sem varða lífmassa jarðarinnar. Þær voru sláandi og komu á óvart. Ef ég man rétt eru maðurinn sjálfur og þau dýr sem hann lifir á, 80 prósent af lífmassanum sem í þessu formi er til á jörðinni. 

Maðurinn hefur nýtt sér hugvit sitt til þess að búa til efnahagskerfi, sem byggjast á veldisvaxandi hraða svonefnds hagvaxtar, en stærstur hluti hans er ósjálfbær, það er, rányrkja eins og það heitir á góðri íslensku. 

Tegundum dýra, fugla og annarra lífvera fækkar með vaxandi hraða í takt við fjölgun mannanna, sem hver um sig þarf æ meira umleikis í bruðli og neyslu til þess að viðhalda skammtímagræðginni og hagvextinum. 

Þótt trúarbrögð heimsins séu með meginstef um frið og náungakærleika, finna öfgatrúarmenn afmarkaðar setningar í trúarritunum, sem snúið er í andhverfu trúarbragðanna, ófrið, átök, manndráp og eyðilegggingu. 

Helstu stórveldin, sem stóðu að upphafi og drápsrekstri Fyrri heimsstyrjaldarinnar, voru kristin og sendu unga menn hundruðum þúsundum saman út í opinn dauðann í nafni réttlætis og undir söngvum á borð við "Áfram, Kristmenn, Krossmenn!"

Í Seinni heimsstyrjöldinni margfaldaðist grimmdin og illskan hjá sömu stórveldum og fyrr. 

Óþarfi ætti að vera að minnast á skelfilegustu ógnina, sem oft hefur verið fjallað um hér á síðunni, MAD (Mutual Assured Destruction); á íslensku GAGA ( Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Alls). 

Aðeins nokkrir dagar síðan því var lýst yfir, að aðeins 10 mínútum hefði munað, að ráðist hefði verið á Íran vegna eins dróna, og að ef úr slíkri árás yrði, myndi hún fela í sér "gereyðingu Írans". 

Íransmegin telja öfgafullir klerkar flest réttlætanlegt fyrir sinn mikla Allah.

Minnisverð er ein athugasemd hér á síðunni fyrir nokkrum misserum, að fyllilega réttlætanlegt væri fyrir þá jarðarbúa, sem nú fara með völd á jörðinni, að gera hvað sem þeim sýndist og með hvaða afleiðingum, sem væri, vegna þess að "kynslóðir framtíðarinnar eru ekki til." 

Í gær var frétt um þá nauðsyn okkar Íslendinga að verða "Kúveit norðursins" í því æ hraðara kapphlaupi um neyslu orku, sem keyrð er áfram þrátt fyrir allt talið um að taka í taumana. 

Kúveit framleiðir víst 7 prósent af allri olíuorku jarðar, og öll vatnsorka og jarðvarmaorka Íslands er langt innan við eitt prósent af því. 

Samt er talað um að við stefnum sem óðast að því að verða stórveldi í að seðja óseðjandi orkuhungur jarðarbúa með því að fara út í stórfellda framleiðslu vindorku upp á þúsundir megavatta. 

Það mun væntanlega þýða að allt landið verði þakið vindmyllum. 

Að sjálfsögðu, því að í vaxandi eftirsókn eftir orku, sjá menn aðeins þá lausn að auka framleiðslu hennar með veldishraða en sýnast ekki detta í hug gera neitt til þess að ráðast að réttum enda á vandamálinu og minnka neysluna og bæta nýtingu orkugjafanna. 

 

 

 


mbl.is „Satt að segja, þá er ég orðlaus“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Vandamálið er stjórnlaus fólksfjölgunin.

Ef ekki tekst að stöðva hana er allt annað unnið fyrir gíg.

Eitt og eitt gereyðingarstríð duga hvergi til að leysa málið.

Það verður að gera eitthvað til að stöðva brjálæðið sem stefnir í að fjölga mannkyni og örbirgðinni um milljarða á næstu árum.Allt útblásrurstalið og olíubrennsla er píp ef það tekst ekki.

Halldór Jónsson, 28.6.2019 kl. 22:20

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Stjórnlaus mannfjölgunin er af sama toga og stjórnleysið á öðrum sviðum. Alveg sammála þér um þetta atriði. 

Ómar Ragnarsson, 29.6.2019 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband