17.8.2019 | 12:37
Sagan endalausa: Upplýsingaskortur um framkvæmdir.
Upplýsingaskortur í tengslum við framkvæmdir er gamalt og viðvarandi fyrirbæri hjá borgaryfirvöldum.
Eitt sinn var hálfri Háaleitisbraut norðan Miklubrautar lokað að morgni án viðvörunar, þannig að 700 manns komust ekki akandi til vinnu sinnar.
Verkstjórinn brást hinn versti við ábendingum um þetta og sagði að vegna þess hve lág tilboð verktakar yrðu að gera til að ná sér í verkefni, væri hvorki peningar né mannskapur til að standa í upplýsingagjöf.
Þegar leitað var eftir svörum hjá borginni kom loks í ljós, að upplýsingagjöfin er samkvæmt reglum þar um innifalin í tilboðunum.
"En hvers vegna er þá þessu ekki fylgt eftir af hálfu borgarinnar"? var spurt.
Og svarið var alveg samhljóða svari verkstjórans. Það er svo mikil mannekla og fjárskortur hjá borginni, að hún hefur ekki efni á því að hafa eftirlitið.
Eitt sinn var akrein úr norðaustri inn í Garðabæ lokað alveg við upphaf hennar en ekki einum gatnamótum norðar, svo að ökumenn gætu beygt fyrr inn í hverfið.
Aka þurfti fyrir bragðið fjóra kílómetra í hring til að komast í kirkju og fyrirtæki austast í Garðabænum.
Allir kannast við dæmi af þessu tagi, svo sem þegar Suðurlandsbrautinni var lokað vegna framkvæmda á þann veg að ökumenn voru nánast komnir fram á skurðbakka áður en þeir fengu að vita hvað væri á seyði.
Kostnaðurinn vegna óþarfa umferðartafa er áreiðanleg þúsundfaldur á við þann tiltölulega litla aukakostnað sem fylgir því að gefa upplýsingar.
Það virðist þurfa að fara til útlanda til að sjá hvernig á að gera þetta.
Fengu ekkert að vita | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.