Bíllinn sem braut sér leið til velgengni á eigin verðleikum.

Fyrir aldamót voru línurnar þannig í bílaheiminum, að flokkur meðalstórra dró heiti sitt af VW Golf og var kallaður Golf-flokkurinn í Evrópu. Toyota var með öflugan bíl, Corolla, sem var aðeins stærri en Golfinn, en í flokki smábíla náðu Toyota Starlet og Tercel aldrei að skáka Vw Polo, og virtist þessi öflugasti bílaframleiðandi heims á þessum árum ekki hafa nægan áhuga á smæstu bílunum. 

Það var að sumu leyti skiljanleg afstaða, því að í þessum lægsta verðflokki er hlutfallslegur gróði bílaframleiðenda einna lægstur vegna knappra fjárráða kaupenda, en bílar í miðflokki hins vegar gróðavænlegastir. Toyota Yaris 2000.

Það sætti því tíðindum þegar Toyota kúventi 1999 með smábílnum Yaris, þar sem búinn var til smábíll með nýju útliti, sem gaf honum sterk einkenni, en þar á ofan var þessi netti, litli og einfaldi bíll bæði vandaður og betri tæknilega en Starlet og Tercel höfðu verið. Toyota Yaris 2018

Yaris þurfti að keppa við afar góða bíla annarra framleiðenda í þessum stærðarflokki, og undruðust sumir kjark Toyota að hasla sér völl með svo smáum bíl. 

Mér hefur persónulega alltaf þótt hann frekar ljótur, en það lagaðist stórlega á næstu kynslóð hans þar sem hönnuðirnir tóku forystuna í útlitshönnun. 

En Yaris vann smám saman á, ekki síst eftir að 2. kynslóð og 3. kynslóð tóku við og bílinn var bæði stækkaður örlítið og útlit hans bætt til muna.

Með stækkuninni nálgaðist hann Polo að stærð, og í nýjustu útgáfunni núna heldur hann sig í meginatriðum aðeins fyrir neðan Polo að lengd en að öðru leyti í þeim stærðarflokki.Toyota Yaris 2020  

Smám saman varð Yaris að svipuðu heiti í flokki ódýrra bíla og Golf var í Golf-flokknum. 

Og ekki bara það, hann varð að tákni á borð við Volkswagen Bjölluna á sínum tíma.  

Menn tala um að þetta og hitt geti fólk gert á sínum Yaris. 

Það er ekki lítill árangur hjá bíl, sem var nánast óþekktur í upphafi ferils síns þar sem hann þurfti að brjóta sér leið til velgengni í keppni við skæða og gróna keppinauta. 

Í nýjustu kynslóð bílsins falla framleiðendur hans ekki í þá gryfju að stækka hann óhæfilega, heldur halda honum á svipuðum slóðum og fyrr þannig að hægt er að bjóða hann sem fyrr með 998 cc vél, og er það vel. 

 


mbl.is Toyota forsýnir nýjan Yaris
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Núna eru Yaris stórlega allt of dýrir.  Dacia Sandero gæti stolið af þeim markaðnum, ef fólk áttar sig á þeim bílum.

Reyndar eru allar Toyotur fokdýrar.  Miðað við allt.

Ásgrímur Hartmannsson, 6.3.2020 kl. 20:41

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Toyota fyllir upp í neðsta verðflokkinn með Aygo, sem er hálfum metra styttri bíll en tekur samt fjóra í sæti. En farangursrýmið líður fyrir lengdarskortinn. 

Ómar Ragnarsson, 6.3.2020 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband