10.1.2020 | 00:20
Besti útsýnisstaðurinn á Suðvesturlandi með mestu möguleikana?
Hæsti punktur á svæðinu í Bláfjöllum, sem nú á að fara að endurbæta, er í um 700 metra hæð yfir sjávarmáli. Vegna þess að þessi staður liggur sunnar og vestar en Vífilsfell, nær útsýnið úr Bláfjöllum yfir meirihluta Snæfellsnessfjallgarðsins, en Esjan skyggir á útsýnið af Vífilsfelli.
Sjónhringurinn er afar víður til annarra átta, upp til fjalla og jöklanna við suðurjaðar Langjökuls og þaðan austur um til Kerlingarfjalla og afrétta Sunnlendinga allt til Heklu, Tindfjallajökuls, Eyjafjallajökuls og út til Vestmannaeyja.
Ef jörðin væri ekki hnöttótt væri sjónlína frá þessum stað í Bláfjöllum austur til Öræfajökuls.
Og útsýnið til suðvesturs yfir Reykjanesskaga er afbragð.
Auðvelt væri að reisa smekklega byggingu þarna með aðstöðu til að njóta útsýnisins frá veitingastað með góðum sjónaukum og útsýnisskifum og leiðin frá núverandi skálum upp er tiltölulega stutt.
Að sumri til yrði þetta frábær staður fyrir ferðafólk, rétt hjá stórum eldgíg og einstæðum helli.
En þetta er aðeins hálf sagan, því að náttúruverndargildi þessa svæðis er mjög mikið, að ekki sé nú talað um gildi þess sem mörk dýrmæts vatnsverndarsvæðis fyrir allt höfuðborgarsvæðið, sem ekki verður metið til fjár.
Hvað, sem þarna verður gert og hvernig sem umferð um svæðið verður háttað, verður því að því að fara að með alveg sérstakri varúð, þar sem ákvæðið um það að náttúran njóti alltaf vafans, verði í hæstu metum.
Vonar að síðasta hindrunin sé að baki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.