27.2.2020 | 12:42
Það "Geirmundarlag", sem náði lengst, en var þó ekki eftir Geirmund?
Geirmundur Valtýsson hafði mikil áhrif á íslenska dægurtónlist, sem svo er stundum kölluð.
Til varð hugtakið "skagfirska sveiflan", sem var að vísu afar skyld svipaðri skandinaviskri tónlist þar sem Sven Ingvars var einn helsti brautryðjandinn á sjöunda áratugnum.
Við hlustun á útvarpsrásir með léttri tónlist á ferðalögum um Noreg hér um árið heyrðist vel skyldleiki á milli margra léttra laga tónlistarmanna norrænu frændþjóðanna.
Segja má að hápunkti hafi norræna sveiflan náð með sigurlagi Bobbysocks "La´det svinge" í Eurovision.
Hugsanlegt er að lagið "Eitt lag enn" hefði getað náð alla leið ef það hefði verið sungið á ensku. Raunar hafði Björgvin Halldórsson sungið annað lag með þessu nafni hér heima, erlent lag með íslenskum texta, löngu fyrr, en það er önnur saga.
Lagið, sem Sigga og Grétar skiluðu svona langt, var eftir Hörð Ólafsson, sem spilaði í hljómsveit Geirmundar á þeim tíma þegar Geimundur kom fram með hvern sveiflusmellinn á fætur öðrum, sem náðu langt í undankeppninni hér heima, en vantaði bara herslumun að verða sent til útlanda í lokakeppni.
Lagið eftir Hörð er undir það miklum áhrifum af hinni skagfirsku sveiflu Geirmundar, að það má gantast með þá spurningu, hvort það sé það "Geirmundarlag" sem hafi náð lengst, án þess að vera eftir Geirmund.
RÚV myndi spara á því að senda Ívu í Eurovision | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.