3.3.2020 | 11:56
Smart Fourtwo er kannski örbíll, en Renault Twingo ekki.
Framleiðendur Smart og Renault hafa með sér samstarf um framleiðslu Twingo og Smart.
Það felst í því að Smart er seldur í tveimur gerðum, og er önnur þeirra, Smart Fourtwo, tveggja sæta, með tvennar dyr og aðeins 2,69 m á lengd, en hin, Smart Fourfour er 80 sentimetrum lengri með sæti fyrir fjóra og fernar dyr.
Renault framleiðir stærri bílinn undir heitinu Twingo og er hann 3,62 m langur, l,66 m breiður og 1,55 m á hæð, en lætur Smart um að framleiða styttri bílinn líka.
Bíll af stærð lengri bílsins, álíka hár og breiður og svokallaðir "sportjeppar", getur engan veginn talist "örbíll", þótt lítill sé.
Í tengdri frétt er sagt að þessi bíll sé "örlítill" þótt hann sé bæði 19 sm lengri, 3 sm breiðari og 8 sm hærri en smábíllinn Toyota Aygo.
Renault hefur að vísu framleitt "örlítinn" rafbíl, sem heitir Twizy. Hann er raunverulegur örbíll, hægt að leggja þremur þversum í stæði, enda aðeins 2,34 m á lengd, 1,24 á breidd og 1,47 á hæð.
Ef Renault Twingo telst vera "örlítill" vantar alveg orð yfir Twizy, og eina ráðið að segja að hann sé "nærri ósýnilegur."
Notkun heitanna "sportjeppi" og "örbíll" eru dæmi um þann rugling, sem er uppi varðandi orðanotkun um bíla um þessar mundir.
Gallinn við styttri gerðina af Smart er sá, að rafhlaðan er aðeins 17,6 kWst og uppgefin drægni aðeins 124 kílómetrar. Sama rafhlaðan er í lengri gerðinni, en það blasti við hönnuðum Renault, að hluta af þeim 90 sentimetrum í lengd, sem fæst í þeim bíl, mætti nota til að stækka rafhlöðuna.
Uppgefin stærð rafhlöðunnar er 22 kWst sem er að vísu um 40 prósenta aukning, en þeir hjá Renault virðist sýna full mikla bjartsýni þegar þeir telja að aukningin á drægninni verði um 100 prósent, upp í 250 kílómetra.
Líklegra er að drægnin geti verið um 180 kílómetrar.
En það er að vísu risastökk, sem sést af því, að ferðatíminn á honum yrði vel á aðra klukkustund styttri frá Reykjavík til Akureyrar en á styttri bílnum, og það gerir þennan rafbíl afar áhugaverðan, einkum vegna þess að hann er með miklu krappari beygjuhring en nokkur annar bíll.
Twingo sem rafbíll | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mig langar ekkert að keyra til Akureyrar á einhverjum örbíl. Og ég legg það ekki á nokkurn mann. Alveg er Aygo-dósin sem ég á nógu ferleg milli RkV & Hvolsvallar.
Allir þessir míkr+o bílar, alveg uppi VW Golf eru til brúks innanbæjar.
Golf reyndar býr að því að vera Þýzkur, svo maður kemst alveg á ferð... en það gildir ekkert um aðra bíla í sama stærðarflokki.
Þetta vita Frakkar. Þeir bjóða upá spes bíla til þess að þræða einstigin sem þeir eru með í miðalda-borgunum sínum. Maður rekst stundum á þá inní skumaskotum: litla ferkantaða bíla með tvígengisvélar.
"Gallinn við styttri gerðina af Smart er sá, að rafhlaðan er aðeins 17,6 kWst og uppgefin drægni aðeins 124 kílómetrar. "
Það er alveg nóg innan borgarmarkanna.
Líta út eins og Golf, nema bara miklu minni. Það þarf víst ekki ökuleyfi á .á bíla. En þeir fara heldur aldrei út á hraðbraut. Komast ekki nógu hratt, yrðu flattir út af trukk innan korters.
Ásgrímur Hartmannsson, 3.3.2020 kl. 15:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.